«

»

Molar um málfar og miðla 1380

Frá Molavin: ,,Á vef ruv.is 6.1.14 segir í fréttafyrirsögn: Segja Mugabe ekki á banlegunni.

Einkennilega til orða tekið. Hann gæti verið á banabeði eða legið banaleguna.” Rétt ábending. Sjá: http://www.ruv.is/frett/segja-mugabe-ekki-a-banalegunni. Þetta var enn óleiðrétt á vef Ríkisútvarpsins undir kvöld í gær.

 

Mikil velta með hlutabréf Reginn í dag, segir í fyrirsögn á visir.is (06.01.2014):

http://www.visir.is/mikil-velta-med-hlutabref-reginn-i-dag/article/2014140109420 Hér hefði verið betra að tala um mikil viðskipti með hlutabréf Regins í dag.

 

Trausti skrifaði (05.01.2014): – Sjá: http://www.dv.is/frettir/2014/1/5/breskir-visindamenn-bua-sig-undir-adra-skaftarelda/
„Verkefnið snýst um að gera líkan af eldgosinu í Lakagígum og rannsaka nokkra þætti sem slíkt eldgos gæti haft áhrif á,“ segir Loughlyn og nefnir í því samhengi flugumferðir og hættuleg áhrif sulfurtvíoxíðsskýja.

Með ,,sulfur“ er væntanlega átt við það efni sem á ensku kallast „sulphur“ og hefur hingað til heitað brennisteinn á íslensku, en það vita fréttabörn auðvitað ekki.

Flugumferðirnar rugla mig dálítið.
Umferð, sem þýðing á orðinu ,,traffic“, getur ekki verið í fleirtölu frekar en mjólk, hveiti, kennsla eða uppeldi. Hins vegar er önnur merking orðsins til í fleirtölu. Þannig er t.d. hægt að prjóna nokkrar umferðir á peysu eða sokk milli mjalta og messu eða fara nokkrar umferðir í hringekju. Í báðum tilvikum er átt við hringferðir eða ,,umför“ eins og enn er notað við byggingu trébáta og er e.t.v. hið upphaflega.
Ætli við megum framvegis vænta frétta af ,,umferðum“ í Reykjavík og öðrum byggðarlögum í fjölmiðlum, og þá kannski af ,,færðum“ líka? Vonandi fá blessuð fréttabörnin einhverja kennslu og gott uppeldi áður en það verður. En trúlegt þykir mér að fréttnæmt muni teljast að þau hafi fengið kennslur og góð uppeldi. :)”  Kærar þakkir Trausti. Þarna eru ekki gerðar nægar kröfur til þeirra sem skrifa. Fréttabörnunum er bara sleppt lausum og þau láta allt vaða eins og stundum er sagt. Vita ekki betur, kunna ekki betur. – Ungt fólk sem er að byrja í fréttamennsku þarf leiðsögn og aðhald.

 

Komu að dauðadrukknu fólki í tjónuðum bíl, sagði í fyrirsögn á visir.is (06.01.2014) – http://www.visir.is/komu-ad-daudadrukknu-folki-i-tjonudum-bil/article/2014140109523. Tjónaður bíll? Bíll sem orðið hefur fyrir skemmdum, laskaður bíll. Önnur fyrirsögn úr sama miðli sama dag: Lögðu hendur á 145 kíló af kókaíni. http://www.visir.is/logdu-hendur-a-145-kilo-af-kokaini/article/2014140109504 – Sama orðalag er notað í fréttinni, ekki einu sinni, heldur tvisvar. Sá sem þetta skrifaði veit ekkert hvað það þýðir á leggja hendur á. Að leggja hendur á, er að ráðast á, taka á einhverjum. Hér hefði átt að tala um að leggja hald á, – sem er allt annar handleggur, eða önnur Ella. Í fréttinni er líka talað um tollastarfsmenn, – tollverði.

 

Framvegis verða Molar um málfar og miðla ekki aðgengilegir á vef dv.is. Molarnir verða áfram á www.eidur.is og á fésbók og twitter.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Þorvaldur. K kv esg

  2. Eiður skrifar:

    Kærar þakkkir, – k kv esg

  3. Orðavin skrifar:

    Sæll Eiður.
    Það má næstum því hlægja að þessari frétt á DV: http://www.dv.is/frettir/2014/1/6/handsomudu-unga-stulku-sem-var-klaedd-i-sprengjuvesti/. Ætli að Google hafi þýtt?

  4. Þorvaldur S skrifar:

    Sulfurtvíoxíð er venjulega kallað brennisteinstvíildi á ástkæra, ylhýra málinu.
    Tjónaður er hins vegar komið inn í málið til greina bíl sem orðið hefur fyrir tjóni, og er því laskaður, frá bíl sem er bilaður og þess vegna illa á sig kominn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>