Áskell skrifaði (19.05.2013): „…Hann notar hjólið oft sem samgöngumáta til og frá vinnu og var virkur þátttakandi í átakinu Hjólað í vinnuna. …“ segir á mbl.is Nú er spurt: Hvers vegna er verið að sulla orðinu „samgöngumáti“ í fréttina? Dugar ekki að segja að maðurinn noti hjól til að fara á milli heimilis og vinnu?” Þetta er hárrétt, Áskell. Þetta orð er óþarft með öllu.
Enn er ruglað saman eftirmálum og eftirmála. Í morgunútvarpi Rásar tvö (21.05.2013) var talað um óróa í undirheimum glæpalýðs á höfuðborgarsvæðinu. Vísað var til tiltekins máls og talað um að þar yrðu ekki eftirmálar. Eftirmáli, er pistill eða kafli í bókarlok. Eftirmál (sem nota hefði átt þarna) eru afleiðingar af einhverju sem gert hefur verið eða ógert látið. Líklega er þetta í þriðja er fjórða sinn sem þetta er nefnt í Molum.
Gott var að fá til tilbreytingar svolitla alvöru umfjöllun um erlend málefni eins og í ágætu viðtali Boga Ágústssonar við breska stjórnmálamanninn John Prescott í Ríkissjónvarpinu á þriðjudagskvöld (21.05.2013). Ef frá eru talin stopul viðtöl í Silfri Egils (sem oftar en ekki varða íslensk málefni) sinnir Ríkissjónvarpið erlendum málefnum sama og ekkert og erlendar fréttir eru hornreka.
Rétt fyrir hvítasunnu heyrði Molaskrifari talað um fiskveiðibát í fréttum Ríkisútvarps. Heyrðu fleiri, því sá málglöggi skrifari Sigurður G. Tómasson sagði á fésbók: ,, Heyrði í fréttum Ríkisútvarpsins og las á netinu að bilun hefði orðið í „fiskveiðibáti“ á Húnaflóa og hann dreginn til hafnar. Svona skip hafa hingað til heitið „fiskibátar“ enda þýðir kvenkynsorðið fiski, fiskafli, eða fiskveiði. Mér finnst styttri útgáfan betri.” Molaskrifari tekur undir með Sigurði G.
Auglýsingadeild Ríkisútvarpsins lætur ekki deigan síga. Nú er byrjað að auglýsa bjór í morgunútvarpi. Klukkan sjö á morgnana. Ótrúlegt.
Í fréttum Ríkissjónvarps (21.05.2013) var talað um að þekkja vel staðarhætti. Venja er að tala um að þekkja staðhætti, ekki staðarhætti.
Dálítið glúrin fyrirsögn í Morgunblaðinu á miðvikudag (22.05.2013): Lyftan er himnasending. Fréttin er um turnlyftuna í Hallgrímskirkju, en rekstur hennar skilaði 58 milljón króna tekjum í fyrra. Hún færir gesti svolítið nær himninum. Hver segir svo að ferðafólk hafi ekki áhuga á að greiða fyrir aðgang að eftirsóknarverðum stöðum?
Ríkisjónvarpið auglýsir ekki neina þætti jafn mikið og þættina sem útvarpsmaðurinn Andri Freyr Viðarsson fær að gera um sjálfan sig. Hvað veldur?
Í morgun (22.05.2013) sagði þessi útvarpsmaður í Virkum morgnum á Rás tvö: Hvað finnst þér um það að núna klukkan kortér yfir ellefu er ný ríkisstjórn sett (svo!) og þá verður gripið fyrir hendur okkar (svo!) hér á Rás tvö og fundinum útvarpað. Ja, hérna. Á ekki Ríkisútvarpið að vera til fyrirmyndar um málfar? Þetta er auðvitað ekki boðlegt málfar í þjóðarútvarpinu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
23/05/2013 at 17:09 (UTC 0)
Að sjálfsögðu. Enn betra, Bergsteinn.
Bergsteinn Sigurðsson skrifar:
23/05/2013 at 14:20 (UTC 0)
„Dugar ekki að segja að maðurinn noti hjól til að fara á milli heimilis og vinnu?“
Dugar ekki að segja að maðurinn hjóli í og úr vinnu.