«

»

Molar um málfar og miðla 1250

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (09.07.2013) sagði frá sjómanni er átti fótum fjör að launa er eldur kom upp í báti hans. Hann var einn um borð í litlum plastbáti en báturinn var um tvær sjómílur norðaustur af Garðskaga. Manninn sakaði ekki en báturinn sökk. Það er ekki öllum gefið að geta gengið á vatni, en það er ekki ónýtt ef í harðbakkann slær.

 

Nú stendur tímabil grassláttar sem hæst var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (08.07.2013). Hefði ekki verið ágætt að segja: Nú stendur sláttur sem hæst.

 

Gunnar sendi þetta (08.07.2013): „… en svo innsigldi Kjartan Henry Finnbogason sigur KR-inga …“ sagði Hjörvar Hafliðason í fréttum Stöðvar 2 í dag, mánudag. Hann átti við að Kjartan Henry hefði innsiglað sigurinn, engin sigling kom þar við sögu, en Hjörvar virðist ekki vita hvað innsigli er.

Íslenskan vefst einnig fyrir auglýsingastofu Íslandsbanka, því kvöld eftir kvöld auglýsir bankinn eitthvað sem þeir kalla hlaupa-„plan“ í stað þess að auglýsa hlaupaáætlun. Óþarfi að nota ensku þegar við eigum ágætt íslenskt orð.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (09.0.72013) var sagt um flugmanninn sem brotlenti Boeing 777 farþegaþotu við San Fransisco flugvöll  að hann hefði aðeins haft 43 flugtíma á slíkri þotu á bakinu. Hér hefði verið eðlilegra að segja að hann hefði aðeins átt að baki 43 flugtíma á þessari þotugerð. Þarna ruglaði fréttaskrifari saman að vera með e-ð á bakinu, bera eitthvað, burðast með eitthvað og að eiga eitthvað að baki, hafa gert eitthvað, afrekað eitthvað. Hann á að baki langt og strangt nám. Þá var það svolítið óvenjulegt að bæði flugmaðurinn og þjálfunarflugmaðurinn, eða flugkennarinn, eins og sagt var, voru nafngreindir í fréttinni.

 

Molavin sendi eftirfarandi: ,,Getur þú litið á þessa furðufregn og reynt að fá botn í hana:

http://www.dv.is/frettir/2013/7/7/donsk-skyrsla-hyldir-barnvagnar-eru-daudagildrur/

Hvað þýðir ,,hyldir barnavagnar“ – og hvernig eru börn vafin í teppum?

Allt er nú til. Þegar Molaskrifari kynnti sér málið var búið að lagfæra fréttina ekki talað um hylda barnavagna, en  átt var við barnavagna sem  teppi eða ábreiður voru lagðar yfir. Þessi setning hafði þó ekki verið lagfærð. Samkvæmt Rognum eru ungbarnavagnar þaktir með teppi, ýmist til halda úti sól eða skúr, dauðagildrur. Sjá annars: http://www.dv.is/frettir/2013/7/7/donsk-skyrsla-huldir-barnvagnar-eru-daudagildrur/

 

Meira frá Molavin (09.07.2013): ,,Tor Holger Bertelsen, dómari við Norska þingréttinn hefur verið vikið úr starfi sínu með dómi. Þetta er í fyrsta sinn eftir síðari heimsstyrjöld sem dómara við Norska þingréttinn er vikið úr starfi.“ Þetta litla dæmi – tvær stuttar setningar – úr mbl.is 8.7. sýnir tvennt; annars vegar að meint fréttabörn kunna og vita meira en þau sýna, sem og hitt að kæruleysi er ríkjandi í frágangi frétta. Textinn er ekki lesinn gaumgæfilega yfir áður en hann fer á Netið eða á prent. Það sýnir reyndar líka að prófarkalestur virðist aflagður með öllu. Tímaleysi er gjarnan borið við en ég held að það skorti metnað.” Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>