Enn skal hrósað hinum ágæta þætti Ríkissjónvarpsins Orðbragði. Svona er hægt að gera vel, ef gott fólk og góður vilji er til staðar. Okkur var sagt í upphafi síðasta þáttar (22.12.2013) að þátturinn væri sýndur í samstarfi við Bestu molarnir frá Freyju. Það hefði átt að vera: …í samstarfi við Bestu molana frá Freyju.
Margt var gott í dagskrá Rásar eitt um jólin, að venju. Niðurskurður og brotthvarf hæfra starfsmanna segja auðvitað til sín, en mikið var flutt af vönduðu og áhugaverðu efni. Um dagskrá Ríkissjónvarpsins er varla unnt að segja hið sama. Metnaðarleysi setti mark sitt á dagskrá Ríkissjónvarpsins yfir jólin. Vonandi stendur það til bóta með hækkandi sól og beyttri yfirstjórn.
Í Morgunblaðinu á aðfangadag var frétt á bls. 30 um að Minjastofnun Íslands
vilji ekki að kofinn sem Árni Johnsen alþingismaður reisti við dómkirkjuvegginn í Skálholti og ranglega kallar Þorláksbúð verði þar áfram. Það eru góðar fréttir fyrir áhugamenn um velferð Skálholtsstaðar. Það er hinsvegar rangt í fréttinni sem sá ágæti sagnfræðingur og blaðamaður Guðmundur Magnússon skrifaði að kalla kofann tilgátuhús. Kofinn er ekki tilgátuhús vegna þess að við byggingu hans var notuð steinsteypa og bárujárn. Þetta benti Ormar Þór Guðmundsson arkitekt á í góðri Morgunblaðsgrein fyrir nokkru. Hvorki bárujárn né steinsteypa voru byggingarefni á Íslandi fyrr á öldum. Þessvegna er kofinn ekki tilgátuhús. Nú er bara að flytja kofann þangað sem hann skemmir ekki staðarmyndina í Skálholti. Árni Johnsen hlýtur svo að greiða skuldasúpuna vegna kofans. Þær skuldir eru hvorki mál þjóðkirkjunnar né íslenskra skattborgara.
Það er illskiljanlegt hversvegna Ríkisútvarpið er með svokallaðan málfarsráðunaut á launum og í fullu starfi ef sá hinn sami er þess ekki megnugur að leiðbeina fréttamönnum um notkun sagnarinnar að valda. Í morgunfréttum á aðfangadag var talað um að e-ð hefði ollið e-u. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem þetta heyrist þar á bæ, – því miður. Kannski hlustar málfarsráðunautur ekki á fréttir. Það ætti hann þó að gera.
Haukur skrifaði í athugasemdadálk Molanna (23.12.2013): ,,Von á mjög slæmu ferðaveðri“, er fyrirsögn í DV í dag. Hefði ekki verið nær að skrifa: „Útlit er fyrir slæmt … Svo sannarlega, Haukur. Stefnir í lítið ferðaveður um hátíðarnar, sagði í fyrirsögn í Fréttablaðinu á aðfangadag.
Í frétt í Morgunblaðinu (22.12.2013) segir frá eldsvoða og að allar stöðvar hafi verið sendar á staðinn. Ekki í fyrsta skipti sem þetta orðalag sést á prenti. Átt var við að bílar og slökkviliðsmenn frá öllum slökkvistöðum á höfuðborgarsvæðinu hafi farið á vettvang til að berjast við eldinn.
Þær eru fáar útvarps- og sjónvarpsstöðvarnar sem ekki flytja neinar fréttir frá því síðdegis á aðfangadag og þar til klukkan tíu að morgni jóladags. Þannig er það í íslenska Ríkisútvarpinu. Hversvegna? Ætli svarið sé ekki: Vegna þess að það hefur alltaf verið þannig!
Í seinni fréttum Ríkissjónvarps (22.12.2013) var ítrekað talað um veglagningu í Gálgahrauni. Molaskrifari hefði kunnað því betur ef talað hefði verið um vegagerð eða vegarlagningu.
Útsendingin datt inn og út var sagt á fréttavef Ríkisútvarpsins á aðfangadag um truflanir á útsendingu vegna bilana og óveðurs eystra. Var ekki útsendingin slitrótt? Sjá: http://www.ruv.is/frett/utsendingin-datt-inn-og-ut
Ísland got talent er versta sjónvarpsþáttarheiti í sögu sjónvarps á Íslandi. Stöð tvö á skömmina af því. Svei attan!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
28/12/2013 at 09:07 (UTC 0)
Ég tala um flísalagningu ekki flíslagningnu. K kv esg
Þorvaldur S skrifar:
27/12/2013 at 17:27 (UTC 0)
Hvort finnst þér þá betra að tala um steinlagningu eða steinslagningu?