«

»

Molar um málfar og miðla 1385

 

Í fylgiblaði Morgunblaðsins um Hafnarfjörð og Garðabæ (10.01.2014) er greint frá því að Garðabær hafi endurnýjað vátryggingasamning við VÍS. Þar segir: Gunnar Einarsson bæjarstjóri segir að VÍS hafi boðið best og ,,engar vöfflur á okkur að ganga til áframhaldandi samninga”.Engar vöfflur! Hvorki með sultu eða rjóma! Sá sem hér hefur haldið á penna þekkir ekki muninn á orðunum vöflur og vöfflur . Það var ekki verið að tala um bakkelsi, eins og stundum var sagt! Hér hefði átt að segja engar vöflur, ekkert hik, engin vandræði.

 

Gunnar skrifaði (11.01.2014): ,,Ekki fór Björn Bragi sérlega vel af stað, sem spyrill í Gettu betur á Rás 2 laugardaginn 11. janúar.
Hann er þó yfirleitt skýrmæltur, en byrjaði á að segja að það væri nýtt fólk í „brúni“.
Einnig margendurtók hann: Ókey, ókey, þegar hann spjallaði við liðin í upphafi fyrsta þáttar.
Svo komu nokkrar fjólur:
– Stress-levelið. Ókey.
– Heyrðu, þið eruð tilbúin?
– Heyrðu, þetta gekk sömuleiðis vel.
– Stórvinur okkar Erwin Rommel.
– … hafa leikið þessar persónur og bróðir hans.

Þá eru spurningarnar oft orðum hlaðnar. „… umkringdar af landvættum …“ en nóg að segja: „umkringdar landvættum“.

Svo var stórfurðulegt að heyra hann tilkynna fyrstu úrslitin: „Þetta var grátlegt“, í stað þess að óska sigurvegurum fyrstu viðureignar til hamingju”.  Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (10.01.2014)  sagði formaður BHM, að millistéttin hefði setið hjá garði. Átti væntanlega við að millistéttin hefði orðið útundan, hefði verið sett hjá.

 

Í Hraðfréttabulli Ríkissjónvarps (09.01.2014) voru flutt óþýdd viðtöl á ensku. Það er brot á vinnureglum Ríkissjónvarpsins, en öllum er sennilega sama, enda stofnunin stjórnlaus. Molaskrifari leggur til að Hraðfréttir verði lagðar niður og þeir fjármunir sem sparast verði notaðir til að halda uppi fréttaflutningi í útvarpi á nóttinni. Eins og nú háttar eru engar útvarpsfréttir frá miðnætti til klukkan sjö að morgni. Algjörlega óboðlegt.

 

Það verður hver að eiga það sem hann á. Kvikmyndaval Ríkissjónvarpsins hefur skánað upp á síðkastið. Vonandi verður framhald þar á. Samsetning dagskrárinnar er hinsvegar undarleg. Barnaefni á besta tíma á laugardagskvöldi (11.01.2014). Á sama tíma var hægt að njóta frábærra nýárstónleika í færeyska sjónvarpinu, – Sinfóníuhljómsveit Færeyja og Nýárskórinn undir stjórn Bernharðs Wilkinsonar sem íslenskum tónlistarunnendum er að góðu kunnur. Hann hefur lyft grettistökum í tónlistarlífinu í Færeyjum.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>