«

»

Molar um málfar og miðla 1204

Egill skrifaði (14.05.2013): Á dv.is í dag, þriðjudag: „Hún segist þyngjast um 20 kíló á sex mánaða fresti.“ Ég vildi ekki vera nálægt þessari konu á því augnabliki sem hún springur út um 20 kíló. E.t.v. hefur blaðamaður átt við á sex mánaða tímabili.- Já rétt er það Egill. Eins gott að vera í hæfilegri fjarlægð!

Af mbl.is (12.05.2013) : Refir sem lifa á búsvæðum við sjávarsíðuna, meðal annars hér á landi, hafa safnað miklu magni af kvikasilfri í líffærum sínum. Seint verður sagt að þetta sé lipurlega skrifað. Breytingartillaga: Mikið kviksilfur safnast í líffæri þeirra refa hér á landi sem halda sig mest við sjávarsíðuna.

Borgin er staðsett við landamærin, var sagt í fréttum Bylgjunnar á sunnudagsmorgni (12.05.2013). Borgin er við landamærin. Orðið staðsett er þarflaust þarna.

Lesandi skrifar (13.05.2013): ,,Þakka þér fyrir bloggið þitt, ekki veitir af. Lögreglan á Egilsstöðum leitaði“ í dyrum og dyngjum “ en ekki; dyrum og dyngjum. Að versla hitt og þetta sér maður alla daga. Það er orðið fast í málinu, eins og að taka þátt.
Af nógu er að taka, en þakka þér fyrir
árveknina.” Molaskrifari þakkar bréfið.

Í ágætum þætti Á Sprengisandi á Bylgjunni (12.05.2013) var talað um fjórar kosningar þar sem tala hefði átt um fernar kosningar.

Vinna við nýju íbúðirnar hófust í mars, var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (12.05.2013). Öllum verður það á að mismæla sig. Verra er þegar fréttalestri er haldið áfram, án leiðréttingar, eins og ekkert hafi í skorist. Þá er fréttalesarinn ekki að hlusta á eigin lestur. Grundvallarregla.

Eitthvað skolaðist til í Landanum í heimsókn á Listahátíð barnanna í Reykjanesbæ í Duus-húsi í Keflavík þar sem talað var um þessa stakkstæðu. Átti að vera: Þetta stakkstæði. Stakkstæði er reitur, fiskþurrkunarreitur þar sem saltfiskur var breiddur til þerrris, sólþurrkaður. Talað var um að breiða og taka saman. Að kveldi var fiskinum stakkað, hlaðið í stafla á reitnum.

Á vefnum veiða.is stendur (13.05.2013) Laugarvatn hefur verið í uppáhaldi hjá all mörgum veiðimönnum og er ljóst að þar er hægt að gera frábæra veiði. http://veida.is/index.php/frettir/382-fott-veidhi-i-laugarvatni
Allt er nú gert ! Það var góð veiði í Laugarvatni. Menn gera það það gott, en þeir sem veiða vel gera ekki góða veiði.

Morgunblaðið var í gær (14.05.2013) með snotra frétt um sjötugsafmæli forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, og gat þess kurteislega í leiðinni að hann væri staddur á landinu! –Orðabókin segir um að vera staddur þar, sem dvelur e-s staðar í stuttan tíma. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/05/14/olafur_ragnar_grimsson_sjotugur/

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>