«

»

Molar um málfar og miðla 1256

 

Anna Sigríður Einarsdóttir skrifaði Molum þetta ágæta bréf (14.07.2013): ,,Mikið gladdi það hjarta mitt að lesa litla pistilinn „Málið“ í Mbl. miðvikudaginn 10. júlí , bls. 33, þar sem eftirfarandi stendur um orðtakið að leiða saman hesta sína: „Knattspyrnulið leiða saman hesta sína. Það segjum við af því um er að ræða viðureign, þótt hún sé sjaldan jafn-harkaleg og hestaat var. Orðtakið er ónothæft um þá sem spila tónlist saman, spila saman í liði eða vinna saman.“ Þarna vantaði bara ágæta skýringarteikningu úr bók Jóns G. Friðjónssonar um uppruna, sögu og notkun íslenskra orðatiltækja, „Mergur málsins“ á bls. 244 þar sem lesendur geta fengið nokkra hugmynd um hvernig hestaat var iðkað fyrr á öldum. Þetta orðtak er nú notað í rangri merkingu í tíma og ótíma og virðist helst vera einblínt á hve það er flott að nota það – og vissulega er það myndrænt og sterkt – þar sem það á við.
Illa brá mér því við lestur Mbl. í gær, laugardag 13. júlí, þar sem sagt var frá því á bls. 10 að …fjallkonur opni sælkerahús á Selfossi… og í fyrirsögn (sem hefur greinilega ekki verið prófarkalesin af höfundi fyrrnefnds pistils „Málsins“ ) segir: „…Mágkonurnar Elín Una Jónsdóttir og séra Sigrún Óskarsdóttir leiða saman hesta sína og sameina sérþekkingu og ástríðu á sveitalífi og matargerð í nýrri verslun sinni, Fjallkonunni….“ Þarna hefði einungis þurft að kippa hestabullinu út, alls 4 ónothæfum orðum, og afgangurinn hefði staðið fyrir sínu, merkingin öllum ljós. Sumarkveðja, Anna Sigríður Einarsdóttir” Molaskrifari þakkar Önnu þetta ágæta bréf.

Snjólaug Bragadóttir skrifaði (13.07.2013) : ,,Mig langar til að nefna tvær mjög lífseigar ambögur hjá fréttamönnum Ríkisútvarpsins og þær heyrðust báðar í hádegisfréttum 13/7. Þar er slysum ollið eða ullið út um allar jarðir. Dettur engum í hug að eitthvað hafi einfaldlega valdið slysinu? Hitt er að þekkja ekki muninn á vetfangi og vettvangi. Stundum getur sá ruglingur verið spaugilegur. Kveðja, Snjólaug.” Molaskrifari þakkar Snjólaugu góðar ábendingar. Aldrei er of oft á það minnt að rétt skuli farið með beygingu sagnarinnar að valda.

Í fréttum Stöðvar tvö (15.07.2013) var sagt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og aðstoðarmaður hans mundu daginn eftir ræða við Barroso forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Það er forsætisráðherrann sem ræðir við Barroso, ekki aðstoðarmaðurinn. Hann er  töskuberi ráðherrans og gegnir sem slíkur engu hlutverki í svona samtölum. Þetta eiga fréttamenn að vita. Þetta ætti aðstoðarmaðurinn líka að vita. Í Morgunblaðinu (16.07.2013) segir sami aðstoðarmaður forsætisráðherrans:,, Við munum gera Barroso grein fyrir …” Aðstoðarmaðurinn misskilur greinilega stöðu sína og hlutverk.

Ástæða er til að vekja athygli á þætti Magnúsar Sveins Helgasonar sem endurtekinn verður á Rás eitt klukkan 23 05 í kvöld, miðvikudagskvöld Þetta er fimmti og síðasti þáttur í þáttaröðum um neyslusamfélagið og nútímann: Kjörbúðalýðræði í íslensku neyslusamfélagi. Athyglisverður, vandaður og vel unnin þáttur.

Papco heitir fyrirtæki meðal annars framleiðir salernispappír undir heitinu Fífa. Fiðurmjúk Fífa er auglýst í Morgunblaðinu (15.07.2013) Í auglýsingunni segir: Þú færð Fífa í næstu verslun. Þarna hefði átt að standa: Þú færð Fífu í næstu verslun. Auglýsingastofur eiga ekki að misþyrma móðurmálinu.

Hverju skal trúa? Í fréttum Ríkissjónvarps á mánudagskvöld (15.07.2013) var haft eftir kaupmanni í Melabúðinni að sala á grillkjöti gengi glimrandi vel. Í forsíðufrétt Morgunblaðsins daginn eftir segir í fyrirsögn: Samdráttur í sölu á grillkjöti hleypur á tugum prósenta. Já, hverju skal trúa?

Trausti benti á eftirfarandi í íþróttafréttum á mbl.is (15.07.2013)
Í þessari frétt ætti líklega að standa:,,Gay hljóp Powell uppi“ í stað:,, Gay elti uppi Powell:“

Sjá:http://www.mbl.is/sport/frettir/2013/07/15/thegar_gay_elti_uppi_powell_myndband/ . Molaskrifari þakkar ábendinguna.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>