«

»

Molar um málfar og miðla 1219

Gunnar skrifaði (30.05.2013) ,,Á vefsíðu DV stendur: „Hún segist sjálf hafa kallað eftir aðstoð og sagt húsverði hússins að hún hafi heyrt barnsgrátur …“ Það er ekki rétt. Hún heyrði barnsgrát. Grátur, grát, gráti, gráts. Þarna er blaðabarnið að rugla saman beygingum á hlátri og gráti.” Rétt ábending, Gunnar.

Úr illa skrifaðri frétt á mbl.is (30.05.2013): Skipið var var staðsett um 47 sjómílur suður af Ingólfshöfða og var því strax gefin fyrirmæli um að sigla nær landi til að stytta vegalengd þyrlu í útkalli. Hér er það ekki eitt, heldur næstum allt: Betra hefði verið, til dæmis: Skipið var 47 sjómílur suðvestur af Ingólfshöfða. Send voru fyrirmæli um að skipinu yrði siglt nær landi til að stytta þyrluflugið. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/05/30/gaeslan_sotti_hjartveikan_farthega/

Það var sannarlega ánægjulegt hvað landsssöfnun Landsbjargar sem efnt var til í Ríkissjónvarpinu á föstudagskvöld(31.05.2013) gekk vel. Það var um flest vel að þessu staðið. Molaskrifari hafði að vísu ekki mjög gaman af trúðleikum borgarstjórnarans í Reykjavík. Þeir sem eru ,,andlit!” (ef svo má að orði komast) slíkra þátta verða að vera vel máli farnir. Flestir voru það vissulega. Ríkisútvarpið á leggja áherslu á vandað íslenskt mál.

Baldur skrifaði (30.05.2013): , ,Sæll, – á ruv.is er þessi fyrirsögn : „Nýir þingmenn í kennslu“. Ég velti fyrir mér (sem kennari) af hverju þeir eru í „kennslu“ en ekki í „námi“ eins og annað fólk sem þarf að læra eitthvað nýtt, nú eða „í kennslustund“. Samkvæmt minni málvitund eru kennarar „í kennslu“ þ.e. fást við kennslu, en nemendur eru „í námi“. Rétt athugað, Baldur.

Úr hádegisfréttum Ríkisútvarps (30.05.2013): ,,Kostnaður við leiguflugið, sem króatískir hælisleitendur fóru með til Zagreb á þriðjudag, alls átta milljónir króna voru teknar úr átakssjóði sem ætlaður var til …”. Getur ekki málfarsráðunautur lesið handrit fréttamanna og strikað út svona ambögur?

Í leiðara Fréttablaðsins (01.06.2013) er talað er um að ,,bæta fyrir gömul klúður”. Ekki sakar að geta þess að orðið klúður er eintöluorð. Ekki til í fleirtölu.

Lesandi benti á þessa frétt á mbl.is: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/05/30/4_skemmtiferdaskip_koma_a_manudag/ Þar segir meðal annars: ,,Skipið er rúmlega 137 brúttótonn og rúmar rúmlega 3.100 farþega og um 1.200 skipverja. Auk þessara skipa mun skemmtiferðaskipið Astor leggjast að bryggju í Hafnarfirði.” Lesandi segir: ,,Ég dreg í efa, að 137 brúttótonna skip sé stærsta skemmtiferðaskip, sem komið hefur til landsins. Það er væntanlega stærð milli Hríseyjarferjunnar og flóabátsins Baldurs. “ Rétt athugað. Enn kemur í ljós að enginn les yfir áður en birt er.

Annar lesandi benti á þessa frétt á vef Ríkisútvarpsins, ruv.is (30.05.2013) og segir, – já, þorði hann því loksins ! ,,Sem kom á daginn. Þegar bróðirinn gaf skýrslu fyrir dómi sagðist hann vilja nafngreina höfuðpaurinn – hann þorði því núna þar sem meintur höfuðpaur hefði látist fyrir nokkrum vikum”. Sjá: http://www.ruv.is/frett/nafngreindu-hofudpaurinn-i-amfetaminmalinu . Molaskrifari bætir hér við: Í Útvarpi Sögu er auglýstur símatími með Arnþrúði Karlsdóttir! (30.05.2013)

Af dv.is (31.05.2013): Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur sent inn reykkafara í íbúð í Mörðufelli í Reykjavík. Þarna er talað um Mörðufell, ekki Möðrufell eins og gatan heitir. Þetta er ekki innsláttarvilla. Sama villan er í fyrirsögn. Eðlilegra orðalag hefði líka verið að tala um að reykkafarar hefðu verið sendir inn í íbúð í Möðrufelli.

Úr yfirlýsingu frá flugfélaginu WOW-Air: ,,Þetta var umfjöllun um áfangastað sem var skrifaður eftir upplýsingum frá ferðamálaráði Amsterdam en þau álíta Rauða hverfið órjúfanlegan hluta af menningu borgarinnar.” Hroðvirkni. Enginn prófarkalestur. Umfjöllun skrifaður eftir upplýsingum !!!

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Sigurður H. Ólafsson skrifar:

    Það er alveg velkomið.

  2. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir , Sigurður. Ég fæ aqð nota þessa ágætu ábendingu seinna í vikunni. – K kv Eiður

  3. Sigurður H. Ólafsson skrifar:

    Sæll Eiður.

    Hér er (væntanlega) dæmi um barnablaðamennsku á vefnum pressan.is:

    http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/mynd-dagsins-augnablikid-thegar-thu-attar-thig-a-ad-thu-ert-barnid-i-midjunni—ein-vinsaelasta-myndin-a-netinu

    Merkilegt að hér heldur skrifari, að það að geta ekki leynt tilfinningum sínum sé etthvað neikvætt! Því annarsvegar séu einhverjir „í skýjunum“, en geta hins vegar „ekki leynt“ tilfinningum sínum.
    Svo gleymist að fallbeygja í síðustu setningunni, sem virðist því miður vera orðið að reglu á netmiðlum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>