«

»

Molar um málfar og miðla 1212

Sigurður H. Ólafsson skrifaði (22.05.2013) : ,,Í síðasta mola þá fjallaðir þú um Vaðlaheiðargöng, eða öllu heldur beygingu orðsins „göng“, sem er þörf áminning.
Þá datt mér í hug að senda þé vangaveltur mínar sem ég hef burðast lengi með og finnst alltaf jafn ergilegt að heyra eða sjá á prenti.
Þær vangaveltur eru um orðið „undirgöng“, sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum virðist vera búið að festa rætur svo rækilega í íslensku máli, bæði í ræðu og riti.
Ég spyr: Af hverju þarf að flækja málið með þeim hætti að segja undirgöng í stað þess að segja bara göng?
Þessu fylgir nefnilega alltaf svo ankanalegt orðalag, nefnilega „undirgöng undir veginn“!
Því ekki bara „göng undir veginn“? Göng er alveg nóg. Annað hvort eru þau undir eitthvað, í gegnum, nú eða kannski yfir.
Ef eitthvað er til sem heitir „undirgöng“, þá ætti að sama skapi að vera til „gegnumgöng“ og þá „yfirgöng“ ef því væri að skipta.
Það væri gaman að heyra þitt álit á þessu.” Sammála þér, Sigurður. Var næstum fallinn í þessa gryfju í dag. Var í þann veginn að skrifa,,undirgöng undir Hafnarfjarðarveg”, en áttaði mig í tæka tíð!. Þakka þér bréfið.

Þessi fyrirsögn á dv.is (22.05.2013): Fannst látinn eftir að hafa fallið útbyrðis í desember, er með ólíkindum. http://www.dv.is/frettir/2013/5/22/fannst-latinn-eftir-ad-hafa-fallid-utbyrdis-i-desember/

Orðið meðlimur ríður víða húsum fjölmiðla. Í sjö fréttum Ríkisútvarps að morgni fimmtudags (23.05,.2013) var sagt: Ellefu hinna látnu voru meðlimir hernaðaryfirvalda. Að vera meðlimur hernaðaryfirvalda er meira en lítið klúðurslegt orðalag. Voru þetta ekki bara hermenn?

Við erum komnir í samband við dóttir hans, sagði hraðfréttasnillingur Ríkisjónvarpsins við okkur í gærkveldi (24.05.2013). Þá voru jafnframt fluttar þær góðu fréttir að þátturinn í gærkveldi væri síðasti þáttur Hraðfrétta. Það þýðir að bullmagnið frá Efstaleiti minnkar svolítið.

Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður skrifar oft góða pistla í Mogga. Stundum fatast henni flugið, – eins og okkur öllum. Í pistli á fimmtudag (23.05.2013) segir Kolbrún í skrifum um nýjan forsætisráðherra: ,,Það sakar svo ekki að Sigmundur Davíð nýtur velvildar forseta Íslands“ . Forseti Íslands á ekki að hafa neina opinbera skoðun á þeim einstaklingi sem er forsætisráðherra landsins. Hann á að láta forsætisráðherra í friði. Ég man ekki til þess að Davíð Oddsson nyti sérstakrar velvildar forseta Íslands þegar hann settist í stól forsætisráðherra 30. apríl 1991. Það kom ekki að sök.

Fréttamenn þurfa að huga að framburði erlendra staðaheita í fréttalestri. Í átta fréttum að morgni fimmtudags var talað um borgarhlutann Woolwich í London þar sem viðurstyggilegt morð hafði verið framið úti á götu um hábjartan dag. Fréttamaðurinn talaði ítrekað um /vúúlvits/. Réttur framburður er /vúúlits/. Ríkissjónvarpið var búið að ná þessu réttu um kvöldið, en sama vitleysan var í fréttum Stöðvar tvö.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

8 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Gott er að heyra, Valgeir. Þú lætur ekki deigan frekar en fyrri daginn.

  2. Valgeir Sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Heil og sæll, Eiður, og kærar þakkir fyrir hvernig þú heldur mér lifandi í málfarslegum efnum í elli minni! Mér er ekki alveg ljóst hvað vantar í hjá mér, og kenni þar Elli kerlingu um. Ég birti aðeins helminginn af vísu Jónasar, fannst hún of löng í heild. – En: Bréfritari þinn blöskrast yfir því að orðið undirgöng sé að festast í málinu. Festast í málinu! Þetta gamla orð, sem hefur lifað góðu lífi í tungu vorri allt frá dögum Jónasar Hallgrímssonar – og raunar lengur. Þótt nú sé það án efa ofnotað – og sjálfsagt ekki alltaf smekklega. Það var þetta sem ég vildi benda á, en ég veit vel, Eiður, að mér hættir oft til að skrifa of knappan stíl. Þar getur nú orðið of mikið af því góða!

    K kv. VS.

  3. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir , Valgeir,. Mér sýnist eitthvað vanta í athugasemdina. ESG

  4. valgeir sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    „Undirgöng undir veg“ finnst mér eins og Molaskrifara ekki til prýði. Við skulum samt veita undirgöngunum þá virðingu sem þeim ber. Sjálfur Jónas hallgrímsson kveður í Fjallinu Skjaldbreið:
    Vötnin öll er áður féllu
    undan hárri fjallaþröng
    skelfast, dimmri hulin hellu,
    hrekjast fram um undirgöng
    Hér á skáldið að sjálfsögðu við göng undir yfirborði jarðar. Hann er að lýsa eldsumbrotum. En þetta getur átt víðar við. Yrðu ekki Vaðlaheiðargöngin „undirgöng“? Það yrði a.m.k. mikið fyrir ofan þau! Og neðanjarðarlestir stórborga, fara þær ekki um undirgöng?
    Með beztu kveðju. VS.

  5. Eiður skrifar:

    Nei.

  6. Þóroddur skrifar:

    Hvaða bull er í þér Eiður? Það kemur greinilegta fram að tvöfalt vaff er í framburðinum á tenglinum sem þú bendir á. Það er ekki hart vaff. Í ensku er skýr munur á v og w. Eða ert þú einn af þeim sem getur ekki viðurkennt að þú hafir nokkurntímann rangt fyrir þér?

  7. Eiður skrifar:

    RAngt: http://www.howdoyousaythatword.com/word/woolwich/

  8. Þóroddur skrifar:

    Þetta er ekki rétt hjá þér Eiður. Það er ekki harður Vaff-framburður í orðinu Woolwich! Það er frekar Uúúlitch. Hámárk fáránleikans, hvað þetta varðar. er fyrirtæki sem auglýsir í sjónvarpi að nú hafi nafni þess verið breytt úr Maritech í Wise og þulurinn ber það fram Væs. Líklega á Wise að þýða vitur, snjall eða skynsamur … en vegna framburðar þularins breytist nafn fyrirtækisins í Skrúfstykki, takk fyrir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>