«

»

Molar um málfar og miðla 1426

Bæði á Bylgjunni og visir.is var (01.03.2014) ítrekað talað um Krímshérað. Molaskrifari er á því að tala ætti um Krímhérað. Við tölum um Krímskaga. http://www.visir.is/krimsherad-oskar-eftir-adstod-putin/article/2014140309992. Krímshérað óskar eftir aðstoð Pútín, segir í fyrirsögn. Eðlilegt væri hins vegar að tala um aðstoð Pútíns.

 

Undarlegt er hve mörgum gengur illa að fara rétt með orðtakið að bera gæfu til einhvers. Í þættinum Á Sprengisandi (02.03.2014) sagði Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður: okkur hefur ekki borið gæfu til þess. Við höfum ekki borið gæfu til þess að …. , hefði verið rétt að segja.

 

Í morgunfréttum Ríkisútvarps klukkan sjö og yfirliti klukkan hálf átta í morgun (03.03.2014)  sagði Áslaug Guðrúnardóttir okkur frá veitingu Óskarsverðlauna. Um eina mynd var sagt að hún hefði verið tilnefnd til tíu verðlauna, en ekki fengið eitt einasta. Sem sagt ekki fengið eitt einasta verðlaun! Fleirtöluorðin geta verið erfið. Áslaug var búin að lagfæra þetta í fréttum klukkan átta og talaði réttilega um ekki ein einustu verðlaun. Þá tók við Bjarni Pétur Jónsson með lengri fréttapistil um verðlaunaafhendinguna og talaði enn á ný um eitt einasta verðlaun. Hann sagði líka að eitthvað hefði verið samkvæmt bókinni. Hvaða bók? Enskukennslubókinni. Sennilega.

 

Molaskrifari hlustaði á drottningarviðtal við atvinnuvegaráðherrann í Á Sprengisandi á Bylgjunni. Lítils vísari. Svo kom viðtal við Guðlaug Þór Þórðarsonar, varaformann þingflokks Sjálfstæðisflokksins og Helga Hjörvar úr Samfylkingu. Guðlaugur Þór sagði okkur að Evrópusambandið hefði verið mikill ófriðarvaldur í Evrópu! Hann þarf að lesa söguna betur. Aðild að ESB hefur verið ágreiningsefni í ýmsum Evrópulöndum, en allt of langt er gengið að tala um þessa samvinnu 28 Evrópuríkja sem ófriðarvald.

 

Danska sjónvarpið, DR er um þessar mundir að endursýna bresku gamanþættina, Já, ráðherra (Yes, Minister). Þetta voru stórskemmtilegir grínþættir, sem hafa bara elst ágætlega. Ríkissjónvarpið okkar gæti hér tekið það danska sér til fyrirmyndar.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>