«

»

Molar um málfar og miðla 1177

Fréttamenn Ríkisútvarps eru ekki öfundsverðir þessa dagana að fást við og kynna fjórtán framboð eða svo. Þeir eiga mína samúð. En til þeirra verður að gera kröfur. Í þættinum Forystusætinu á mánudagskvöld (08.04.2013) var rætt við fulltrúa Dögunar , Andreu Ólafsdóttur. Hún sagði, að 200 til 250 milljarða þyrfti til greiða niður skuldir heimilanna, og svo orðrétt: ,,Peningarnir bíða eftir því að verða notaðir…. Það er hægt að sækja þessa peninga beint inn í ársreikninga bankanna … Það er hægt að sækja þetta með hvalrekaskatti beint á bankana”.
Það fylgdi sögu að þessi skattur ætti að vera 90-99%! Engin tilraun var gerð af hálfu spyrjenda til að fylgja þessu bulli eftir. Á að þurrka upp eigið fé bankanna? Á að taka innistæður sparifjáreigenda og dreifa þeim til annarra? Engin eftirfylgni. Þetta eru ógóð vinnubrögð. Eftirfylgni í þættinum í gærkveldi (09.04.2013) var raunar mun betri en í fyrri þáttum. Kannski hressist Eyjólfur.

Það eru léleg vinnubrögð hjá Ríkissjónvarpinu að láta niðursoðna konurödd kynna sjónvarpsþætti um kynningu framboðslista í komandi kosningum með orðunum: Formaður eins framboðanna situr fyrir svörum …. Nafn formannsins ekki nefnt né heldur framboðsins. Þetta er ókurteisi gagnvart þeim sem í hlut eiga og gagnvart okkur áhorfendum. Þetta var sérstaklega áberandi í gærkveldi (09.04.2013). Niðursoðna konuröddin sagði: Nú situr formaður eins framboðanna fyrir svörum. Gat ekki sagt hver eða fyrir hvaða framboð. Svo kom þáttur með fulltrúa svonefndra Pírata og fréttamaður sagði: Enginn formaður leiðir starf Pírata! Í allri vinsemd. Hlífið okkur við svona rugli. Það er ekki boðlegt að vera með niðursoðnar dagskrárkynningar. Sá sem kynnir dagskrána verður að vera á staðnum , en ekki endilega í mynd.

Í fréttum Stöðvar tvö (08.04.2013) sagði fréttamaður okkur skýrt og greinilega frá nýjum lögum um lax- og silungarveiði! Halló Stöð tvö! Lax- og silungsveiði.

Norska ríkissjónvarpið endursýnir um þessar mundir þáttaröð sem heitir Norsk Polarhistorie sem fjallar um landkönnun og umsvif Norðmanna á norðurslóðum. Í ljósi vaxandi áhuga á norðurhjaranum og síauknum umsvifum þar væri þakkarvert ef Ríkissjónvarpið gæfi okkur kost á að sjá þessa þáttaröð. Minnist þess ekki að hún hafi komið á skjáinn hér.

Lesandi bendir á þessa frétt á mbl.is og spyr: „Hvenær ætli Gretna Green hafi verið flutt suður fyrir Skotland??“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/04/07/a_vaengjum_astarinnar_til_islands/ Mbl.is verður að svara því.

Annar lesandi segir (08.04.2013): ,,Sæll vertu Eiður, gaman að lesa pistlana þína,- fyrir páska las ég eftirfarandi fyrirsögn í uppskrift: Páskafyllt lambalæri. Hvað næst? “ Hvað næst: Næst hljóta að vera á dagskrá: Jólafyllt lambalæri!

Vikið hefur verið að því hér áður, að Ríkissjónvarpið okkar lítur fyrst og fremst á sig sem barnfóstru á laugardags- og sunnudagsmorgnum. Þá er sýnt misgott erlent barnaefni, – væntanlega með það í huga að foreldrar geti stillt börnum sínum upp fyrir framan sjónvarpið og fengið að sofa svolítið lengur í friði fyrir afkvæmum sínum. Hjá norðurlandastöðvunum er bitastætt efni, ætlað stærri hópi, yfirleitt á boðstólum á þessum tíma. Danska sjónvarpið (DR2) sýndi til dæmis um helgina afar áhugaverða heimildamynd sem kölluð var ,,Horfnu flugmennirnir” (Dogfight Over Mig Alley, – Windfall Films). Myndin fjallaði um orrustuflugmenn, einkum bandaríska, sem skotnir höfðu verið niður og teknir til fanga í Norður Kóreu í Kóreustríðinu 1950 til 1953. Fáir lifðu af og komust heim. Þeir voru fleiri sem ekkert spurðist til og talið var að einhverjir hefðu endað ævina í sovéska Gulaginu. Áhugavert á tímum vaxandi spennu á Kóreuskaga. Efni af þessu tagi fær ekki náð fyrir augum stjórnenda í Efstaleiti. Þaðan fáum við bara meira af fimmta flokks amerískum táningamyndum sem stjórnendur hafa óskiljanlegt dálæti á.

Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 1700 (08.04.2013) var sagt: … þar sem lýst var yfir stuðningi við manninum. Þetta hefði átt að vera: … þar sem lýst var yfir stuðningi við manninn, … þar sem lýst var stuðningi við manninn.

Góð fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins (08.04.2013) : Bitist um beit í skógi við Þórsmörk.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>