«

»

Molar um málfar og miðla 1247

Í fréttum Ríkissjónvarps (03.07.2013) talaði fréttaþulur um gangnamunna Vaðlaheiðarganga. Þetta hefur oft verið nefnt áður í Molum. Eignarfallsfleirtalan gangna er af orðinu göngur, fjárleitir að hausti, sbr. gangnamenn. Göngur og réttir heitir bókaflokkur sem var kunnur að minnsta kosti á árum áður. Hér hefði átt að tala um gangamunna, op jarðganganna. Er það ágætum fréttamönnum ofraun að læra þetta? Trúi því ekki. Þetta er ekkert mjög flókið.

 

Það var rangt sem sagt var í kvöldfréttum Ríkisútvarps (03.07.2013) að Alþingi hefði samþykkt frumvarp til laga um breytingar á stjórn rúv. Skammstöfunina rúv er hvergi að finna í lögum um Ríkisútvarpið. Alþingi samþykkti frumvarp menntamálaráðherra um breytingar á kosningu stjórnar Ríkisútvarpsins. Hér eftir kýs Alþingi stjórnina en ekki sérstök valnefnd eins og áður var. Það er undarlegur ruglingur í gangi hjá Ríkisútvarpinu sem að lögum heitir Ríkisútvarpið og ekkert annað. Stundum er Ríkissjónvarpið eitt og sér, til dæmis á vefsíðu stofnunarinnar, kallað, rúv en stundum er allt Ríkisútvarpið, sjónvarp og tvær útvarpsrásir kallað rúv. Þarna er ekki skýr hugsun að baki.  Auðvitað er í lagi að bregða fyrir sig skammstöfuninni rúv,ekki síst í erlendum samskiptum, en að bannfæra orðið Ríkisútvarp eins og útvarpsstjóri hefur gert er ótækt. Ráðherra Ríkisútvarpsins ætti að setja honum stólinn fyrir dyrnar. Það er ekkert sjálfgefið að hið nýja fyrirkomulag við stjórnarkosningu verði verra en það sem áður var notast við. Kannski verður nú æðstu stjórnendum veitt svolítið aðhald. Ekki veitir af.

 

Örn S. Einarsson skrifaði (03.07.2013): ,,Sæll Eiður.
Ég hef áður skrifað þér vegna fréttar á RÚV og málfars þar á bæ sem ég hef ekki fellt mig við. Í kvöld las ég frétt á ruv.is með fyrirsögninni „Íslenskur prestur slær í gegn í norskum bæ.“
Þar er fjallað um íslenskan prest, Gunnar Steingrímsson, sem starfar í smábænum Beitstad í Norður-Þrændalögum. Eftir ágæta tilvitnun í samtal við prestinn kemur þetta:
,,Gunnar segist þó forðast það í lengstu lög að ganga ekki fram af fólki.“
Ætli þetta sé rétt eftir prestinum haft?
Með bestu kveðjum og þökk fyrir pistla þína um málfar og miðla sem ég les alltaf.” Molaskrifari þakkar bréfið og vinsamleg orð bréfritara.

 

Prýðilegur fréttamaður tók svo til orða í hádegisfréttum Ríkisútvarps (04.07.2013): ,, Stjórnvöld í Bólilvíu segja að líf Morales hafi verið stefnt í hættu”. Hér hefði átt að segja, að lífi hans hefði verið stefnt í hættu. Einhverju er stefnt í hættu.

 

Glöggur lesandi benti skrifara á þetta á mbl.is (04.07.2013) ,,Ökumaður fór tvær veltur þegar hann missti stjórn á bifreið sinni á Vestfjarðarvegi í nótt. Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson
Bátur missti vélarafl rétt fyrir utan Ólafsvík snemma í morgun, en hann var á leið út til veiða. Báturinn tekinn í tog af öðrum báti sem var staddur nálægt og er hann á leið inn til hafnar.
” Þarna hefur eitt af fréttabörnum mbl.is sest við skriftir. Ökumaður fer ekki tvær veltur. Hægt er að segja að bifreið hafi farið tvær veltur og er raunar gert seinna í fréttinni. Þá finnst Molaskrifara hálfánalegt að tala um að bátur hafi verið staddur nálægt. Betra hefði verið: Bátur á leið í róður varð vélarvana skammt fyrir utan Ólafsvík snemma í morgun. Annar bátur, sem var í grenndinni tók bilaða bátinn í tog og er á leið til hafnar með hann. – Alltaf gott að sleppa óþarfri þolmynd.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Bærar þakkir, Egill. Ég fæ að birta þetta eftir helgi. K kv ESG

  2. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Ég rakst á þessa frétt á mbl.is í morgunn undir fyrirsögninni „Hjól vélarinnar rákust í varnargarð“

    Farþegi um borð í vélinni sagði við CNN að svo virtist sem flugstjórinn hafi aukið hraða vélarinnar þegar hún kom inn til lendingar, eins og hann vissi að vélin myndi ekki hafa það af á flugbrautina.

    Flugvélar eða aðrar vélar hafa það ekki af. Hér hefði átt að standa „eins og hann vissi að vélin myndi ekki ná inn á flugbrautina“ eða „næði ekki inn til lendingar“.

    Í lokin þrír gullmolar frá þýðendum Stöðvar 2.
    Í kvikmyndinni The Painted Vail sem sýnd var 20/11 2012 þá var „consulate“
    ( skrifstofa ræðismanns ) þýtt sem „sendiráð“.
    Í myndinni The Listner frá 17/10 2012 var „tell the judge“ þýtt sem „segðu það kviðdómnum“.
    Að lokum þessi snilli úr þættinum „Drop Dead Diva“ frá 17/10 2012. “ Learn how to drive“. Eftir mikil heilabrot var niðurstaða þýðanda þessi, „taktu ökuskírteinið“.

    Kv, Egill

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>