«

»

Molar um málfar og miðla 1245

Molavin sendi eftirfarandi (02.07.2013):,,HARÐUR ÁREKSTUR VIÐ LANDSPÍTALANN segir í fyrirsögn fréttar á ruv.is (2.7.13) og fréttin hefst á þessum orðum: „Tveir fólksbílar lentu í hörðum árekstri um klukkan hálf tíu á mótum Bústaðarvegs og Háaleitisbrautar í Reykjavík.“ Nú er það rétt að rekstrarlega heita sjúkrahúsin í borginni einu nafni Landsspítalinn – háskólasjúkrahús. Það er stofnanaheitið. Landspítalann þekkir fólk sem þá byggingu við Hringbraut. En byggingin í næsta nágrenni við slysstaðinn er jafnan kölluð Borgarspítalinn. Nær hefði jafnvel verið að segja að áreksturinn hafi orðið við útvarpshúsið í Efstaleiti. Það stendur nær slysstaðnum. Stofnanaheiti eru óheppileg í fréttum ef önnur kennileiti eru fólki kunnuglegri. Samanber frétt um slys fyrir allnokkru í höfninni í Reykjanesbæ. Þær eru nokkrar, en það slys varð í höfninni í Keflavík. Stofnanamál og stofnanaheiti eru ekki alltaf heppileg til notkunar í fréttaflutningi ef hann á að skiljast.”

Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

Svo undarlegt sem það nú er, þá er Morgunblaðið betri heimild um dagskrá Ríkissjónvarpsins en Ríkissjónvarpið sjálft. Í prentaðri dagskrá í Morgunblaðinu er tekið fram að verið sé að endursýna matreiðsluþætti Hrefnu Sætran ( eins og þann sem sýndur var í gærkveldi ,03.07.2013), – þetta sé ekki nýtt efni. Niðursoðna konuröddin sem kynnir okkur dagskrá sjónvarpsins lét þess vandlega ógetið í tvígang í gærkveldi er hún kynnti þessa þætti að um endursýningu væri að ræða. Þetta hefur verið nefnt hér áður. Þetta eru óheiðarleg vinnubrögð. Það er í rauninni verið að fóðra okkur á ósannindum með því að segja ekki að um endursýningu sé að ræða. Sá yfirmaður Ríkisútvarpsins, sem ber ábyrgð á þessum vinnubrögðum er ekki starfi sínu vaxinn. – Það sýnir raunar ekki mikla hugmyndauðgi hjá dagskrárstjóra að vera með tvo matreiðsluþætti á sama klukkutímanum í þessari einu kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins.

 

Trausti vitnar í mbl.is (02.07.2013) þar sem segir: ,,Blanda er komin í gang og gott betur en það en stangirnar sem voru við veiðar í morgun voru komnar með dagskvótann, sem er 12 laxar á stöng, fyrir hádegi.“

Mikið væri nú gaman að eiga svona sjálfvirka stöng! Venjulega standa veiðimenn við, eða úti í á, og veiða á stöng, en þetta er náttúrlega miklu erfiðisminna.”

Sjá: http://www.mbl.is/veidi/frettir/2013/07/01/40_50_laxar_a_dag_i_blondu/

Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

Myndin fjallar um fráskilin hjón, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (02.07.2013). Það var og. Fráskilin hjón !

Elín Hirst alþingismaður baðst afsökunar á klæðaburði sínum úr ræðustóli Alþingis á þriðjudag (02.07.2013) að því er segir á fréttavefnum visir.is. Þar er haft eftir þingmanninum: ,, … Ég mun að sjálfsögðu hlíta þeim góðlátlega tilmælum sem til mín hafa verið beint, að fara heim og skipta um og mun ég gera það strax að þessari ræðu lokinni.” Ekki veit Molaskrifari hvort rétt er eftir þingmanninum haft. Efast reyndar um það. Betra hefði verið að segja: ,, … Ég mun að sjálfsögðu hlíta þeim góðlátlega tilmælum sem til mín hefur verið beint, að fara heim og skipta um og mun ég gera það strax að þessari ræðu lokinni.”

 

Fréttavefurinn visir.is vitnaði í annan alþingismann, Ragnheiði Ríkharðsdóttur þennan sama dag. Þar sagði : ,, Nú þegar beðið er um frestun vegna þess að það eru nýafstaðanar kosningar, það eru nýir flokkar við, það tók mánuð hér að mynda ríkisstjórn og farið er fram á að þetta sé skoðað – þá verður hér uppi fótur og fit, og hér þarf að halda þingsköpin. Fyrirgefiði hæstvirtur forseti, þegar menn segjast svo að það eigi ekki að gera þetta pólitísk það segi ég bara amen,“ sagði Ragnheiður á þingi. Molaskrifari á erfitt með að trúa því að þingmaðurinn hafi tekið svona til orða.

 

Enn er hér vitnað til fréttaskrifa á vefnum visir.is (02.07.2013)Þar er vitnað í alþingismanninn Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi menntamálaráðherra: ,,Katrín segir að þau frumvörp sem meirihlutinn hafi lagt fram, og miða að mörgu leytinu til að skerða tekjur ríkisins, hjálpi ekki til við gerð fjárlagagerðarinnar.” Molaskrifari er næsta viss um að Katrín hefur ekki sagt að tillögur miðuðu til og enn síður hafi hún talað um gerð fjárlagagerðarinnar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>