«

»

Molar um málfar og miðla 1468

 

Trausti Harðarson benti á eftirfarandi frá af dv.is (07.05.2014): http://www.dv.is/frettir/2014/5/5/fjoldaframleida-metamfetamin-72H7GG/

,,Norður-Kóreumenn fjöldaframleiða metamfetamín“.
Hann segir: ,,Já, miklir menn eru Norður-Kóreumenn!
Ætli þeir hafi kannski líka fundið aðferð til að fjöldaframleiða mjöl, loft og bensín?
Til þessa hefur einungis verið unnt að fjöldaframleiða það sem hægt er að telja.
Það sem ekki er teljanlegt, en magnmælanlegt á annan hátt, t.d. í lítrum eða grömmum er engu að síður iðulega hægt að framleiða í miklu magni, magnframleiða.” Molaskrifari þakkar Trausta ábendinguna.

 

Endalaust er ruglað saman af og að. Á visir.is er skrifað (06.05.2015): Gestur varð vitni af árekstrinum. Gestur varði vitni árekstrinum, – ekki af árekstrinum. Sjá: http://www.visir.is/brunadi-inn-a-bilastaedi-og-storskemmdi-sjo-bila/article/2014140509639

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (06.05.2014) var sagt frá leit að olíutanki sem sökk í Mývatn fyrir áratug eða svo: ,,… ekki er vitað hve miklu hefur lekið úr honum”, var sagt í fréttunum. Eðlilegra hefði verið að segja, að ekki væri vitað hve mikil olía kynni að hafa lekið úr tanknum.

 

Lesandi benti Molaskrifara á tölvusíðu flugfélagsins sem kallar sig WOW. Þar er lesendum/viðskiptavinum boðið að velja eitthvað sem félagið kallar WOW beisik. Það mun vera einhverskonar grunnþjónusta, ljót íslenskuð enskusletta. Enska orðið sem vísað er til er basic. Þetta er málfarslegur subbuskapur, – að ekki sé meira sagt.

 

Málglöggur Molalesandi spyr (07.05.2014): ,,Á mbl.is í dag eru tvær fréttir um nýjan útsýnispall sem hefur verið settur upp á Skoruvíkurbjargi.

Í báðum fréttunum er bjargið marg oft nefnt Skoravíkurbjarg.

 

Man ekki eftir að hafa séð þetta fyrr en auðvitað getur verið að þetta sé eitthvað sem er til heimabrúks, – hvað veit ég?”

Hvað segir þú?” Molaskrifari hefur aldrei heyrt annað heiti en Skoruvík og Skoruvíkurbjarg. Það heiti er einnig að finna í örnefnaskrá aftan við Íslandsatlas.

 

 

Verður nú hlé á Molaskrifum um sinn.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>