«

»

Molar um málfar og miðla 1441

Óralangt er síðan Molaskrifari síðast hlustaði á Virka morgna á Rás tvö í Ríkisútvarpinu. Hlustaði stundarkorn að morgni miðvikudags (26.03.2014). Þáttarstjórnendur höfðu orðið: Þetta er ekkert að gerast fyrir mig, sagði Andri Freyr Viðarsson. Nokkru síðar sagði Guðrún Dís: Maður getur skrikað fótur. Kannski þarf sérstakan málfarsleiðbeinanda við þennan þátt.

 

Af mbl.is (26.03.2013): Ljóst er að almenningur vestan hafs er felmtri sleginn yfir fréttunum að hjónin Gwyneth Paltrow og Chris Martin ætli að skilja. Verðbólga orðanna. Eða, að sá sem skrifaði veit ekki hvað það er að verða felmtri sleginn. Það þýðir að vera gripinn skyndilegri og mikilli hræðslu. Varla hefur fregnin af þessum skilnaði valdið skyndilegum ótta hjá almenningi vestra.

 

Hversvegna þurfa fréttir og veðurfréttir svona oft að láta í minni pokann fyrir íþróttaefni í Ríkissjónvarpinu? Til dæmis á miðvikudagskvöldið (26.03.2014). Er yfirstjórn íþróttadeildar einráð um dagskrána? Þetta þarf nýr útvarpsstjóri að taka til athugunar og endurskoðunar.

 

Bjarni Harðarson, bóksali á Selfossi, og margreyndur frambjóðandi ýmissa flokka skrifaði grein í Morgunblaðið á föstudag (28.03.2014). Þar segir hann:,,Það á ekkert skylt við lýðræði að hrópa á þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvað sem ekki er mögulegt. Það er skrum og tilræði við lýðræðið”. Er það ekki tilræði við lýðræðið, þegar hver stjórnmálamaðurinn á fætur á öðrum, úr tveimur stjórnmálaflokkum, fólk sem nú situr í ráðherrastólum, lofaði kjósendum þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir kosningar, og svíkur svo loforðið eftir kosningar? Það er tilræði við lýðræðið. Það eru svik. Það er óheiðarlegt. Það er nefnilega ekkert ómögulegt við þjóðaratkvæðagreiðslu um að ljúka viðræðum við ESB, – nema það að ríkisstjórnin mundi að líkindum tapa málinu. Getur það gert atkvæðagreiðsluna ómögulega? Er það lýðræði? Það er þá skrítið lýðræði.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>