Molavin skrifaði: ,,Einn af hátt settustu…(valdamönnum í Kína)“ sagði fréttamaður Stöðvar 2 í kvöld 24.01. Ef til vill er þetta hugsunarleysi, ef til vill þekkingarleysi. Lýsingarorðið ,,hár“ stigbeygist og gæti því orðið ,,hátt settur“ – ,hærra settur“ eða ,,hæst settur.“ En ekki , ,settastur.“ En eftir situr að enginn ritstýrir, leiðréttir eða gerir athugasemd.
Félag íslenskra bókaútgefenda auglýsir væntanlegan bókamarkað í næsta mánuði í blöðum þessa dagana og þar segir, orðrétt: ,,Útgefendur sem vilja bjóða bækur sínar á markaðinum er bent á að hafa samband….“ Hér er sitthvað athugavert en einkum er átakanlegt er menn ráða ekki við aukasetningar, né afmarka þær með kommum. Oft má sleppa þeim alveg og það hefði til dæmis dugað að segja: ,,Útgefendum er bent á að hafa samband…” — Molaskrifari þakkar bréfið.
Það sýnist vel ráðið að stjórn Ríkisútvarpsins skuli hafa valið Magnús Geir Þórðarson í starf útvarpsstjóra. Honum er árnað allra heilla í erfiðu starfi. Í Efstaleiti þarf að taka til hendinni eftir langa óstjórn. Margir hæfir sóttu um starfið og ekki efast Molaskrifari um að til dæmis Salvör Nordal eða Stefán Jón Hafstein hefðu bæði getað gegnt þessu mikilvæga starfi með sóma.
Í fréttum Ríkissjónvarps (24.01.2014) talaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um að gera ætti öllum kleift að eignast heimili. Hann ruglaði hér greinilega saman húsnæði og heimili sem er sitthvað.
Í sama fréttatíma Ríkissjónvarps kom rangt nafn á skjáinn þegar rætt var við Björgólf Jóhannsson, formann Samtaka atvinnulífsins. Engin afsökun. Engin skýring. Stundum er eins og enginn horfi á fréttirnar í útvarpshöllinni við Efstaleiti, eða það að rangt sé farið með nafn þess sem við er rætt skipti bara engu máli. Það er fúsk.
Gamall þáttur Jökuls Jakobssonar sem endurfluttur var á laugardagsmorgni (25.01.2014) um Áfanga Jóns Helgasonar var sannkölluð útvarpsperla. Ætti að nýtast sem ítarefni, þegar fjallað er um Áfanga í bókmenntakennslu í íslenskum skólum. Vonandi er staldrað við þetta einstaka ljóð í bókmenntakennslu einhversstaðar á leiðinni til stúdentsprófs. Eitt af öndvegisljóðum íslenskra bókmennta. Molalesari kynntist Áföngum í öðrum bekk í gagnfræðaskóla, þá 14 eða 15 ára.
Í veðurfréttum Ríkissjónvarps (25.01.2014) voru nokkur borganöfn komin á Norður Ameríkukortið. Takk fyrir það. Vonandi fer þeim fjölgandi, – einnig á Evrópukortinu. Hvaða regla gildir annars um veðurkort frá öðrum svæðum heims en Evrópu? Ræður hver veðurfræðingur því hvaða kort hann sýnir okkur?
Stundum er gaman að fréttamatinu. Á miðnætti á föstudagskvöld (24.01.2014) var fyrsta frétt í Ríkisútvarpinu um eld í bíl undir Hafnarfjalli. Eldurinn lognaðist útaf af sjálfu sér. Næsta frétt var um eld í potti á veitingastað í Reykjavík. Svo leyfir Ríkisútvarpið sér að flytja engar fréttir fyrr en sjö klukkutímum síðar, – klukkan sjö næsta morgun. Lélegt hjá þjónustustofnun í eigu þjóðarinnar sem jafnframt á að sinna öryggishlutverki. Með þessum hætti er því alls ekki sinnt svo sem skyldi.
Þeir voru prýðilegir Bogi Ágústsson og Þórður Snær Júlíusson í Sunnudagsmorgni Gísla Marteins (26.01.2014). Elín Hirst einbeitti sér að því auglýsa Sjálfstæðisflokkinn. Það er sjálfsagt skylda þingmanna Sjálfstæðisflokksins þegar Gísli Marteinn, fyrrum borgarfulltrúi flokksins, boðar þá á sinn fund.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
27/01/2014 at 19:10 (UTC 0)
Þetta var í aðsendu lesendabréfi, Jón, og sá sem það skrifaði hefur reynst afar traust heimild.
Jón H. Brynjólfsson skrifar:
27/01/2014 at 17:49 (UTC 0)
Sæll, Eiður.
Ertu viss um að fréttamaður Stöðvar 2 hafi sagt hátt settur en ekki háttsettur (það orð er í Íslenskri orðabók)? Hvernig skyldi orðið háttsettur fallbeygjast?
http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=h%C3%A1ttsettur