Gunnar skrifaði (22.01.2014): ,,Á visir.is skrifar Ellý Ármanns frétt um pilt sem slasaðist í Bláfjöllum. Hann er í tvígang kallaður „Máni Örn Arnarson“ en í sömu frétt er viðtal við föður hans, sem sagt er að heiti „Arnar Már Þórisson“. Sé það rétt er drengurinn Arnarsson. Annars héti faðir hans Örn. Lágmark að fara rétt með nöfn.” Molaskrifari þakkar bréfið.
„Bæði félögin skrifuðu ekki undir samningana,“ var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar 22. janúar. Eðlilegra hefði verið að segja að hvorugt félagið hafi skrifað undir.”
Örn skrifaði Molum eftirfarandi um nafnháttarnotkun (22.012014): ,,Vísir skrifar í dag: http://visir.is/vodafone-harmar-vistun-gagnanna–gognin-attu-ekki-ad-vera-geymd-/article/2014140129695.
Það er árátta að nota nafnhátt hjá yngra fólki:,,að vera geymd“ í stað þess að segja,,að geymast“ Sama á við um frásagnir af liðnum atburðum, þær eru flestar sagðar í nútíð, þótt nokkuð sé um liðið frá atburði.” Þakka bréfið.
Fyrsta frétt í átta fréttum Ríkisútvarps á miðvikudag (22.01.2014) var ofurlöng frásögn af kerfishremmingum konu með geðræn vandamál. Hremmingarnar tengdust nauðungarvistun. Fréttin var endurtekið efni úr morgunútvarpinu. Megintilgangur fréttarinnar virtist vera að vekja athygli á fyrirhugaðri ráðstefnu. Leikurinn var endurtekinn daginn eftir. Viðtal í morgunútvarpi og endurtekið efni aftur fyrsta frétt, nú klukkan níu, muni Molaskrifari rétt. Þetta voru hreinar auglýsingar og fólk að vinna sér hlutina létt.
Á fullu gazi – Saga Garðars klessir á, (22.01.2014). Fyrirsögn á visir.is. Fréttabarn hefur fengið að semja fyrirsögn.
Það var skemmtileg tilbreyting að fá fína óperettutónleika í Ríkissjónvarpið á miðvikudagskvöld (22.1.2014). Takk fyrir það. Skiptir engu þótt upptakan hafi verið frá 2007. Þetta efni eldist ekki svo glatt. Skyldi Ríkissjónvarpið manna sig upp í að sýna okkur eins og einn þátt með Wynton Marsalis áður en höfðinginn heimsækir Ísland með fríðu föruneyti í sumar?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar