Ritsnilldin á dv.is lætur ekki að sér hæða (15.04.2013): Tveir norskir táningar voru í kastljósi norskra fjölmiðla nýlega þar sem þeir höfðu fundið mikið magn af pening og skiluðu honum. Sama villa er í fyrirsögn fréttarinnar. Það þarf meira en lítinn kjánagang til að skrifa um mikið magn af pening. Táningarnir fundu mikið fé, mikið af peningum.
Af visir.is (15.04.2013), – haft er eftir nýreknum ritstjóra Vikunnar: … en það er ekkert annað tímarit sem selur jafn mörg eintök yfir árið og Vikan. Tímarit selja ekki eintök. Tímarit seljast. Þau selja hvorki eitt né neitt. Dv.is hefur svo eftir framkvæmdastjóra útgáfufyrirtækisins sem gefur vikuna út, að ritstjórinn hafi staðið sig gríðalega vel ! Þessvegna hefur hún væntanlega verið rekin!
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (15.04.2013) var sagt frá því að eigandi Kosts hefði viljað reka verðkönnunarfólk ASÍ út úr verslun sinni. Notað var orðalagið að hann hefði viljað vísa fólkinu á bug. Molaskrifari er líklega sérvitur, en hann hefði ekki notað orðalagið að vísa á bug, heldur vísa frá, vísa burt eða bara reka út.
Í fréttum Stöðvar tvö (15.04.2013) var sagt: … og er fjöldi mála sem eru á borði hjá lyfjanefnd nú því óvenjumörg. Þetta er klúðurslega orðað að ekki sé meira sagt. Einfalt hefði verið að segja: Og eru því óvenju mörg mál nú til athugunar hjá lyfjanefnd. Mál eru mörg, fjöldi mála er ekki mörg.
Auglýsingadeild Ríkissjónvarpsins færir sig upp á skaftið. Nú er farið að auglýsa bjór undir yfirskini léttöls rétt fyrir kvöldfréttir (15.04.2013) . Hve lengi verður þetta látið viðgangast?
Allt mánudagskvöldið (15.04.2013) tönnlaðist niðursoðna konuröddin sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins á því að eftir seinni fréttir yrði rætt við formann eins framboðanna í þingkosningunum. Því var sleppt að nefna nafn Katrínar Jakobsdóttur formanns VG sem rætt var við. Löngu var vitað hver sæti fyrir svörum þetta kvöld. Það hlýtur að vera hægt að treysta konunni fyrir því að fara rétt með þessi nöfn. Enn einu sinni: Þetta er dónaskapur gagnvart þeim sem þarna sitja fyrir svörum og okkur áhorfendum.
Rétt er að hrósa stjórnendum Kastljóss fyrir að taka á málum sem lítt hafa verið rædd eða ekki rædd, eins og lyfjakostnaði krabbameinssjúklinga sem fjallað var um á mánudagskvöld (15.04.2013). Þetta var vel unnið og þarft verk. Kastljósið er í sókn.
Kínverski herinn hefur að sögn CCTV (16.04.2013) gefið út hvítbók um mátt sinn og megin og breytt hlutverk. Á ensku heitir ritið The Diversified Employment of China´s Armed Forces. Í fljótu bragði hallast Molaskrifari að því að þarna ætti orðið deployment betur við en orðið employment. Wikipedia segir: Military deployment is the movement of armed forces and their logistical support infrastructure around the world. Um employment segir: Employment is a relationship between two parties, usually based on a contract, one being the employer and the other being the employee.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
18/04/2013 at 18:32 (UTC 0)
Verður leiðrétt í Molum á laugardag.
Eiður skrifar:
18/04/2013 at 17:15 (UTC 0)
Rétt. Hlustaði á þetta aftur mér hefur misheyrst. Biðst velvirðingar á því.
Alma skrifar:
18/04/2013 at 13:38 (UTC 0)
Sæll Eiður. Varðandi þessa færslu hjá þér:
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (15.04.2013) var sagt frá því að eigandi Kosts hefði viljað reka verðkönnunarfólk ASÍ út úr verslun sinni. Notað var orðalagið að hann hefði viljað vísa fólkinu á bug. Molaskrifari er líklega sérvitur, en hann hefði ekki notað orðalagið að vísa á bug, heldur vísa frá, vísa burt eða bara reka út.
Í fréttum Ríkisútvarpsins var ávallt notað orðalagið að vísa á dyr, ekki að vísa á bug.