«

»

Molar um málfar og miðla 1243

Úr fréttum Stöðvar tvö (29.06.2013): … en fornleifafræðingum grunar. Það var og! Þeim grunar. Villur af þessu tagi ættu ekki að heyrast í fréttatímum. Er ekkert eftirlit með því hvernig skrifað er á þessum bæ? Molavin heyrði þetta líka og skrifaði: .,, Það er gott fyrir verðandi fréttamenn að fá sumarstörf á fréttastofum, en þá hvílir sú ábyrgð á yfirmönnum að láta lesa fréttir þeirra yfir fyrir flutning og leiðbeina. Það er þeim mun brýnna nú þar sem móðurmálskennslu hefur hrakað í skólum, en málið er mikilvægusta verkfæri fjölmiðlafólks.

 

Sigurgeir skrifaði (30.06.2013): ,,Afskaplega er það hvimleitt að heyra í íþróttafréttamönnum þrástagast á því að þessi og hinn hafi sigrað hitt og þetta mótið. Síðast í íþróttafréttum RÚV í gærkvöldi (29. júní) var sagt að ákveðinn ökuþór hafi sigrað kappaksturskeppni og síðan að ágætur tennisleikari hafi sigrað Wimbledon.
Einföld regla: Menn sigra andstæðing en vinna mót”. Molaskrifari hefur nokkrum sinnum nefnt þetta. En aldrei er góð vísa of oft kveðin, eins og þar stendur. Sumum íþróttafréttamönnum virðist um megn að tileinka sér þessa einföldu reglu.

 

Af fésbók (29.06.2013) Kannski þátttaka í heimsmeistarakeppninni í Hornarfjarðarmanna, nú kannski verður mín minnst fyrir að hafa orðið heimsmeistari í Hornafjarðarmanna 2013. Skrifari virðist ekki hafa heyrt talað um Hornfirðinga!

 

Í sjónvarpsfréttum var nýlega talað um hættuleg snjóþök á gönguleiðum. Átt var við hættulega skafla. Gott var að heyra í fréttum Ríkissjónvarps talað um brakandi þurrk. Langt síðan Molaskrifari hefur heyrt þannig tekið til orða í fjölmiðlum.

 

Breskt par fékk ævintýralega reynslu í gær, var sagt í fréttayfirliti Ríkisútvarps á sunnudagskvöld (30.06.2013). Illa orðað. Til dæmis hefði mátt segja: Breskt par var reynslunni ríkara eftir að hafa …. Fólk fær ekki reynslu. Það öðlast reynslu.

 

Molaskrifari er ekki sérstaklega sleipur í þýsku. Þó heyrði hann og sá að rangt var þýtt í viðtali í fréttum Ríkissjónvarps við Martin Schulz forseta Evrópuþingsins á sunnudagskvöld (30.06.2013). Á skjánum stóð: Þurfa lýðveldi að njósna um hvert annað? Schulz talaði um lýðræðisríki, ekki lýðveldi.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

10 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, egill . Má égf ekki birta nafnið þitt með þessum ágætu ábendingum ?

  2. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Það er ekki oft sem ég sendi þér línu en geri það núna og mætti kannski gera það oftar með þínu samþykki, Þú mátt birta allt sem ég sendi þér sjáir þú eitthvað bitastætt koma frá mér.
    Þessi frétt er á dv.is í dag undir fyrirsögninni „Vísað burt út af Gordon Ramsey“
    Ég gríp hér í miðja fréttina.

    En á leiðinni út hittu þau fyrir umrædda frægu einstaklinga, þar var enginn annar á fer en stjörnukokkurinn Gordon Ramsey og föruneyti hans. “ Sem jú starfar við að aðstoða veitingastaði fyrir að gera mistök eins og Loftið með að láta ekki hinn almenna viðskiptavin finnast hann velkominn“.

    Stundum hef ég það á tilfinningunni Eiður að fréttaskrifarar séu, sérstaklega á dv.is og Fréttablaðinu með öllu óhæfir í starfi og á ég þá ekki einungis við málfar.
    Í Fréttablaðinu er líka oft farið æði frjálslega með staðreyndir og hef ég fyrir nokkru síðan byrjað að safna rangfærslum og rugli, sérstaklega dálknum sem greinir frá ártölum og merkum atburðum.
    Einnig má minnast á þýðingar Stöðvar 2 þar fara bæði saman vitlausar þýðingar og mikil vankunnátta á atbuðum heimssögunnar.
    Tvö dæmi sem að ég man eftir í fljótu bragði eru úr kvikmyndum sem ég sá fyrir nokkrum vikum síðan og átti önnur að gerast í Írak. Þar var „captain“ í landher þýtt sem skipsstjóri en ekki höfuðsmaður. Ekki mikil hugsun hjá þýðandanum þarna.
    Seinna tilvikið var kvikmynd sem gerðist að nokkru um borð í farþegaflugvél, þar var orðið “ air marshall“ ( öryggisvörður ) þýtt sem flugstjóri.
    Já Eiður það er stundum mikið grín og gaman að fylgjast með lélegri tungumálakunnáttu þýðenda Stöðvar tvö og almennri vankunnáttu.

    E.S Í fasteignablaði Fréttablaðsins í síðustu viku var auglýst glæsileg sérhæð á tveimur hæðum ???????????????

  3. Eiður skrifar:

    Verður leiðrétt.

  4. Eiður skrifar:

    Verður leiðrétt.

  5. Eiður skrifar:

    Verður leiðrétt.

  6. Eiður skrifar:

    Leiðréttist á morgun.

  7. Trausti Harðarson skrifar:

    Ath. að hér er skrifað um heimsmeistarakeppni Í Hornafjarðarmanna, en ekki heimsmeistarakeppni Hornafjarðarmanna (Hornfirðinga). Hornafjarðarmanni er sérstakt afbrigði þriggja manna spils, sem annars heitir Manni.

  8. Gunnar skrifar:

    Þótt ritað sé um það afbrigði spilsins manna, sem kennt er við Hornafjörð, þá lýsir það hvorki þekkingu né vanþekkingu á, hvort ritari talar almennt um Hornfirðinga eða aðra tilvitnun til íbúa svæðisins. Ítilvitnuðum texta er augljóslega rætt um spilið hornafjarðarmanna og keppni í því, en hvorki um Hornfirðinga né Hornafjarðarmenn.
    Gunnar

  9. Eirný Vals skrifar:

    Hornafjarðarmanni er tilbrigði af manna. Hornfirðingamanni er óþekkt fyrirbrigði, í það minnsta hef ég aldrei heyrt um það og hef þó ótal sinnum spilað Hornafjarðarmanna,

  10. Guðbjartur skrifar:

    Nú átta ég mig ekki hvað molaskrifari á við í eftirfarandi lið
    „Af fésbók (29.06.2013) Kannski þátttaka í heimsmeistarakeppninni í Hornarfjarðarmanna, nú kannski verður mín minnst fyrir að hafa orðið heimsmeistari í Hornafjarðarmanna 2013. Skrifari virðist ekki hafa heyrt talað um Hornfirðinga!“

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>