«

»

Molar um málfar og miðla 1317

Glöggur Molalesandi skrifaði (01.10.2013): Var að hlusta á eftirmiðdagsþátt Bylgjunnar í útvarpinu á leið heim. Tvímenningarnir, sem stjórna þeim þætti, hófu mál sitt á því að segja að nú væri búið að aflétta trúnaði af fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. ,,Mikið hefur verið rætt um mikil niðurskurðaráform í frumvarpinu. Við fáum nú ekki séð merki þess“, sögðu þeir hinir kotrosknustu. Fólk, sem búið er að tala jafn mikið um skuldavanda heimilanna og einfaldleika úrlausnar þeirra mála er auðvitað ekki lengi að leggja mat á fjárlagafrumvarp, sem aðrir eiga óhægt með fyrr en eftir langa og ítarlega yfirferð. Eftir að hafa lokið umsögn sinni um þetta mikla plagg í samtals sjö orðum létu þeir þess getið af störfum Alþingis að nú væri verið,,að hlutast til um sæti þingmanna“. Þeir vísu stjórnendur létu þess ekki getið hverjir eða hver væri að hlutast til um sæti þingmanna og með hvaða hætti – hvort verið væri að skipta um stóla eða skikka þingmenn til sætis þar sem þeir vildu ekki sitja og hver væri þá að hlutast svo til um málið. Líklega hafa þáttastjórnendurnir ætlað að skýra frá því, að nú væri verið að hluta um sæti þingmanna – þ.e. að varpa hlutkesti um – eða öllu heldur draga um – hvar í þingsalnum hver og einn þingmaður á að sitja næsta vetur.

Eftir því sem ég best veit eru stjórnendur þáttarins engin fréttabörn, heldur komnir talsvert til vits og ára. En jafnvel reyndir fjölmiðlamenn virðast geta gengið í fréttamannabarndóm. Dregið dám af umhverfinu.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

Af dv.is (01.10.2013): Útibússtjóra Landsbankans á Patreksfirði, Jensínu U. Kristjánsdóttur, hefur verið sagt upp störfum tafarlaust. Ekki er þetta nú vel orðað. Betra hefði verið að segja: …. hefur verið sagt upp störfum og gert að hætta strax.

 

Stórfrétt á mbl.is (01.10.2013): ,,Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins klæddist dökkum jakkafötum við þingsetninguna í dag. Fötin eru ekki splunkuný en hann festi kaup á þeim fyrir kosningarnar í vor.” Mogginn bregst ekki, frekar en fyrri daginn.

 

Ekki er venja fyrir því, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (01.10.2013) þegar sagt var frá ríkisráðsfundi, sem haldinn var sama dag og Alþingi var sett. Þarna skolaðist eitthvað til. Það er ekki venja, ekki er hefði fyrir því.

 

Af mbl.is (02.10.2013): ,,Stærsta smásölukeðja Bretlands, Tesco, hefur ákveðið að fara í samstarf með kínversku fyrirtæki, China Resources Enterprise, en afkoma Tesco var mjög slæm á fyrri hluta rekstrarársins. Er það einkum rakið til erfiðra aðstæðna á evrópskum mörkuðum.” Meira

Af þessu tilefni spyr Rafn: ,, Tesco ætlar í samstarf ásamt Kínverjum, en við hverja??”.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>