Molavin skrifaði (08.08.2014): „..sem lagst hafa á flótta“ sagði í kvöldfréttum Sjónvarps (8.8.14) þar sem rétt hefði verið að segja „…sem lagt hafa á flótta.“ Það heitir að leggja á flótta, ekki að leggjast á flótta. – Satt og rétt, – Molavin þakkar bréfið.
Aftur og aftur sér maður, að fólk ruglar saman , eða skilur ekki muninn á sögnunum að kaupa og að versla. Í DV (8.-11.8.2014) er rætt við konu að nafni Tobba Marinós, en hún segir: ,,Það fer svolítið eftir því hvað þú ert að versla”. Hvað þú ert að kaupa. Ég fer út að versla. Ég ætla að kaupa í matinn. Í myndatexta með þessu auglýsingaviðtali í DV segir : ,,Rétt hjá er Magnolia bakaríið sem þær stöllur í þáttunum stunduðu stíft. Red Velvet bollakökurnar þar er ,,life-changing” ´´ Þetta er tilvitnun í ofangreinda konu. Hún slettir á okkur ensku að óþörfu og afbakar móðurmálið í leiðinni. Kökurnar er ekki … Kökurnar eru ….
Ekki heyrði Molaskrifari betur en að í tíu fréttum Ríkisútvarps á föstudagskvöld (08.08.2014) væri sagt að slys hefði orðið í Kaldadal. Það er löngu fast í málinu að segja á Kaldadal, ekki í Kaldadal. Sá sem segir í Kaldadal hefur sennilega aldrei farið þar um. Á wikipedia segir: ,,Kaldidalur er fjallvegur sem liggur frá Reyðarvatni innan Lundarreykjadals, milli Langjökuls og Oks til efstu bæja í Hálsasveit, innan við Húsafell, og síðan má halda áfram um Stórasand til Norðurlands.” Þar segir einnig:,, Á Kaldadal er Skúlaskeið, grýttur og erfiður kafli og er um hann sú þjóðsaga að maður sem Skúli hét hafi verið dæmdur til dauða á Alþingi fyrir einhverjar sakir en sloppið á hesti sínum, Sörla, og tekist að sleppa undan þeim sem hann eltu þegar hann reið þarna yfir. Um þetta orti Grímur Thomsen kvæðið Skúlaskeið.”
,, … eftir mánuð af örvæntingarfullri leit,” var sagt í fréttum Ríkisútvarps klukkan 1800 á föstudagskvöld (08.08.2014. Ekki mjög vel orðað. Eftir örvæntingarfulla leit í mánuð, hefði verið betra.
Það ber ekki vott um mikla hugmyndauðgi í dagskrárgerð að endurflytja dægurmálaþætti á sama sólarhringnum eins og nú er gert á Rás eitt í Ríkisútvarpinu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar