«

»

Molar um málfar og miðla 1298

 

 

Ekki kann Molaskrifari að meta það orðalag þegar sagt var í fréttum (03.09.2013) að flugáætlun Icelandair næsta sumar sé sú stærsta í sögu félagsins. Kynni betur við að sagt væri að hún væri sú viðamesta eða umfangsmesta í sögu félagsins. En þetta er líklega sérviska.

 

 Og ef fréttin er tilbúin þá getum við vint okkur í hana , sagði fréttamaður Stöðvar tvö í fréttum á miðvikudagskvöld (04.09.2012). Vint okkur í hana! Halló, Stöð tvö. Þá getum við undið okkur í hana. Þá getum við snúið okkur að henni. http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTV21B430F4-A892-4214-B214-04EDB0251B19

 

Í fréttum Ríkisútvarpsins (055.09.2013) var haft eftir forsætisráðherra Dana Helle Thorning Scmidt um fund forsætisráðherra Norðurlanda og Obama á fundinum ,, … hefði aðeins verið minnst almennt á norðurslóðir á fundinum.” Íslenskir fjölmiðlar hafa hinsvegar látið eins og fátt hafi verið rætt á fundinum annað en norðurslóðamál og þar hafi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verið í aðalhlutverki. Barnaskapur í besta falli. Það er heldur varla stórfrétt að Obama hafi lofað að Íslendingar og Norðmenn fengju að fylgjast með þegar Bandaríkin og Evrópusambandið ræða um fríverslun. Það sem máli skiptir er auðvitað að við tökum engan þátt í þessum viðræðum og getum engin áhrif haft á hvernig þær þróast, – ekki frekar en Norðmenn. Heimalningsháttur  íslenskrar fjölmiðlunar skín í gegn um allan fréttaflutning af þessum fundi Við þetta bætist að uppnumið Morgunblað skrifar leiðara um málið í dag (06.09.2013). Blaðið virðist trúa hverju orði  Framsóknarformannsins, sem að líkindum eru álíka trúverðug og kosningaloforð Framsóknarmanna frá í vor. Þeir sem vilja hafa réttar fréttir af þessum fundi verða að leita til erlendra fjölmiðla og umsagna annarra sem sátu fundinn. – Í þeim erlendu fréttatímum sem Molaskrifari hefur séð var fjallað um Sýrland sem aðalefni viðræðna, en hvorki minnst á norðurslóðir, upplýsingamiðlun um fríverslunarviðræður , – hvað þá Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Við eigum mikið undir aðgangi að erlendum fjölmiðlum.

 

Í íþróttafréttum Stöðvar 2 (03.09.2013) var fjallað um kaup og sölu knattspyrnumanna og sagt: … þegar félagið loks tókst að klófesta… Hér hefði átt að segja: .. þegar félaginu loks tókst að klófesta … einhverjum tekst að klófesta einhvern.

 

Enn einu sinni sagði niðursoðna konuröddin sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins okkur (04.09 .2013) að nú yrði líf og fjör á læknamiðstöðinni. Læknamiðstöðin, sem Ríkissjónvarpið sýnir okkur vikulega, er eins konar samnefnari fyrir það lélegasta úr amerískri sjónvarpsþáttagerð þar sem froðuþættir af þessu tagi eru framleiddir á færibandi. Dettur dagskrárstjórum Efstaleitis ekkert annað í hug en að segja okkur í viku hverri að nú verði líf og fjör á læknamiðstöðinni ?

 

Vikið hefur verið að því áður í Molum að fréttamenn eigi sumir hverjir erfitt með að gera greinarmun á því að greiða atkvæði og að kjósa. Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (04.09.2013) var sagt um Sýrlandstillöguna sem Obama forseti leggur eða hefur þegar lagt yrir Bandaríkjaþing að kosið verði um málið. Rétt hefði verið að tala um að greiða atkvæði um tillöguna.

Dæmi í samræmi við málvenju: Kosið var í stjórn Ríkisútvarpsins á Alþingi á sumarþingi. Vonandi kemur ekki til þess að á Alþingi verði greidd atkvæði um tillögu um að leggja Ríkisútvarpið niður. Eða eins og ágætur og málvís maður sagði við Molaskrifarara: ,, Það sker í eyrun að heyra menn klæmast á þessu með ,,kosningar“ og ,,atkvæðagreiðslu“. Enginn mundi villast á þessum tveim aðskildu fyrirbærum í norrænum málum (valg, afstemning) né í ensku (election, voting). En þau sem eru í fjölmiðlum (og raunar stjórnmálamenn líka) rugla þessu öllu saman”. Hann sagði líka: ,, En sem sagt, skv. fréttum Rúv.: Það verða ekki aftur kosningar í breska þinginu (um hvort Bretar styðji aðgerðir í Sýrlandi). Þá vitum við það”.Það er ástæða til að halda þeim greinarmun og merkingarmun sem er á því að kjósa og greiða atkvæði um eitthvað. Það flokkast ekki undir smáatriði. – Það er undarlegt að nefskattsgreiðendur skuli skikkaðir til að greiða laun málfarsráðunautar, sem ekki getur leiðbeint fréttamönnum um þetta þó einfalda atriði.

 

Norska sjónvarpið (NRK 2) sýndi í fyrrakvöld (04.09.2013) afar athyglisverða bandaríska heimildamynd um einelti, Bully, – mynd sem hiklaust ætti erindi á skjáinn hjá íslenskum áhorfendum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þetta verður leiðrétt, Egill.

  2. Egill Baldursson skrifar:

    Rúv er búið að sýna myndina Bully.
    Hún var sýnd annan janúar í ár.

    http://www.ruv.is/sarpurinn/grimmd-bully/02012013

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>