«

»

Molar um málfar og miðla 1241

Trausti vitnar í mbl.is (25.06.2013): ,,Maður sem handtekinn var í gær, grunaður um fjögur morð í frönsku Ölpunum í fyrra, hefur verið sleppt gegn tryggingu.“
Hann spyr: Vinna eintómir unglingar á Mbl? Von er að spurt sé. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/06/25/brodurnum_sleppt_gegn_tryggingu/

Meira frá Trausta með vísun í sama fjölmiðil: ,,http://www.mbl.is/smartland/heilsa/2013/06/25/laeknanemi_svarar_steinari_b/
Af því að vitið er nú ekki meira en Guð gaf, verð ég að spyrja: Er mataræði í eintölu það sama og mataræði í fleirtölu, og ef ekki, hvers konar æði eru þá fleirtölumataræðin?” Molaaskrifara verður svarafátt.

 

Að morgni fimmtudags (27.06.2013) taldi Molaskrifari sig vera búinn að heyra fimm eða sex sinnum í fréttum Ríkisútvarpsins að bæjarstjórnarmeirihlutinn í sveitarfélaginu Vogum á Vatnsleysuströnd væri fallinn. Já, – auðvitað var þetta stórfrétt.

 

Á fréttavef Ríkisútvarpsins (28.06.2013) segir frá jeppavitleysingum sem ollu náttúruspjöllum við Kleifarvatn. Fréttinni lýkur svona: Hann segir að flest þau sár sem verði að völdum ökutækja í Reykjanesfólksvangi standi í áratugi. Betra hefði verið: Hann segir að það taki flest sár eftir ökutæki ( ekki að völdum ökutækja) í Reykjanesfólkvangi áratugi að gróa. Sár standa ekki lengi. Sár geta verið lengi að gróa.

 

Góður þáttur þeirra Egils Eðvarðssonar og Þórhalls Gunnarssonar  í minningu Hemma Gunn í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi (28.06.2013). Vandað og smekklega framsett. Takk.

 

Dálítið sérkennilegt að í morgunútvarpi Rásar tvö á fimmtudagsmorgni (27.06.2013) var ævinlega talað um fiskibúð ekki fiskbúð eins og býsna fast er í málinu. Minnist þess ekki að hafa heyrt svo til orða tekið áður.

 

Góðkunningi Molanna sendi eftirfarandi (27.06.2013): ,,Sendi hér skjámynd af einni ótalmargra frétta á vef Ríkisútvarpsins þar sem tölur eru ekki ritaðar með tölustöfum heldur bókstöfum. Þetta er meginregla á þessum vef og mér hreinlega óskiljanleg. Mér finnst afar hvimleitt og tafsamt að stauta mig fram úr svona löguðu. Hér er langur texti í stað skýrra talna eins og venjulegt fólk notar. Í þessu tilviki eru reyndar engin ártöl en á vefnum ruv.is gildir þetta vissulega líka um þau. Þó að ég grípi þessa frétt núna af handahófi hef ég séð langtum ferlegri tilvik á vef stofnunarinnar.

Tek hér tvö dæmi og læt þig meta hvor rithátturinn sé skýrari aflestrar:

a

Ellefu milljónir sex hundruð áttatíu og fjögur þúsund níu hundruð fjörutíu og tveir

11.684.942

b

Nítján hundruð þrjátíu og átta til nítján hundruð fjörutíu og þrjú

1938-1943

 

Leyfi mér að spyrja: Hvaða fábjánaháttur er þetta eiginlega? Hefur starfsfólk Rúffsins ekki frétt af þeirri ágætu uppgötvun sem tölustafirnir eru?”

 

Skjámyndin skilar sér ekki í afritun. Lesendur geta skoðað þetta á vef Ríkisútvarpsins.- Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Það kom fram í frétt hjá Þorbirni Þórðarsyni í fréttum Stöðvar tvö í gærkveldi (27.06.2013) að fjármála- og efnahagsráðuneytið væri með skattamál forsetafrúarinnar, Dorritt Moussaieff til rannsóknar. Það kom líka fram (vitnað í Viðskiptablaðið) að frúin hefði aldrei greitt skatta á Íslandi, enda þótt hún væri með lögheimili hér á landi til nýlega, er hún flutti lögheimilið til Bretlands. Aðspurð sagði hún þjóðinni að hún yrði að flytja lögheimili sitt til að hjálpa öldruðum foreldrum sínum að reka demantasölu fjölskyldunnar. Gæti verið að lögheimilisflutningurinn tengdist eitthvað skattarannsókn fjármálaráðneytisins? Getur fjármálaráðuneytið haldið rannsókninni áfram eftir að sá sem rannsakaður er hefur flutt lögheimili sitt til Bretlands? Þessi rannsókn hlýtur að beinast að því hvort lög hafi verið brotin Aðra ályktun er erfitt að draga af þessari frétt.

Ríkisútvarpið hefur ekkert nefnt þetta mál. Þar eru menn of uppteknir við að segja veislufréttir af forsetahjónum á ferð í Þýskalandi. Helst í öllum fréttatímum, – rétt eins og fréttir af brostnu meirihlutasamstarfi í hreppsnefndinni í Vogum á Vatnsleysuströnd. – Fróðlegt verður að sjá hvernig íslenskir fjölmiðlar fylgja frétt Þorbjarnar eftir. Sennilega gera þeir það ekki.

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Andri Þorvarðarson skrifar:

    Stephen Fry er „með’etta“

    http://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=J7E-aoXLZGY#at=373

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>