„Kjörstaðir loka klukkan tíu,“ var sagt hvað eftir annað (24.04.) í sjónvarpi ríkisins,RÚV, í gærkveldi og í morgun var talað um að kjörstaðir opnuðu. Kjörstaðir loka auðvitað ekki neinu og opna ekki neitt. Kjörstaðir voru opnaðir klukkan níu eða tíu að morgni kjördags. Þá hófst kjörfundur. Kjörstöðum var lokað klukkan tíu að kveldi kjördags. Þá lauk kjörfundi. Enn ein vitleysan heyrðist svo í fréttum Stöðvar tvö klukan 1830: „Kjörstöðum lokar klukkan tíu.“ Einkennilegt að geta ekki haft jafneinfalda hluti rétta. En ekki heyrði ég betur en þær Margrét Marteinsdóttir og Þórdís Arnljótsdóttir færu báðar rétt með þetta í fréttum RÚV sjónvarps klukkan 1900. Þær fá hrós fyrir það.
Framsóknarblogghestur skrifar á kjördag:„Ríkisstjórnin leynir kjósendum upplýsingum um raunverulega stöðu mála.“ þarna á hann við að ríkisstjórnin leyni kjósendur upplýsingum, eða haldi upplýsingum leyndum fyrir kjósendum.
Beygingafælni breiðist út. Svona hefst færsla bloggara (23.04): „Ég vil byrja á því að óska ykkur Gleðilegt sumar.“ Þarna ætti auðvitað að standa, – óska ykkur gleðilegs sumars. Þar að auki á ekki að vera stór stafur í gleðilegt.
Hér var nýlega vikið að slettunni „bröns“, en Sjálfstæðismenn buðu stuðningsmönnum til slíkrar máltíðar. Nú heyri ég að veitingastaðurinn VOX í Nordica hótelinu notar þessa slettu líka í auglýsingum. Það er óþarfi að láta þessa slettu festast í málinu og heitir nú Molahöfundur á orðhaga menn að búa til nýtt orð yfir þessa máltíð sem í senn er morgunverður og hádegisverður. Það gerist þó líklega ekki fyrr en hin pólitíska víma er runnin af mönnum.
Um allt annað: Fyrir langa löngu setti útvarpsráð þá reglu að ekki mætti auglýsa dansleiki. Orðið dans varð bannorð í auglýsingum. Þetta átti, að áliti góðtemplara , að sporna gegn lausung og spillingu, víndrykkju og hverskyns ósóma. Þetta var fáránlegt. Strax fóru að birtast auglýsingar um dansleiki, sem voru í þessa veru: Verðum í Húnaveri í kvöld. Hljómsveit Péturs og Frikriks. Hljómsveit BB leikur í Þórskaffi kvöld. Enginn talaði um dans. En allir vissu hvað var verið að auglýsa. Útvarpið líka. Fyrir kosningarnar núna auglýstu stjórnmálaflokkarnir hver um annan þveran samkomur þar sem boðið var upp á „léttar veitingar“ Orðin „léttar veitingar“ þýða að áfengi verður á boðstólum. Bannað er að auglýsa áfengi. Svona fara stjórnmálaflokkarnir í kringum lögin sem fulltrúar þeirra samþykktu á Alþingi.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
doddý skrifar:
26/04/2009 at 20:35 (UTC 1)
sæll eiður. á skjá einum er íslenskur þáttur sem tveir ágætir karlmenn sjá um. efni þáttarins snýst um að ákveðin kona fær aðstoð þeirra við að finna út hvernig hún fangar fegurð sína og getur látið ljós sitt skína. en – það er ofboð að heyra málfar annars mannsins þegar hann ítrekað talar um lappir á manneskjum. annars er þetta ágætur þáttur og þáttastjórnendur skila sínu ágætlega að öðru leyti. kv d
Eiður skrifar:
26/04/2009 at 11:55 (UTC 1)
Sæl Jóhanna Guðný, – einhverra hluta vegna fæ ég villutilkynningu á skjáinn þegar ég samþykki sem bloggvin.