«

»

Molar um málfar og miðla 1497

Hildur Hermóðsdóttir skrifaði (18.06.2014): ,,Sæll Eiður, mig langar bara að þakka fyrir frábær skrif um íslenskt mál. Af nógu er að taka og subbuskapurinn sem ríkir á fjölmiðlunum hreint ótrúlegur. Eitt sem stingur nú sí og æ í eyru (og þú ert trúlega búinn að fjalla um) er að nú setja menn sífellt „fókusinn á“ hlutina í stað þess að veita þeim athygli. Heyrði þetta enn og aftur dynja í útvarpinu í morgun og varð að koma ergelsinu frá mér. Einkennilegt er líka að heyra talað um að byssur séu „haldlagðar“ og bílar „keðjaðir“ – átta mig ekki alveg á þessari breytingu á viðtekinni notkun sagna. Nóg að sinni. Kveðja, Hildur”. Molaskrifari þakkar Hildi kærlega fyrir þarfar ábendingar og góð orð um Molaskrif.

 

Lesið í DV (17.-19.06.2014): Rottan mætti dauðdaga sínum þegar maðurinn lét skóflu reiða til höggs. Maðurinn lét ekki skóflu reiða til höggs. Maðurinn reiddi skóflu til höggs.

 

K.Þ. benti á þessa frétt á dv.is (17.06.2014) https://www.dv.is/frettir/2014/6/17/ok-nidur-fimm-ara-dreng-skitur-skedur-lifid-heldur-afram/

Í fréttinni segir: „Skítur skeður, lífið heldur áfram,“ sagði Wayne Payne, 31 árs gamall Breti við foreldra fimm ára gamals drengs sem hann ók niður í apríl í fyrra. – K.Þ. segir: ,, Óttalega er þetta aulalegt”: Það er svo sannarlega rétt.

 

Lesandi vísar til þessarar fréttar á visir.is (17.06.2014): http://www.visir.is/article/20140617/LIFID01/140619216

Hann spyr og ekki að ástæðulausu: ,,Var barn Bryndísar Heru ekki skírt? Og skírði þessi Ásgeir Kolbeins barn sitt sjálfur? Er hann þá prestur?” Réttmætar spurningar.

 

Einhverra hluta vegna er það æ algengara að heyra útsendingarklúður í fréttatímum Ríkisútvarps. Síðast í morgun (20.06.2014) í áttafréttum. Kæruleysi eða klaufaskapur?

 

Sem hefur lengi ekki verið skugginn af sjálfum sér, sagði fréttamaður Ríkisútvarps um knattspyrnumann í Speglinum (19.06.2014). Þetta hljómaði ekki rétt. Var ekki rétt. Betra hefði verið að segja: Sem lengi hefur aðeins verið skugginn af sjálfum sér, – sem hefur hrakað mjög, sem hefur farið mikið aftur.

 

Það heyrir til undantekninga í Ríkissjónvarpinu að sagt sé hvenær efni verði endursýnt. Hjá mörgum erlendum stöðvum er þetta regla. Sennilega er skipulagsleysið of ráðandi í dagskárstjórn Ríkissjónvarpsins til þess að unnt sé að tilkynna endursýningar með góðum fyrirvara. Stundum er okkur meira að segja alls ekki sagt að verið sé að bjóða upp á endursýnt efni. Heldur slök vinnubrögð.

Það hefur lengi verið svo, að auglýsingar á Bylgjunni hafa verið lesnar með hvimleiðri hrynjandi. Í eyrum Molaskrifara hefur það hljómað eins og hálfgerður sífurtónn og einkar óíslenskulegur talsmáti. Að undanförnu hefur því miður heyrst samskonar lestur í Ríkisútvarpinu. Þetta ætti að vera hægt að lagfæra með tal- og lestrarþjálfun.

,,Þínar aðstæður. Okkar áskorun”,- er hallærisleg skjáauglýsing í sjónvarpi. Gevalia segir í sjónvarpsauglýsingu: ,,Gott kaffi fær fólk til að tala”. Eins mætti segja: ,,Gott kaffi fær fólk til að mala”!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>