«

»

Molar um málfar og miðla 1383

Skúli skrifaði (08.01.2014): ,,Mikið fer skammstöfunin BNA í taugarnar á mér og af tveim ólíkum ástæðum.

Í fyrsta lagi er þetta skammstöfun á rangnefni Bandaríkja Ameríku. Það er ekkert Norður í USA. Einhver Íslendingur hefur tekið að sér að leiðrétta heimamenn þarna og ekki auðvelt að koma auga á ástæðu þess.

Í öðru lagi eru skammstafanir miklu verri í íslenzku en mörgum öðrum málum vegna beyginga og algjör óþarfi fyrir svona stutt nafn: Bandaríkin, 10 stafir.

Önnur íslenzk leiðrétting tengist Bandaríkjunum þegar talað er um „fylki“ í stað ríkja. Orðið fylki er komið frá Noregi. Samsvarandi héraðaskipting heitir län í Svíþjóð og county í Bretlandi. Ríki Bandaríkjanna skiptast í county, t.d. er Orange County í Kaliforníu vel þekkt. Ég hef séð bandarísk county þýdd sem „fylke“ í norsku. Það er sá meginmunur á ríkjum Bandaríkjanna og fylkjum Noregs að ríkin hafa töluverða sjálfsstjórn með lagasetningarvaldi o.s.frv. sem norsku fylkin hafa ekki.” Allt er þetta rétt, sem Skúli segir. Kærar þakkir fyrir bréfið.

 

Undirfyrirsögn úr Fréttablaðinu (08.01.2014): Hann safnaði féinu með því að standa fyrir fjölda uppistanda og stóð söfnin yfir í rúm sex ár. Hvar er gæðaeftirlitið, Fréttablaðsmenn? Ja, hérna.

 

Af mbl.is (08.01.2014): ,,Bendir það til að hlaupvatn hafi lekið undir einum katlanna á vatnasviði Kötlujökuls. “http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/01/08/fylgjast_vel_med_mulakvisl/ Hér ætti að standa: … hafi lekið undan einum katlanna á vatnasviði Kötlujökuls. – Meira af mbl.is sama dag: ,,Árið 2012 kom upp a.m.k. á annan tug mála af þessu tagi.” Hér hefði Molaskrifari sagt: ,, … kom upp á annar tugur mála af þessu tagi”.

 

Af visir.is (09.01.2014): ,,Áhafnarmeðlimir um borð í Helgu Maríu AK eru mjög ósáttir við vinnubrögð lögreglu og tollgæslunnar við tvær leitar sem framkvæmdar voru um borð í skipinu”.

Ekki verður sagt að þetta sé vel orðað. Betra hefði verið, til dæmis: Áhöfn Helgu Maríu AK er mjög ósátt við vinnubrögð lögreglu og tollgæslu sem tvisvar sinnum hafa leitað um borð í skipinu. http://www.visir.is/ahofn-helgu-mariu-ak-osatt/article/2014140108999

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir,Þorgrímur, – fæ að birta þetta undir nafni á morgun. K kv esg

  2. Þorgrímur Gestsson skrifar:

    Komdu sæll
    Þegar ég renndi yfir Fréttablaðið í morgun blasti þessi málsgrein við mér í frétt um bruggara sem kveðst blanda hvalmjöli saman við bjórinn: „Við búum á Íslandi og erum vel sett uppi í sveit.“ Þetta hefur líklega átt að vera: „Vel í sveit sett“. En svo versnar það heldur í næstu málsgrein: Við teljum okkur vera nokkuð einangruð“. Varla er það að vera vel í sveit settur! Þarna finnst mér blaðamaðurinn sýna heldur litla máltilfinningu, svo ekki sé nú meira sagt!
    Annað: Í þessari frétt er talað um „hvalamjöl“ og „hvalabein“. Ég hef nú vanist því að sagt sé og skrifað: Hvalmjöl og hvalbein.
    Má ég að lokum gera athugasemd við athugasemd frá þér í pistli dagsins? Hún snýst um að réttara sé að tala um að „á annar tugur mála“ hafi komið upp, frekar en að „á annan tug mála“ hafi komið upp. Þarna er ég ósammála. Málin voru á annan tug (fleiri en tíu) en ekki „á annar tugur“.

    Með bestu kveðju,
    Þorgrímur Gestsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>