«

»

Molar um málfar og miðla 1206

Í fréttum Ríkissjónvarps (14.05.2013) var sagt: Kristján segir að fyrirbyggjandi aðgerðir eins og þessari fari fjölgandi … Hér er ekki vel að orði komist. Fréttamaður hefði átt að segja: Kristján segir að fyrirbyggjandi aðgerðum eins og þessari fari fjölgandi …

Af mbl.is (14.05.2013): Fiskurinn nam hvorki meira né minna en 46,7 kíló og var um 150 cm langur. Fréttinn var um Norðmann sem veiddi óvenjulega vænan þorsk á stöng. Það er út í hött að segja: Fiskurinn nam hvorki meira né minna en … Gunnar sendi línu og vitnar einnig þessa frétt og tiltekur seinni hluta hennar: ,, Alþjóðlegu sportveiðisamtökin staðfestu metið en næst stærsti skráði þorskur sem veiddur hefur verið með veiðistöng þar til nú er 44,5 kg og var hann veiddur í New Hampshire í Bandaríkjunum árið 1969. Michael Eisele veiddi þorskinn Noregi í síðasta mánuði.“
Svo mörg voru þau orð. Frá upphafi hvers? Nam hvorki meira né minna en 46,7 kg? Næst stærsti þorskur þar til nú? Veiddi þorskinn Noregi? Óttalegt bull er þessi frétt! – Molaskrifari þakkar bréfið.

Af mbl.is (16.05.2013): Móðirin fylgdist grannt með dómaranum lesa upp á meðan faðirinn draup höfði, segir í frétt Aftenposten. Hér er ruglað saman sögnunum að drjúpa og að drúpa. Að drjúpa er að falla í dropum, leka. Að drúpa er að slúta niður , hanga. Að drúpa höfði er að vera gneypur, sitja álútur (Íslensk orðabók) Hér hefði átt að segja : … faðirinn drúpti höfði.

Ruslakista Ríkissjónvarpsins er á sínum stað í kvöld (17.05.2013). Fyrst uppsuða um Evróvisjón. Svo þrjár kvikmyndir. Þar af eru tvær endursýndar. Niðursoðna konuröddin mun að venju halda því leyndu fyrir okkur að verið sé bjóða okkur endursýnt efni. Tvær af þessum þremur myndum fá einkunnina 5,5 (af 10,0) hjá IMBd. Eru sem sé í ruslflokki. Þriðja myndin (6,7) gæti verið í miðlungsflokki. Hvers eigum við að gjalda?

Enn eitt dæmið um beygingafælni, – eða bara vankunnáttu. Af mbl.is (15.05.2013: Algengt er að flóttamenn sem leita skjóls á Íslandi hafi verið hótað ofbeldi og pyntingum án þess að falla formlega undir þau skilyrði alþjóðalaga um pyntingar. Hér ætti að standa: Algengt er að flóttamönnum sem leita skjóls á Íslandi hafi verið hótað ofbeldi og pyntingum án þess að falla formlega undir þau skilyrði alþjóðalaga um pyntingar. Þetta er ekkert flókið, – ef menn kunna grunnatriðin í notkun móðurmálsins.

Í Ríkisútvarpinu (15.05.2013) var pistill þar sem þess var minnst að 150 ár eru liðin í sumar frá fæðingu Ólafíu Jóhannsdóttur sem vann merkilegt starf í Osló meðal ungra stúlkna sem lent höfðu á glapstigum, óreglu og vændi og voru margar hrjáðar af kynssjúkdómum. Hún var einstök, einlæg trúkona sem vann göfugt starf. Hún barðist fyrir bindindi og réttindum kvenna. Í bæði tali og texta var talað um kennsluréttindakonuna Óalfíu Jóhannsdóttur: ,,Þetta er kennsluréttinda- og baráttukonan Ólafía Jóhannsdóttir sem gerði garðinn frægan í Osló meðan borgin hét enn Kristianía”. Í pistlinum var hvergi vikið að kennsluréttindum. Fyrir nokkrum árum las Molaskrifari prýðilega bók , ævisögu Ólafíu eftir dr. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur. Þar voru engin kennsluréttindi til umræðu, muni Molaskrifari rétt. Hér hefur eitthvað skolast til, eða hvað? Var verið að rugla saman kennsluréttindum og kvenréttindum? Hvað var hér á ferð? Það var þarft verk fyrir nokkrum árum þegar borgaryfirvöld í Osló fluttu brjóstmynd af Ólafíu sem var eiginlega komin inn í umferðarmannvirki á snotran stað við Akerána. Þar fer vel um hana.

Molaskrifari hefur stundum varað við óþarfri þolmyndarnotkun sem getur gert merkingu óljósa. Dæmi af fésbók (15.05.2013): Þegar þjóðin er búin að leggja heilsársveg að Dettifossi að vestanverðu á að fara að rukka aðgengi af eigendum. Hér er það ekki alveg ljóst hvor eigendur ætla að rukka gesti eða hvort eigendur verða rukkaðir. Betra hefði verið, til dæmis: Þegar þjóðin er búin að leggja heilsárveg að Dettifossi ætla landeigendur að innheimta aðganseyri.

Gerir Ríkisútvarpið ekki lengur kröfur um að fréttaþulir lesi reiprennandi og séu áheyrilegir ( kvöldfréttir 16.05.2013)?

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>