Ævinlega finnst Molaskrifara jafngaman að sjá myndir frá gömlum tíma hér á landi. Þess vegna, meðal annars,var fengur að myndinni um Eimskipafélag Íslands, sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld (02.02.2014). Margt fróðlegt þar. Nokkrir hnökrar voru þó í texta og misræmi á tveimur stöðum. Annarsvegar varðandi það hvenær siglingar hófust vestur um haf. Sagt var 1917 í þulartexta en núverandi forstjóri talaði um 1915 , – árið eftir stofnun félagsins. Svo var það rangt að Dettifossi hefði verið sökkt í lok janúar 1945. Dettifossi var sökkt 21. febrúar 1945. Molaskrifari hafði gaman af að sjá á skjánum skipstjórana Magnús Þorsteinsson og Erlend Jónsson. Þeir áttu um skeið báðir heima á Skeggjagötu í Norðurmýrinni í Reykjavík, þá reyndar stýrimenn, þar sem Molaskrifari ólst upp. Og vissi þá upp á hár hver bjó hvar í þeirri góðu götu, því fjölskyldan bar þar út Moggann um árabil um og eftir 1950. Gaman verður að sjá seinni hluta myndarinnar, – væntanlega að viku liðinni. Í myndgerðinni var margt snoturlega og smekklega gert.
Molavin skrifaði (03.02.2014): ,,Eins og fram hefur komið í dag er engum bát saknað.“ Þannig er orðuð Fasbókarkynning Vísis á frétt um leit að báti á Faxaflóa á sunnudagskvöldi, en í fréttinni sjálfri á visir.is er þetta orðað þannig: „Eins og fram hefur komið í dag er einskyns bát saknað“ Erfitt er að sjá hvor setningin á að vera leiðrétting á hinni. Þarna leiðir haltur blindan eins og svo oft áður.” Þau láta ekki að sér hæða fréttabörnin sem taka vísisvaktir um helgar. Þakka bréfið, Molavin.
Á mbl.is (02.02.2014) segir: Töluverður erill var á lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og í gærkvöldi. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/02/02/toluverdur_erill_a_logreglunni/
Molaskrifari hefði sagt að töluverður erill hafi verið hjá lögreglunni. Vel má vera að hvort tveggja sé gott og gilt.
Þrír fjórðu landsmanna vill, sagði Telma Tómasson, fréttaþulur á Stöð tvö á sunnudagskvöld (01.02.2014). Þrír fjórðu landsmanna vilja … hefði hún betur sagt.
Ekki heyrði Molaskrifari betur sagt væri í dagskrárauglýsingu á Stöð tvö á sunnudagskvöld (02.02.2014). Ég vissi að það mundi eitthvað skemmtilegt henda fyrir mig í kvöld. Klúðurslegt og óvandað orðalag.
KÞ spyr (02.02.2014): Hvað er ,,gærnótt“?
http://www.dv.is/frettir/2014/2/2/thu-sagdir-sigri-hrosandi-vid-vini-thina-ad-thu-hefdir-lamid-einhverja-gellu-sem-hefdi-verid-fyrir-ther/ Ekki getur Molaskrifari svarað því svo óyggjandi sé. Líklega síðastliðin nótt. Kannski fyrrinótt. Þetta bjálfalega orðaleg heyrist æ oftar í fjölmiðlum og étur þar hver eftir öðrum eins og svo oft.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar