«

»

Molar um málfar og miðla 1315

 

Stöð tvö ætti eiginlega að fá skammarverðlaun fyrir þáttarnafnið Ísland got talent. Skelfilegt heiti. Atlaga gegn tungunni og gæðastimpill á slettu. Fjas um hugverkarétt í þessu samband,- að nota verði enskt nafn er út í hött. Það hefur verið bent á að slíkar reglur gildi ekki í öðrum löndum. Til að bæta gráu ofan á svart stjórnar fyrrverandi menntamálaráðherra lýðveldisins þættinum og blessar þar með þessa ömurlegu nafngift!

 

 Eignin er með tveimur svölum, segir í auglýsingu frá fasteignasölu í Morgunblaðinu (28.09.2013). Eignin er íbúð sem er með tvennum svölum. Svalir eru fleirtöluorð, – eins og til dæmis buxur.

 

Ein lögreglubifreið tjónaðist ásamt bifreið ökumannsins (Pressan.is 29.09.2013). Tjónaðist? Fréttabörn ganga líka laus á Pressunni.

 

Í Vikulokunum á Rás eitt sl. laugardag (28.09.2013) notaði Margrét Tryggvadóttir, fv. alþingismaður orðið spekileki. Hef ekki heyrt það lengi. Þetta fínt orð yfir það sem á ensku er kallað brain drain, atgervisflótti. Spekileki.

 

Fróðlegt að heyra í fréttum Stöðvar tvö (29.09.2013) að til er knattspyrnufélag, – sem vegnar vel,- Knattspyrnufélag vesturbæjar í Reykjavík, sem hvorki greiðir leikmönnum né stjórnendum laun. Hvað skyldu KSÍ og knattspyrnufélögin fá marga tugi milljóna úr vösum almennings, (framlög og Lottópeningar) til að kaupa erlenda atvinnumenn , greiða leikmönnum og atvinnustjórnendum? Það væri fróðlegt að vita.

 

Birkir Guðmundarson sendi eftirfarandi (30.09.2013): ,,Nú er ég aðeins ótíndur lögfræðinemi og leikmaður í fjórðu deildinni í knattspyrnu. En ég tel mig þó hafa nokkuð góða þekkingu á íslensku máli.
Sama verður þó ekki sagt um þennan fréttaritara:

,,Newcastle reyndi án árangurs að fá Alfreð lánaðan undir lok félagaskiptagluggans en án árangurs. Þá staðfesti umboðsmaður Alfreðs að félagið hefði sagst myndu gera skutlur úr tilboðum lægri en tíu milljónir evra.“

Tekið af :http://visir.is/yfirnjosnari-newcastle-fylgdist-med-alfred/article/2013130929045

Molaskrifari þakkar Birki sendinguna. Ekki teljast þessi skrif til fyrirmyndar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta, Margrét. Fyrir 25-30 árum var ég að koma af fundi á Vesturlandi og hlustaði á næturútvarp , líkast til á Bylgjunni sem þá var nýtilkomin, – áður var bara Kanaútvarpið á Vellinum í gangi á nóttunni. Ég man hvar ég var á Kjalarnesinu þegar ég heyrði pilt í útvarpinu tala um ,,köttinn sem datt niður á svölurnar“. Köttur hafði dottið ofan af þaki niður á svalir fjölbýlishúss. Þetta varð til þess að ég skrifaði fyrstu grein mína um málfar í fjölmiðlum í Morgunblaðið nokkrum dögum seinna.

  2. Margrét Brynjólfsdóttir skrifar:

    Sannarlega er orðið svalir fleirtöluorð, en til gamans langar mig að segja þér að dóttir mín bjó í íbúð á Ítalíu um tíma þar voru það sem gæti kannski kallast örsvalir, en hún kallaði þetta „svölina sína“
    Kveðja
    Margrét

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>