«

»

Molar um málfar og miðla 1288

Ástæða er til að vekja athygli á leiðara Morgunblaðsins á laugardag (24.08.2013), Þeim má aldrei gleyma, – Helstefnur 20. aldar skildu eftir sig blóði drifna slóð. Evrópuþingið hefur ákveðið að 23. ágúst skuli vera Evrópudagur minningarinnar um fórnarlömb nasismans og kommúnismans. Fram kemur í leiðaranum að fórnarlömb alræðisstefna 20. aldar hafi verið rúmlega 120 milljónir manna. Opnuð var ljósmyndasýning þennan dag í Þjóðarbókhlöðunni um heimskommúnismann og Ísland. Þetta er þörf áminning hjá Morgunblaðinu. Erlendar sjónvarpsstöðvar sem eru aðgengilegar hér í áskrift eða um gervihnetti sýna reglulega myndir og myndaflokka um sögu og samfélög á tuttugustu öld. Um ófriðarbálin sem loguðu og þróun og inntak helstefnanna, kommúnisma, nasisma og fasisma sem svo mjög mótuðu líf , og dauða, – fólks á liðinni öld. Þetta hafa allar málsmetandi stöðvar gert og gera reglulega , – nema íslenska Ríkissjónvarpið sem forðast slíkt efni eins og heitan eldinn. Þessvegna, meðal annars, vita uppvaxandi kynslóðir á Íslandi sorglega lítið um sögu og þróun í Evrópu og raunar í veröldinni á 20. öldinni. Ráðamenn Ríkissjónvarpsins líta á það sem meginhlutverk sitt að skemmta og þá oft með því að bjóða áhorfendum ódýrustu og lélegustu afurðirnar sem fáanlegar eru, fjöldaframleidda froðuþætti, framleidda á færibandi draumaverksmiðjanna í Ameríku. Á laugardagskvöldið (24.082013) var okkur til dæmis boðið upp á kvikmynd sem einn gagnrýnandi taldi verstu kvikmyndina sem framleidd hefði verið árið 2008! Innkaupastjóra Ríkisstjórar Ríkissjónvarps leita uppi efni af því tagi. Ríkissjónvarpið á að hafa annað og mikilvægara hlutverk en að sýna svo ómerkilegt rusl. En því hlutverki verður ekki sinnt meðan asklokið er himininn yfir Efstaleiti. Þessu er brýnt að breyta. Það gætu menntamálaráðherra og ný stjórn Ríkisútvarpsins gert.

 

 

Egill Þorfinnsson skrifaði (24.08.2013): ,,Sæll Eiður,
Sammála er ég grein þinni frá því í gær (Innsk. Er Íslands réttaríki? í Morgunblaðinu 22.08.2013) en víkjum að öðru.
Þessi fyrirsögn var á mbl.is í gær föstudag „Umdeild skilaboð Dr. Phil“.
Síðan stendur í greininni „Fylgjendur Dr. Phil á Twitter brá í brún……..“.
Fylgjendur brá í brún??????
Ég hallast nú frekar að því að fylgjendum hafi brugðið í brún.” Það er að sjálfsögðu rétt, Egill. En þessi ambaga er orðin nokkuð algeng, – því miður.

 

Þórhallur Jósepsson sendi Molum þessa ábendingu (23.08.2013:,, Þessi fyrirsögn á mbl.is í dag ýtti við mér að senda þér línu: „Folaflugusprengja á Íslandi“
Ég hef oft hrokkið við að sjá eða heyra svona tekið til orða, þegar rætt er um fjölgun, vöxt, aukningu einhvers, sem hefur gerst óvenju hratt og mikið. Ég velti fyrir mér hvað valdi, en á svo sem ekki svör, að fólk virðist ekki skynja muninn á sprengju og sprengingu. Mér finnst eiginlega vera sprenging í þessu! :)” Molaskrifari þakkar Þórhalli sendinguna og réttmæta ábendingu.

 

Glögg mörk eiga að vera í fjölmiðlum milli efnis og auglýsinga. Í Fréttatímanum (23.-25.08.2013) er þetta eitthvað óljóst. Þar er heilsíðu umfjöllun um Ferðaþjónustuna Gaman ferðir. Er þetta auglýsing eða keypt ,,kynning”? Það kemur hvergi fram. Yfir greininni stendur orðið ,,kynning”, en hvernig ber að skilja það?  Á síðunni eru umsagnir níu aðila um ferðaþjónustuna. Í átta þeirra er notað orðið frábært. Í einu orði sagt frábær, svo fengum við auðvitað frábæran leik, þjónustan var frábær, frábært að fá að prófa, frábær staðetning, á frábærum stað á vellinum, frábæra Wembley-pakkaferð, ferðin til London var frábær, Ferðin var frábær í alla staði. Molaskrifari getur auðvitað ekki annað sagt en að þetta sér alveg frábært! Hann ráðleggur eigendum ferðaskrifstofunnar næst þegar þeir leggja fólki orð í munn um ágæti þessa fyrirtækis (sem Molaskrifari hefur aldrei áður heyrt á minnst) að fá til þess einhvern sem hefur örlítið meiri orðaforða. Svo á auðvitað að greina milli efnis og auglýsinga. Blöð sem blekkja lesendur sína lifa sjaldnast lengi.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Ég held að það sé ekki ofsagt að halda því fram að nokkuð stór hluti þjóðarinnar geti ekki komið út úr sér setningu án þess að enda hana á „þú veist“ „eða „skilurðu“. Það eru ekki mörg ár síðan að þetta fór að heyrast en lengra er þó síðan að fólk fór að troða dönskuslettunni „sko“ inn í allar setningar sem að það út úr sér lætur og jafnvel oft í sömu setningu.
    Reyni ég að færa þetta í tal við viðkomandi aðila og benda honum á þetta þá bregst viðkomandi annaðhvort hinn versti við eða skilur ekki rökin fyrir ábendingunni
    ( Eiður skilurðu ? )
    Þetta er fulllangur formáli að því sem ég ætlaði að koma á framfæri. Á mbl.is í dag mánudag er þessi fyrirsögn „Rúrik lék leikinn í 20 mínútur“ Síðan kemur “ Ég spilaði leikinn í einhverjar 20 mínútur……“
    Er Rúrik ekki með það á hreinu hvaða 20 mínútur hann spilaði ? „einhverjar“ er hér ofaukið og eitt af þeim orðum sem að fólk notar í setningum hjá sér og er samskonar ofnotkunin og misnotkunin og ég minnist á hér að ofan.
    Kv, Egill

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>