«

»

Molar um málfar og miðla 1237

Í fréttum Stöðvar 2 á laugardagskvöld (22.06.22013) var talað um þorsktungur. Ekki sér Molaskrifari betur en hér sé verið að tala um gellur. Hann veit að Norðmenn tala um torsketunger, en á Íslandi höfum við sjálfsagt í aldir talað um gellur, sem eru gómsætur herramannsmatur. En kannski þekkja ungir fréttamenn ekki orðið gella hvað þá að þeir hafi einhvern tíma gellað. Seinna fékk orðið gella slangurmerkingu og þýddi þá snotur stelpa, tískudrós. Það er líklega komið úr tísku. Í Þórshöfn í Færeyjum er verslun sem heitir Gellan. Þar er ekki fiskur á boðstólum. Þar er seldur tískufatnaður fyrir konur, föt fyrir gellur.

Sveinn Birkir sendi eftirfarandi ábendingu (22.06.2013): ,,Það er villandi orðalag í ábendingu molavinar um orðusafn Óla Stef.
Hið rétta er að Ólafur hefur hlotið bæði riddarakross og stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu, sem er það sem mig grunar að hafi verið það sem fréttamaður hafi ætlað að koma til skila.
Molavinur bætir hins vegar litlu við ónákvæmni í orðalagi fréttamanns með staðreyndarvillum, þar sem hann virðist einungis gera ráð fyrir að um eina orðuveitingu sé að ræða.”
Umrædd ábending frá Molavin var í Molum 1233. Þar kom skýrt fram að sá sem fréttina skrifaði þekkti ekki gjörla til hinnar íslensku fálkaorðu.

Í fréttainngangi Stöðvar tvö (22.06.2013) var sagt að rifjuð yrðu upp fjörutíu heimili sem Sölvi hefði heimsótt. Molaskrifara fannst þetta asnalegt orðalag. Rifja átti upp í máli og myndum heimsóknir Sölva á fjörutíu heimili, sem eru með minnst áhugaverða efni sem er á boðstólum hjá Stöð tvö að mati Molaskrifara. Hann hefur ekki nokkur áhuga á því að sjá hvernig annað fólk býr.

Við ætlum að fá nokkur skilaboð, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps á laugardagskvöldið (22.06.2013) þegar Ríkissjónvarpið bauð okkur upp á fótbolta á besta útsendingartíma á laugardagskvöldi. Skilaboð íþróttafréttamannsins voru auglýsingar, langur auglýsingatími. Hversvegna þarf að nota ameríska slettuþýðingu? Hversvegna má ekki kalla auglýsingar auglýsingar?

Það er orðið mjög algengt að heyra talað um að hafa gaman ( e. have fun) um að skemmta sér eða hafa gaman af einhverju. Molaskrifari er svo sérvitur að honum finnst þetta heldur hvimleitt. Núna er þetta margendurtekið í sjónvarpsauglýsingu um þætti sem sýndir verða í Ríkissjónvarpinu á næstunni.

Ekki hefur Molaskrifari séð upplýst hvað Viðskiptablaðinu gekk til með því að flytja lygafrétt um bílakaup Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, á síðustu dögum hennar í embætti. Aðrir fjölmiðlar átu þetta gagnrýnilaust upp eftir Viðskiptablaðinu. Svo kom í ljós að fréttin var uppspuni frá rótum. Fyrir henni var ekki flugufótur. Hvernig gerist svona á fjölmiðli sem vill láta taka mark á sér? Hélt blaðið að það kæmist upp með að bera upplognar sakir á forsætisráðherra? Undarlegt að ekki sé meira sagt.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>