Vinur Molanna skrifaði: ,, Finnst einhvern veginn hálf ankannaleg, þessi setning Illuga Jökulssonar á Fésbók i dag:
,,En mikið hefur þá forsetann og nafna minn sett ofan við að taka þátt í þessu leikriti Pútins.”
Kannski er ekkert athugavert við þetta, en mér hefði þótt eðlilegra að segja að ÞEIR hafi sett ofan”. Það er rétt athugað. Þakka bréfið.
Molalesandi skrifaði (09.02.2014): ,Blaðamenn grípa í skrifum sínum æ oftar til orðasambandsins ,,að ná“ í stað,,að takast“ sem er fallegri íslenska. Hugsanlega er skýringin fælni í að beygja persónufornöfn s.s ,,Hann náði að koma sér út úr húsinu“ í stað ,,honum tókst að..“
Hér í tilvitnaðri frétt er heldur léleg íslenska þar sem segir frá manni sem ,,náði að komast yfir auð“ og spurt hvernig hann hafi ,,náð að gera það“.
Ýmislegt fleira í fréttinni vitnar um slappa málnotkun, s.s. ,,…landið er mesta kaffiframleiðsluland heims.“ (..stærsti kaffiframleiðandi/-ræktandi)
,,Fáir hafa orðið mjög ríkir…“ (fáir hafa auðgast)
,,…en þeir eru þó til.“ Óþarfi að taka það fram.
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/02/08/a_fimm_bentley_og_tiu_ferrari_2/ “ Molaskrifari þakkar bréfið.
Á fréttavefnum visir.is var sagt (07.02.2014): Aðalsteinn segir að með þessu sé risinn upp alvarlegur trúnaðarbrestur í hreyfingunni.
Lesendur hljóta sumir hverjir að hafa velt því fyrir sér, hvernig brestur rísi upp. Nægt hefði að segja að trúnaðarbrestur hefði komið upp. http://www.visir.is/starfsgreinasambandid-klofnar/article/2014140209253
Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins (09.02.2014) var talað um kostnað við greiðsluseðla og sagt að ,,…. upphæðin hlaupi á einhverjum hundraðköllum í hvert sinn”. Þetta orðalag verður æ algengara, – væntanlega eru þetta áhrif úr ensku. Hér hefði til dæmis ekkert verið að því að tala um að þetta kostaði nokkur hundruð krónur í hverju tilviki.
Af dv.is (08.02.2014): Þar segist Sigurður ekki reka minni til þess að ráðuneyti hafi áður sætt lögreglurannsókn. Hér hefði átt að segja, til dæmis. Sigurður segir að sig reki ekki minni til þess að ….
Stór ljósmynd á baksíðu Morgunblaðsins á laugardag er af þúsund þjalasmiðnum Jóni H. Karlssyni í Sandgerði sem smíðar skipslíkön. Á myndinni er einnig smíðisgripur eftir Jón, vélbátur eins og algengir voru hér á árum áður. Í myndatextanum er báturinn sagður gamall togari! Fjarri lagi. Sá sem textann skrifaði veit ekki hvernig togari lítur út. Hefur sjálfsagt vakið furðu margra.
Fróðlegt og athyglisvert viðtal Boga Ágústssonar við dr. Michael Byers í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi um norðurslóðir (10.02.2014).
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar