«

»

Molar um málfar og miðla 1194

Hvar er íþróttarás Ríkissjónvarpsins? Í gærkveldi (01.05.2013) seinkaði dagskránni um næstum 45 mínútur vegna íþrótta. Ríkissjónvarpið hvorki skýrði né afsakaði seinkunina. Það sýnir áhorfendum ómældan dónaskap. Enn einu sinni. Niðursoðin konurödd kynnir dagskrána og þar er engu hægt að breyta ef eitthvað ber út af. Þetta háttlag er stjórnendum Ríkisútvarpsins til skammar. Þetta gerir engin alvörusjónvarpsstöð.

Gamall vinur og skólabróðir Molaskrifara, sem lengi hefur búið erlendis skrifaði (29.04.2013) : ,, Nú eru greinahöfundar alveg hættir að beygja nafnorð. Leti? Vanþekking? Áahugaleysi?
Úr grein Kristins E. Hrafnssonar, en í henni fjallar hann um ráðningu nýs rektors Listaháskólans, í Mbl. í dag.
Þá er nokkuð fjallað um störf hennar sem bókmennta- og menningarrýnir, rithöfundur, blaðamaður og þýðandi og greint frá störfum hennar við RÚV og þá eru tíunduð nefndarstörf.
Ég hefði látið samanburðartenginguna stýra eignarfalli: …sem bókmennta- og menningarrýnis, rithöfundar, blaðamanns og þýðanda …….
Kannski er þetta bara smekksatriði? Hvaðan í ósköpunum er þetta þá komið inn í hausinn á mér?” Molaskrifari svarar, – þú hefur greinilega orðið fyrir áhrifum frá góðum íslenskukennurum og lestri góðra bóka. Fréttamaðurinn hefur sennilega farið á mis við slík áhrif. Þakka bréfið.

Sigmundur Davíð tók daginn snemma, sagði Ríkissjónvarpið okkur (01.05.2013). Fram kom í fréttinni að hann hafði mætt í þinghúsið til fundar upp úr klukkan tíu. Ja, hérna.

Lesandi benti á þessa frétt á mbl.is (27.04.2013) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/04/27/niu_ara_stulka_skorin_a_hals/
Sá sem þetta sendi spyr: ,,Er þetta orðalag skv. íslenskri málvenju og eðli máls?“ Því er skemmst til að svara að svo er auðvitað ekki. Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, sem kann íslensku flestum betur segir á Fésbókarsíðu sinni: „Stúlka var skorin á háls“. – ,,Vita ekki fjölmiðlamenn hvað það er að skera á háls? Svo virðist ekki vera . – Það er aflífun með því að láta blæða út”.- Hárrétt.

Íslendingar halda að þeir séu mjög góðir í ensku. Nýlega var á það bent að í auglýsingu í búðarglugga í Bankastræti er talað um unpredicted weather þar sem ætti að standa unpredictable weather. Á Selfossi er málað stórum stöfum á hús: Handverk – Handcraft. Orðið handcraft er ekki rétta orðið þarna. Íslendingar eru oftar en ekki, hreint ekki eins góðir í ensku og þeir halda. En þurfa ekki að leita ráða hjá öðrum, – ekki um þetta frekar en annað.

Af fréttavef Ríkisútvarpsins (29.04.2013): Jakob Frímann Magnússon hefur ekki fengið úr því skorið hvort Davíð Stefánsson frá Fagraskógi er afi sinn. Ef málfarsráðunautur er enn starfandi hjá Ríkisútvarpinu ætti hann að spjalla svolítið við þann sem skrifaði þessa frétt! Hvort Davíð Stefánsson er afi sinn!

Ljóst er að mikill áhugi er meðal krakkanna um að ganga í skóm fullorðna fólksins, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (29.04.2013) þar sem sagt var frá leikriti þar sem börnin leika fullorðna og fullorðnir leika börn.

Í fréttum Ríkisútvarps og sjónvarps (30.04.2013) var talað um áhættur. Orðið áhætta er ekki til í fleirtölu skv. beygingavef Árnastofnunar. Áhætta er eintöluorð. Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur ekkert umboð til að breyta því.

Samkvæmt okkar upplýsingum úr forsetaembættinu, sagði ábúðarmikill fréttamaður Ríkisútvarpsins (29.04.2013)á hlaðinu á Bessastöðum. Í sama fréttatíma heyrðist það sem áður hefur heyrst, að mál Bjarna Ármannssonar vegna meintra skattalagabrota verði vísað frá dómi. Máli var vísað frá dómi.

Þegar Molaskrifari skoðaði dagskrá Ríkissjónvarpsins í kvöld, fimmtudagskvöld, (02.05.2013) vaknaði spurningin: Hversvegna erum við með Ríksisjónvarp? Prísar sig sælan að eiga miða á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Með ólíkindum, Egill.

  2. Gunnar skrifar:

    „… að skjóta táragösum um allt …“ sagði Andri Freyr á Rás 2 áðan. Er hægt að bjóða hlustendum svona lágkúru fimm daga vikunnar?

  3. Egill skrifar:

    Handboltaleikurinn var á tímabili sýndur á allt að 5 stöðvum á sama tíma í gær. RÚV, RÚV+, RÚV-HD, RÚV-Aukarás og SportTV. Ég gæti hafa ruglast þegar ég var að stilla á milli stöðva, en þetta jaðraði við fáránleika. Þetta átti ekki að vera á aðalrás Ríkissjónvarpsins, frekar en aðrir íþróttakappleikir. Það er meira en nóg af íþróttum fyrir á þeirri stöð, til hvers að vera þá með sér íþróttarás?

    Svo sá ég á vefsíðu SportTV setninguna: „Keflavík unnu leikinn í kvöld á móti KR …“ Ótrúlegt að sjá svona!

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>