Í fréttum Stöðvar tvö (02.06.2013) sagði fréttamaður: Þá var keppt í sjómann. Rétt áður talaði sami fréttamaður um áhafnarmeðlimi varðskipsins Þórs og átti þar við skipverja.
Í Landa Ríkissjónvarpsins (02.06.2013) var rætt við hjón sem sinnt hafa kórstjórn og tónlistarkennslu á Suðurlandi og tala góða íslensku. Þau eru frá Ungverjalandi. En þulur sagði að þau kæmu frá Ungverjalandi eins og nú er að verða alsiða að taka til orða. Þau voru ekkert að koma þaðan. Eru búin að vera hálfan annan áratug á Íslandi, muni ég rétt.
Vandaður þáttur, Fjársjóður framtíðar, Fjaran og hafið, á dagskrá Ríkissjónvarps í gærkveldi (04.06.2013). Þarna fengu áhorfendur fróðlega innsýn í störf íslenskra vísindamanna. Takk, Kukl og Háskóli Íslands.
Fjölmiðlar kynna þessa dagana aðstoðarmenn nýrra ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Stundum beinist athyglin ekki að því sem er sagt. Heldur því sem látið er ósagt. Molaskrifari hefur ekki séð það tíundað í starfsferli aðstoðarmanns félagsmálaráðherra að sá hafi verið forstjóri farmiðasalans Iceland Express. Það er líklega ástæðulaust að vera nokkuð að hampa því.
Af mbl.is (03.06.2012): Þrjár konur í bílnum urðu fyrir minniháttar eymslum en eftir að hafa farið undir læknishendur á Blönduósi fóru þær …
Ekki hefur Molaskrifari áður heyrt svo til orða tekið að fólk hafi orðið fyrir eymslum. Það er hinsvegar hægt að finna fyrir eymslum. Ég finn fyrir eymslum í bakinu. Ég er aumur í bakinu. Kannski var sá sem skrifaði ekki alveg viss um hvað orðið eymsli merkir. Né heldur hefur Molaskrifari reyndar heyrt talað um að fara undir læknishendur, þótt ekkert sé svo sem athugavert við það orðalag.
Enn einu sinni: Af mbl.is (03.06.2013): Japönsk stjórnvöld viðurkenndu í dag að einn milljarður dollara af opinberu fé, sem nota átti … hafi verið ráðstafað í önnur verkefni ótengd náttúruhamförunum. Hér hefði vissulega átt að standa: … einum milljarði dollara hefði verið ráðstafað, – ekki einn milljarður dollara.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins flytur þjóðinni ítarlegar fregnir af réttarhöldum yfir bandaríska hermanninum Bradley Manning sem lét WikiLeaks í té mörg hundruð þúsund leyniskjöl Bandaríkjastjórnar. Þar njótum við afburða góðra tengsla fréttastofu Ríkisútvarpsins við fyrrverandi fréttamann, starfsmann og aðaltalsmann Julians Assange og WikiLeaks , Kristin Hrafnsson. Í fréttum (03.06.2013) kom fram að 30-40-50 manns hefðu mótmælt við herstöðina í Maryland þar sem réttarhöldin fara fram. Það þættu nú reyndar ekki fjölmenn mótmæli á Íslandi. – Í aðalfréttatíma NBC sjónvarpsstöðvarinnar bandarísku þetta sama kvöld var stutt frétt um þessi réttarhöld. Þeir standa sig ekki eins vel hjá NBC og Ríkisútvarpið okkar, sem í gærkveldi (04.06.2013) var með eina frétt og Spegilsviðtal við Birgittu Jónsdóttur þingmann pírata, sem um skeið var starfsmaður Julians Assange og samstarfsmaður Kristins Hrafnssonar.
Molaskrifari stytti sér stundir á biðstofu við að lesa mataruppskriftir í Vikunni. Í einni uppskriftinni var ráðlagt að leggja svolitla sál í eldamennskuna. Á eftir orðinu sál kom svigi (e. soul). Þetta er í fyrsta skipti sem Molaskrifari hefur séð í íslensku tímariti eða blaði algengt íslenskt orð skýrt með tilvísun í ensku! Það er engu líkara en ætlast sé til að lesendur séu betur að sér í ensku en íslensku.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
05/06/2013 at 17:53 (UTC 0)
Já, Eirný. Nýjar kynslóðir fréttaskrifara þekkja ekki annað orðalag en að snjór bráðni. Heldur er það nú snautlegt og flatt, eins og ég hef raunar vikið að.
Eiður skrifar:
05/06/2013 at 17:50 (UTC 0)
Hjákátlegt orðalag. Svo sannarlega !
Eirný skrifar:
05/06/2013 at 17:34 (UTC 0)
Það er hægt að skemmta sér við margt og ég hlæ við að þessari fyrirsögn.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/06/05/sau_skridu_og_letu_af_storfum/
Ég hef alltaf haldið að þegar fólk lætur af störfum þá hætti það, fer af launaskrá. Er þetta eðlilegt, ef ég er að mála húsið að utan og það kemur rigning, hvort læt ég þá af störfum eða geri hlé á störfum á meðan rignir?
Eirný skrifar:
05/06/2013 at 17:20 (UTC 0)
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/06/05/vara_vid_skridum_og_krapaflodum/
vo flóð komu í árnar við snjóbráðnun
vatnavöxtum vegna snjóbráðnunar
snjór bráðnar hratt
Mér þykir gott hve margt er að verða einfalt, nú þarf sá sem skrifar fréttir lítið að huga að fjölbreytileika málsins.
Engin leysing, ekkert um að snjó taki hratt upp.