«

»

Molar um málfar og miðla 1447

 

Mikið er gaman þegar fréttatími Ríkissjónvarpsins byrjar með brandara. Þannig byrjuðu seinni fréttir á fimmtudagskvöld (03.04.2014). Sagt var frá myndbandi sem Samtök atvinnulífsins hafa látið gera um að við Íslendingar eigum heimsmet í að verja landið gegn erlendum kjúklingum! Þegar betur er að gáð er þetta fremur dapurlegur brandari um það hvernig arfavitlaus tollverndarstefna í þágu kjúklingaframleiðenda (kjúklingabændur eru ekki til) á Íslandi bitnar á íslenskum neytendum.

 

T.H. vitnar í frétt á mbl.is (03.04.204):
„Við höfum verið að vinna að þessu verkefni frá því í haust. Fyrir áramót byrjuðum við á því að hanna bíllinn og nú frá áramótum höfum við verið að vinna að framleiðslu hans. Nú síðustu misserin höfum við verið að setja hann saman og nú erum við komin að þeim tímamótum að bíllinn er tilbúinn,“

Er ekki misseri hálft ár? Hefur fólkið þá verið að setja bílinn saman frá því löngu áður en byrjað var að hanna hann, hvað þá meira?

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/04/03/honnudu_rafknuinn_kappakstursbil/

Molaskrifari þakkar bréfið og réttmæta ábendingu. Sá sem skrifari þekkir sennilega ekki merkingu orðsins misseri.

 

KÞ vísar til þessarar fréttar (04.04.2014) á mbl.is:
http://www.mbl.is/folk/frettir/2014/04/03/johanna_sigradi_the_biggest_loser_island_2/

Hann spyr: ,,Hvað er merkilegt við að sigra einhvern,,lúser“, jafnvel þótt stór sé?!” Molaskrifari getur ekki svarað því , en þakkar KÞ bréfið.

 

Keppnin hefur aldrei verið stærri, sagði umsjónarmaður Skólahreysti í Ríkissjónvarpinu á föstudagskvöld (04.04.2014). Hann átti væntanlega við að þátttakendur hefðu aldrei verið fleiri. Ekki gott að tala um stóra keppni eða litla keppni.

 

Í tíu fréttum Ríkisútvarps á föstudagskvöld (04.04.2014) talaði fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson um að stíga áfanga. Menn stíga skref. Ná áfanga. Í sama fréttatía var sagt að fleiri mundu starfa við (undirbúning afnáms gjaldeyrishafta). Fleiri en hvað? Ekki vel að orði komist.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>