«

»

Molar um málfar og miðla 1239

Frá Molavin (23.06.2013): Á heimasíðu Ríkisútvarpsins segir í dag frá láti danska arkitektsins Henning Larsen (23.6.): „þótt sjálfur hafi Henning Larsen sagt sig frá síðasnefnda verkinu vegna deilna við fyrirtækjasamsteypuna Mærsk Mc-Kinney Møller, sem fjármagnaði húsið.“ Hér er farið rangt með. Fyrirtækið sem um ræðir heitir A.P.Møller en það var forstjóri þess og aðaleigandi, Mærsk Mc-Kinney Møller, sem gaf dönsku þjóðinni óperuhúsið og fékk Larsen til að hanna það. Mærsk Mc-Kinney Møller var sonur stofnanda fyrirtækisins og lézt í hárri elli fyrir skemmstu. Ónákvæmni af þessu tagi er ekki Ríkisútvarpinu sæmandi. Þar á bæ ættu menn að vita betur”. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Hversvegna lætur Ríkissjónvarpið/Ríkisútvarpið svona í kringum Þýskalandsheimsókn Ólafs Ragnars Grímssonar? Það er eins og forseti Íslands hafi aldrei áður farið í opinbera heimsókn til útlanda. Liggur við að í hverjum  einasta  fréttatíma séu frásagnir  af fínirí, veislum og fundastússi. Fátt um fréttir. Svo er auðvitað fráleitt að Ólafur Ragnar Grímsson skuli rekja einkasamtal sitt við Angelu Merkel í sjónvarpsviðtali. Það er utan ramma kurteislegra samskipta þjóðhöfðingja.  Þjóðverjum er örugglega ekki skemmt. Auk þess er forsetinn samkvæmt stjórnarskrá Íslands ábyrgðarlaus og umboðslaus í utanríkismálum.

 

Sveinn skrifar um pizzu, pítsu og flatböku: ,,Sæll Eiður og þakka þér þína fínu mola.
Eins og oftar var ég í fréttaleit í gær þegar ég rakst á afgreiðslu helstu vefmiðla á niðurstöðum könnunar fyrirtækis sem kallar sig MMR.
Eins lítilfjörleg og könnunin var þótti mér annað merkilegt. Ríkisútvarpið og Viðskiptablaðið skýrðu bæði frá því að pizza væri algengasti skyndibitinn á Íslandi.
Þarna hefði ég talið að nota ætti frekar pítsa og helst flatbaka, sem reyndar MBL notaði í sinni frétt.
Ég sá svo ekki að fleiri miðlar gerðu sér mat úr umræddri könnun.
Hvað segir molaskrifari um þetta. Snæðir hann pizzu, pítsu eða flatböku?” Molaskrifari þakkar bréfið og hlý orð. Hann snæðir aldrei pizzu. Stöku sinnum pítsu eða flatböku, en þykir þetta reyndar ekki merkilegur matur.

 

Nokkrir hafa bent Molaskrifara á þessa frétt: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/06/22/bradkvodd_komin_sjo_manudi_a_leid/ Einn Molalesandi spyr: ,,Er ekki líklegra, að gerður hafi verið keisaraskurður á hinni látnu móður, fremur en að þurft hafi að skera barnið upp? „. Jú, þetta er ósköp klaufalega orðuð frétt um hryggilegan atburð.

 

Af mbl.is (24.06.2013): Slökkvilið var kvatt að húsi við Laugaveg: Þar hafði glóð komist í rusl og gróður í klæðningu hússins. Var gróður í klæðningu hússins? Hafði gróður komist í klæðningu hússins? Þegar óskýrt er hugsað verður textinn óskýr og merkingin illskiljanleg.

 

Í miðdegisfréttum Ríkisútvarps var sagt frá gjaldtöku við Kerið í Grímsnesi. Bæði fréttamaður og viðmælandi hans töluðu um að mæla ætti hve margir heimsæktu Kerið. Mæla? Molaskrifari skildi þetta á þann vegna að telja ætti gesti, ferðamenn, sem kæmu að Kerinu til að virða þetta náttúruundur fyrir sér.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

Engar athugasemdir

1 ping

  1. Ókurteisi við kanslara Þýskalands skrifar:

    […] Í pistli á heimasíðu sinni skrifar Eiður: […]

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>