«

»

Molar um málfar og miðla 1474

 

Kvöldfréttatímar Ríkisútvarpsins , kl 1800 þessa dagana eru oftar en ekki hvorki fugl né fiskur. Megin tíminn fer í einhverskonar framboðsfundi á landsbyggðinni. Þarna eiga að vera fréttir, en ekki umræður um það hvort vegur eigi að liggja fyrir ofan eða neðan tiltekinn leikskóla úti á landi. Slíkt á ekki heima í aðalfréttatíma Ríkisútvarps.  Hversvegna er þetta ekki sent út til dæmis klukkan hálf sjö eða hálf átta? Þetta efni ætti auðvitað best heima í svæðisútvarpi, en það eru víst mörg ár síðan var lagt niður. Illu heilli.

 

Sagt hefur verið frá því, að Sjálfstæðismenn í Hafnarfirði og fulltrúar Bjartrar framtíðar séu farnir að ræða um myndun meirihluta. Dálítið furðulegt í ljós þess að kosningar fara ekki fram fyrr en 31. maí !

 

Í íþróttafréttum Stöðvar tvö (19.05.2014) var sagt: Sannarlega gott tilþrif ,um ökumann,sem þótti standa sig vel. Tilþrif er fleirtöluorð. Þess vegna hefði átt að segja: Sannarlega góð tilþrif.

 

Rafn benti á frétt (19.05.2014) á pressan.is og segir:
,, Í fréttinni hér fyrir neðan og víðar hefir verið rætt um atkvæðagreiðslu í Sviss og sagt, að hún snúist um hækkun lágmarkslauna.

Eftir því, sem ég veit bezt eru engin ákvæði um lágmarkslaun í svissneskum lögum, þannig að tillagan var um upptöku lágmarkslauna, nokkuð hárra að vísu, en ekki um hækkun slíkra launa.” Molaskrifari þakkar Rafni ábendinguna. Sjá: http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/05/18/hofnudu-riflegri-haekkun-lagmarkslauna-i-thjodaratkvaedagreidslu/

 

Hækkun sjávarborðs minna vegna Grænlandsjökuls, segir í fyrirsögn á visir.is (19.01.2014). Sjá http://www.visir.is/haekkun-sjavarbords-minna-vegna-graenlandsjokuls/article/2014140518990

Þetta er rangt. Fyrirsögnin ætti að vera: Hækkun sjávarborðs minni vegna Grænlandsjökuls.

 

Í frétt um fyrirhugaða nýbyggingu Landspítala (19.05.2014) í Ríkisútvarpinu var sagt: … að ljúka undirbúningi byggingu … Hefði að mati Molaskrifara átt að vera: .. að ljúka undirbúningi byggingar …

 

Veisla er mikið tískuorð hjá Ríkisútvarpinu um þessar mundir. Talað er um handboltaveislur og fótboltaveislur. Á mánudag (19.05.2014) var á dagskrá Gítarveisla Bjössa Thors. Prýðilegur þáttur. En þarna var enginn Bjössi Thors á ferð heldur Björn Thoroddsen oft kallaður Bjössi Thor. Það var út í hött að segja hann Thors. Eignarfalls – s átti ekki heima þarna.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>