«

»

Molar um málfar og miðla 1180

Tvær kosningar í röð … , sagði fréttamaður Stöðvar tvö (11.04.2013). Eiginlega hefði maður haldið að það væru bara fréttabörnin sem gerðu sér ekki grein fyrir því að kosningar er fleirtöluorð og því hefði fréttamaður átt að segja: Tvennar kosningar í röð ….

Á miðvikudagskvöld (10.04.2013) var sagt í Ríkissjónvarpinu að kvöldið eftir mundi Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksin sitja fyrir svörum í þættinum Forystusætið. Þetta var svo endurtekið í fréttum Ríkissjónvarps. Niðursoðna (hér- hikk-á Rúv) konuröddin sem kynnir okkur dagskrá sjónvarps hélt sig samt við sama heygarðshornið á fimmtudagskvöldið og sagði: Formaður eins framboðanna situr fyrir svörum. Nefndi ekki hver. Þetta var svo endurtekið rétt áður en þátturinn þar sem Bjarni kom fram var sendur út á fimmtudagskvöld. Ekkert nafn. Bjarni var bara ,,eitt framboðanna”.Þetta eru ótrúlega léleg vinnubrögð sem Ríkissjónvarpið ætti að skammast sín fyrir. Niðursoðnar dagskrárkynningar sem teknar eru upp löngu fyrir útsendingu eru ekki boðlegar.

Talsmaður svonefndra pírata sagði á fundi í Stúdentakjallaranum ( Fréttir 11.04.2013) að það væri stefnumál pírata að almenningur fengi að fúnkera eins og hann vildi. Líklega er þetta öndvegis dæmi um innantómt og merkingarlaust bull.

Molalesandi skrifaði (11.04.2013) : ,, Í frétt á Pressunni um árekstur í Noregi segir:
„Eldur kom upp í flutningabílnum og fólk sat fastklemmt í bílum.“ Hver getur sagt mér muninn á því að vera fast- og lausklemmdur?” Af tvennu illu vildi Molaskrifari frekar vera ,,lausklemmdur”.

Hryllilega smart einbýli, er fyrir sögn á svokölluðu Smartlandi á mbl.is (12.04.2013) sem jafnan skarar fram hvað vandað málfar varðar. Þar er líka talað um fjölskylduheimili. Á ensku er talað um family home. Á íslensku tölum við um fjölskyldu og heimili. http://www.mbl.is/smartland/heimili/2013/04/12/hryllilega_smart_einbyli/

Arnbjörg þakkar Molaskrif og segir (12.04.2013): ,,Ég rakst á frétt á vef Ríkisútvarpsins, http://www.ruv.is/frett/sud-i-dronum-eykst, þar sem sífellt er talað um dróna, þ.e. mannlaus og fjarstýrð loftför. Þetta hafði ég aðeins áður séð hjá blaðamönnum DV en nú hefur málfarsráðunautur greinilega lagt blessun sína yfir þetta einnig.

Hvað finnst þér um þessa setningu: Fleiri ríki og jafnvel vopnaðir hópar sem ekki tengjast neinu ríki, eignist vopnaða dróna.

Ég á eiginlega ekki orð yfir þessu. En svo velti ég fyrir mér hvort eitthvað annað og betra orð sé til. Hefur þú hugmynd um það?”

Því er til að svara að ekki er Molaskrifari sérlega hrifinn af þessu nýyrði, dróni. Hafa Molalesendur tillögur um orð yfir þessar fjarstýrðu sprengjuflugvélar ?

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Sigurður H. Ólafsson skrifar:

    Hér er svo ein frétt á dv.is sem er ótrúlega illa skrifuð:

    http://www.dv.is/skrytid/2013/4/14/franskur-ferdamadur-drepinn-af-bjor/

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Dróni er auðvitað ekki nýyrði heldur tökuorð. Og sem tökuorð er það nákvæmlega jafngilt og til dæmis trukkur, nælon, bíll eða kúpling. En vilji einhver búa til nýtt orð um þetta fyrirbæri, fjarstýrða, vopnaða flugvél, er það vitaskuld hið besta mál. En til að nýyrði virki verða þau að falla fólkinu í geð. Annars fer fyrir þeim eins og flatbökunni, togleðrinu, bjúgaldininu og örtugnum. Lýsist nú eftir góðu orði, orði jafngildu og tölva, þota, svig eður blak. Helst má það ekki vera lengra en svosem tvö atkvæði og í hæsta lagi þrjú.

  3. Eiður skrifar:

    Þetta heyrðist svo sem líka í Silfri Egils áðan !

  4. Sigurður H. Ólafsson skrifar:

    Þágufallssýkin.
    „Öðrum vantaði“ er skýrt og greinilega tíundað í fyrstu frétt hádegisfrétta Bylgjunnar nú rétt áðan. Fréttin fjallar um að einstaklingsframboðin hafi verið úrskurðuð ógild í öllum kjördæmum landsins, nema Reykjavíkurkjördæmunum í suðri og norðri. Dapurt, eins og þú hefur marg oft bent á.

  5. Jón skrifar:

    Slá upp í einhverri Wodehouse-þýðingunni og sjá hvernig The Drones Club er þýtt!

  6. Eirný Vals skrifar:

    Ég skil illa þörf á nýyrði fyrir fjarstýrðar flugvélar, þó þær séu búnar sprengjum. EF við viljum endilega kalla mannlaus gereyðingarvopn þægilegu, stuttu nafni, líklega til þess eins að spara dýrmætt pláss, væri hel við hæfi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>