«

»

Molar um málfar og miðla 1369

Molavin skrifaði ( 21.12.2013): ,,88 slasaðir eftir að leikhúsþak hrundi“ sagði í fyrirsögn Morgunblaðsins 20.12.2013. Í sjálfu sér ekki alrangt, en það er orðið hvimleiður og ríkjandi ósiður í fréttaskrifum að segja að fólk slasist EFTIR slys. Það er slys þegar fólk slasast. Málvenja hefði verið að segja að 88 hafi slasast ÞEGAR þak hrundi. “  Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Verslar miðana sina á lotto.is var skrifað á pressan.is (17.10.2013). Það gengur illa að kenna fréttaskrifurum muninn á sögnunum að versla og kaupa. Vilji til þess virðist enginn hjá ritstjórum og fréttastjórum. Orðbragð Ríkissjónvarps ætti að láta málið til sín taka.

Í inngangi frétta Stöðvar tvö (20.1.22013) talaði Telma Tómasson fréttaþulur um að versla jólamatinn og gleðja þá sem minna mega sín. Annaðhvort er það þannig að sumu fjölmiðlafólki er algjörlega um megn að læra muninn á sögnunum að kaupa og að versla, – eða það hreinlega vill viðhalda vitleysunni. Vill ekki lagfæra þessa augljósu villu.

 

Getur þú sagt mér hversvegna sumir var neitað? Þetta þóttist Molaskrifari hafa heyrt í hádegisfréttum Ríkisútvarps (19.12.2013). Hversvegna sumum var neitað … ???

 

Bogi sér á eftir Páli var skrifað á menningarpressan.is ( (20.12.2013). Hér var átt við að Bogi Ágústsson sæi eftir Páli Magnússyni úr embætti útvarpsstjóra.

 

Enn á ný voru umsjónarmnenn Virkra morgna af Rás tvö að villast í sjónvarpsþættti í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi (19.12.2013). Er mannfæðin orðin svo mikil að allt teljist nú hey í harðindum?

 

Nettó auglýsir (19.12.2013) jólakjöt á frábærum verðum. Það er sjálfsagt til lítils að amast enn einu sinni við þessari fleiritölu notkun orðsins verð. Það skal nú samt gert.

 

Klessti á kýr á fleygiferð, sagði í fyrirsögn á fréttavefnum visir.is (20.12. 2013). Það sér á, eins og einhver sagði á fésbók, að fréttabörnin á fjölmiðlunum eru ekki enn búin að fá jólafrí, þótt þegar sé búið að gefa frí í leikskólum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Satt segirðu, Valgeir, sem jafnan. K kv ESG

  2. Valgeir Sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Það er auðvitað eitthvað mjög mikið að, þegar menn eru enn frétta“börn“ það er að segja viðvaningar í meðferð móðurmáls síns, eftir að hafa lært íslenzku í „barnaskóla, menntaskóla og háskóla“ eins og sagt var í gamla daga. Vitaskuld liggja slíkir hlutir misjafnlega vel fyrir mönnum, en þeir verða þá að þekkja takmörg sín og vanda sig þeim mun betur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>