«

»

Molar um málfar og miðla 1554

 

Merkilega lítið kom út úr löngu viðtali í Kastljósi á þriðjudagskvöld við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra.   Við vorum ekki miklu nær, nema um þá sannfæringu ráðherrans, að hún hefði eiginlega ekki gert neitt rangt. Það var svo sem ekki við fréttamanninn að sakast. Dálítið undarleg upplifun að horfa á ráðherra í ríkisstjórn Íslands í þessari stöðu. Fullyrði að í grannlöndum okkar væri svona viðtal óhugsandi. Ráðherrann væri löngu farinn úr ráðuneyti og póltík eftir langa röð rangra ákvarðana, mistaka og ósanninda.

Það er álitamál hvort svona viðtöl eiga að fara fram á heimili ráðherra eins og þarna virtist vera. Viðtalið átti heima í sjónvarpssal. Ekki blanda heimili ráðherra í málið.

Kastljósþættinum var skotið inn í dagskrána með litlum fyrirvara. Það var gott framtak. Niðursoðna konuröddin, sem kynnir dagskrána gat því ekki sagt frá hvað í vændum var, að minnsta kosti fór það alveg fram hjá Molaskrifara hafi þátturinn verið ,kynntur. Er nýjum útvarpsstjóra ekki að verða ljóst að þessi háttur á að kynna dagskrána sjónvarpsins er ekki boðlegur?

Viðtal Stöðvar tvö við innanríkisráðherra í Íslandi í dag var hnitmiðað. Ráðherrann kom sér undan að svara, jafnvel sneri út úr. Talaði um ,,moldviðri” og sagðist ekki hafa haft nein áhrif á rannsókn málsins, enda þótt fram hefði komið að hún hefði talað um það við lögreglustjórann ,,að rannsaka þyrfti rannsókn málsins” og beðið um að yfirheyrslu yfir aðstoðarmanni hennar yrði flýtt. Það er svo áhorfenda að dæma hvers eðlis slík afskipti ráðherra af rannsókn á ráðuneyti hennar eru , – í samtali við yfirmann rannsóknarinnar. Allt er þetta með ólíkindum í ríki, sem segist vera réttarríki. En fréttamaður í Íslandi í dag komst vel frá sínu. Kurteis, en fastur fyrir. Þegar hann var tvívegis búinn að spyrja ráðherra sömu spurningar var öllum, sem hlustuðu og horfðu, ljóst að ráðherra vildi ekki svara.

Nú hefur svo komið í ljós að ráðherra  sagði Alþingi ósatt úr ræðustóli þingsins 18.júní. Málið verður bara verra og verra.

 

Misjafnlega taka miðlar á málum. Í fjögurra dálka fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins á miðvikudag (27.08.2014) segir að ráðherra njóti trausts og þar vitnað til orða forsætisráðherra SDG Um innanríkisráðherra. Þetta þarf ekki að segja. Auðvitað situr ráðherra ekki í ríkisstjórn nema hann njóti trausts. Fyrirsögnin er ekki frétt.. Á forsíðu Fréttablaðsins segir sama dag: Grunur um stórvægileg mistök eða afbrot ráðherra. Þetta er frétt.

 

Ósköp gengur Ríkissjónvarpinu illa að láta seinni fréttir hefjast á réttum tíma. Í gærkveldi (27.08.2014) baðst Bogi afsökunar á seinkum fréttanna. Þær hófust fimm mínútum of seint. Þetta er nánast óþekkt hjá þeim erlendu stöðvum, sem hér eru aðgengilegar. Er þetta kæruleysi? Virðingarleysi fyrir auglýstri dagskrá? En fréttatíminn var góður, þegar hann kom.

 

Fréttamenn eiga að gæta þess í útvarpi að nota orð sem allir skilja. Í Spegli Ríkisútvarpsins (26.08.2014) sagði fréttamaður: ,, … vildi frekar tala um fáfræði eða xenófóbíu”. Xenófóbía er andúð á útlendingum , útlendingahatur. Eitt af þessum alþjóðlegu orðum sem sá ómetanlega góði sögukennari Ólafur Hansson , kenndi okkur veturinn 1958-1959 í sjötta bekk í MR. Þau hafa mörg tollað í kolli síðan. Í sama þætti var sagt um konu að hún kæmi frá Filippseyjum. Konan var ekki að koma frá Filippseyjum. Hún var frá Filippseyjum. Þetta orðalag heyrir maður aftur og aftur og étur hver eftir öðrum sem fyrr.

 

Þáttur Óðins Jónssonar og hans fólks, Morgunútgáfan, fór  vel af stað í morgun (28.08.2014).

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Hér keppast flokkssystkin, samráðherrar o.fl. við að segja okkur að ráðherra njóti trausts. Óskiljanleg blinda og forherðing. Hættulegt hugarfar.

  2. Jón skrifar:

    Í Svíþjóð er háttsemi innanríkisráðherra nefnd „ministerstyre“ og er stjórnarskrárbrot.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>