Fyrrum fréttamaður skrifaði (10.08.2014):
,,Fréttastofa Ríkisútvarpsins er stöðugt að læra góð vinnubrögð. Nú hefur hún tekið orðskrípið „íþróttapakki“ upp eftir Stöð 2. „Þéttur íþróttapakki í kvöld, farið ekki langt“, segja þeir á Stöð 2. Þetta ásamt öðru veldur ákveðnu hugarástandi hjá mér. Þetta hefðum við á mínum unglingsárum kallað „plebbahátt“, Já, það er einmitt plebbaskapurinn á Stöð 2, sem hefur haldið mig frá þeirri stöð. En nú hefur Ríkisútvarpið sem sagt bæst í plebbahópinn og lapið ósómann upp eftir keppinautnum í þéttum íþróttapökkum.” Molaskrifari tekur undir með fyrrum fréttamanni. Þetta íþróttapakkatal er óttalega hallærislegt, að ekki sé sterkar að orðið kveðið. Þessi ágæti bréfritari og fyrrum kollega segir líka: ,, Svo langar mig einnig að benda á algenga meinloku í fréttaskrifum, sem oft ber á, jafnvel hjá vönduðum fréttamönnum eins og Veru Illugadóttur. Sagt er: ,,x hefur veitt fjármunum til verkefnisins. Á að vera veitt fjármuni til verkefnisins. Fjármunir eru ekki vatn. Menn veita vatni á akra, en veita peninga til verka”. Molaskrifari þakkar þarfar ábendingar.
Molavin skrifaði (12.08.2014): ,,Fréttakona Stöðvar 2 sagði í kvöldfréttum áðan að læknir, sem smitast hafði af ebólu, hefði verið fluttur til Spánar með mikilli viðhöfn. Rétt er að það var mikill viðbúnaður vegna smithættu en það er ekki sama viðhöfn og viðbúnaður.
Sem fyrr les enginn fullorðinn yfir fréttatextann áður en hann er fluttur.” Gæðaeftirlit ekki til staðar, frekar en fyrri daginn. Þakka bréfið.
Í fréttum Ríkissjónvarps (10.08.2014) var sagt: Í gær opnuðu sýningar. Sýningarnar voru opnaðar. Þær opnuðu ekki neitt. Sennilega er það tapað stríð að tala gegn þessari notkun sagnarinnar að opna. Þetta heyrist og sést í fjölmiðlum næstum á hverjum degi.
Óþörf þolmyndarnotkun á mbl.is (11.08.2014): Tvær bifreiðar voru stöðvaðar af lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í nótt, …Betra hefði verið: Lögreglan stöðvaði tvær bifreiðar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Germynd alltaf betri.
Gisti ekki í Landmannalaugum , er óræð fyrirsögn á mbl.is (11.08.2014). Það fyrsta sem lesanda dettur líklega í hug er, að verið sé að segja frá ferðamanni,sem ekki hafi gist í Landmannalaugum , heldur annarsstaðar. Svo er ekki. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/08/11/gisti_ekki_i_landmannalaugum/
Efni fréttarinnar er að breyta eigi skipulagi svæðisins þannig , að ekki megi tjalda eða gista við laugarnar heldur verði fólk að tjalda nokkurn spöl frá laugunum. Efni fréttar á að vera hægt að ráða af fyrirsögn. Það er ekki hægt í þessu tilviki.
Í undirfyrirsögn á bls. 4 í Morgunblaðinu (11.08.2014) segir: Leki kom upp í bát við Hólahóla í gær. Ekki er venja að tala um að leki komi upp. Hér hefði verið eðlilegt að segja: Leki kom að bát/báti undan Hólahólum. Báturinn var ekki við Hólahóla. Hann var undan Hólahólum eða utan við Hólahóla eins og sagt er í fréttinni. Í annarri undirfyrirsögn í sama blaði sama dag (bls. 4) segir: Alvarleg líkamsárás varð í miðbænum á laugardagskvöld. Æ algengara að sjá þessa meinloku eins og t.d. bílvelta varð. Líkamsárásin varð ekki.
Ráðist var á mann. Ómar Ragnarsson hefur oft bent á þetta í sínum ágætu bloggskrifum.
Er enginn á Morgunblaðinu, sem hefur það hlutverk að lesa yfir fyrirsagnir, – að ekki sé nú talað um fréttir, svona almennt?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
13/08/2014 at 18:54 (UTC 0)
Takk, Sigurður, G.
Sigurður G. Tómasson skrifar:
13/08/2014 at 16:14 (UTC 0)
„Fyrrum fréttamaður“ á líklega að vera „fyrrverandi fréttamaður“ en fyrrum er atviksorð og með starfsheitinu fréttamaður verður að koma fallorð, lýsingarorð eða lýsingarháttur sagnar. Þá er ekkert athugavert að nota sögnina aö veita með þágufalli, hvort sem talað er um peninga eða fjármuni. Það hafa menn gert frá því alþingi fékk fjárveitingavaldið.