«

»

Molar um málfar og miðla 1483

 

Molavin sendi eftirfarandi (31.05.2014): „Þó nokkur flugfélög hafa þurft að aflýsa öllum sínum flugum…“ sagði fréttakona Stöðvar tvö í kvöldfrétt um eldgos. Hér færi betur á að nota orðið „flug“ í eintölu; „aflýsa öllu sínu flugi.“ Venjan hefur verið sú að segja: Öllu flugi aflýst. „Fluga“ er ekki sama og „flug.“ Þetta er svipað og með orðið „verð“. Það er eintöluorð. – Molaskrifari þakkar ábendinguna. Ríkisútvarpið talaði réttilega um að mörgum flugferðum hefði verið aflýst.

 

Fyrrum starfsfélagi benti á frétt á dv.is (31.05.2014): ,, „Sveppir eru þarlendum yfirvöldum greinilega hugfangin en síðasta haust var í höfuðborginni Pyongyang opnuð sérstök rannsóknarstofnun um sveppi“. Annað hvort er þetta dæmi um að blaðamaður sé að hugsa um eitthvað allt annað en hann ætti að vera að hugsa um, ellegar að hann hafi ekki grundvallarþekkingu á móðurmálinu”. – Nema hvort tveggja sé, – nema hvort tveggja sé. Fleira er skrítið í þessum skrifum: http://www.dv.is/frettir/2014/5/31/nordur-korea-framleidir-orkudrykk-ur-sveppum/

Eftirfarandi er einnig af dv.is sama dag: ,,Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði ökumann í vikunni sem reyndist langt frá því að vera réttum megin við lögin”. Réttu megin  við lögin.

 

,,Er að “ talsmátinn heyrist víða, – ótrúlega víða. Oftast er þess háttar orðalag óþarft. Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (31.05.2014) var sagt: ,,Það eru átta listar sem eru að bjóða fram í Reykjavík”. Átta listar bjóða fram í Reykjavík.

 

Það sem mbl.is kallar Smartland er á stundum einkennilega skrifað. Þar var (01.06.2014) svohljóðandi fyrirsögn: 90 milljóna hönnunar villa. Greinilega alvarleg villa. Klaufalega orðað, átt var við villu, glæsilegt einbýlishús.  http://www.mbl.is/smartland/heimili/2014/06/01/90_milljona_honnunarvilla/ Þakka lesanda ábendinguna.

 

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (31.05.2014) var sagt: ,,Reykjaneshryggurinn er á mótum tveggja jarðskorpufleka sem reka hvor frá öðrum ….” Flekarnir reka hvorki eitt né neitt. Flekana rekur hvorn frá öðrum … Þetta heyrist ærið oft, því miður.

 

Fyrri hluta laugardags (31.05.2014) voru auglýsingar og tilkynningar í Ríkisútvarpinu lesnar með sömu leiðinda hrynjandi og oft heyrist á Bylgjunni. Vinsamlegast hlífið okkur við þessu.

 

Molaskrifari ætlaði að hlusta á útvarpsfréttir klukkan 1700 á kjördag, laugardag (31.05.2014) en mundi svo allt í einu að Ríkisútvarpinu þóknast ekki, einhverra hluta vegna, að flytja fréttir klukkan fimm nema á virkum dögum. Furðulegt. Og eiginlega óskiljanlegt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Karl Björnsson skrifar:

    Já, ef þér finnst þetta birtingarhæft.

  2. Karl Björnsson skrifar:

  3. Eiður skrifar:

    Má ég birta þetta undir undir nafni í Molunum, Karl?

  4. Eiður skrifar:

    Nei.

  5. Karl Björnsson skrifar:

    Ég held þetta sé tapað mál, þ.e. íslenskan, og þú hlýtur að verða orðinn þreyttur á að hrópa einsamall í eyðimörkinni.
    Leiðinlegt fólk talar leiðinlegt mál og það er lítið við því að gera. Íslendingar eru orðnir skelfilega leiðinlegir.
    Hér koma nokkur dæmi:
    Hvað er að gerast á helginni. Atkvæðið þitt skiftir máli. Þú getur hlustað á tónlistina þína á vefnum okkar. Þú getur greitt reikningana þína í einkabankanum þínum.
    Stanslaust vella fram eignarfornöfn og ákveðinn greinir af kjafti landans… allt svo yfirmáta hjartnæmt að slepjulegur innileikinn lekur af hverju orði. Ég hef heyrt veðurfræðinga Sjónvarpsins prjóna, „ hjá okkur“ eða „á lndinu okkar“, aftan í hverja einustu setningu og nota ákveðinn greini á alla landshluta, t.d. á Vestfjörðunum. Það er einhver vemmileg tilfinningavæðing í gangi… einhverskonar Polliönu disneyfication.
    Engu líkara en að menn gleypi í sig gagnrýnislaust allt auglýsingaskrumið, þar sem fyrst og fremst er höfðað til sjálhverfu og barnalegrar eigingirni … allt er fyrir þig og til þín –ad infinitum
    Sumir viðtalsþættir slá öll met. Dæmi eftir minni: Vilt þú sjá draumana þína rætast , spurði konan. Söngkonan svaraði og sagði, að hún vildi gjarnan láta heyra í röddinni á sér.
    Hvernig er lífið þitt í New York?
    Og er einhvertíma sem þú efast um verkin þín?
    Allt fyrir þig og vinnustaðinn þinn, kosningarnar eru fyrir þig… þínar kosningar og atkvæðið þitt. Og mjólkin þín er með öll næringarefnin sín og svo er það barnastarfið í kirjunni þinni…
    Ég væri mun sáttari við að fólk hætti að beygja nafnorð. Það er mun eðlileg þróun tungumálsins en þessi vitleysa.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>