Umsjónarmenn Morgunútgáfunnar í Ríkisútvarpinu eru búnir að koma sér upp föstum lið. Síðasta lagi fyrir fréttir klukkan sjö á morgnana. Það heitir að vísu ekki síðasta lag fyrir fréttir. Þeir kalla það standard dagsins, eða standard morgunsins. Svo er leikið gamalt erlent dægurlag. Ekki skal haft á móti músíkinni. Kannski á þetta að koma í staðinn fyrir íslensku tónlistina, oftast íslenskt einsöngslag, stundum valið sérstaklega með tilliti til dagsins, sem áður var flutt á undan hádegisfréttum? Málfarsráðunautur er að líkindum ekki lengur starfandi við Ríkisútvarpið. Þess sér að minnsta kosti ekki stað. Standard er ekki íslenska, eins og hér hefur áður verið nefnt. Það er ekki hlutverk Ríkisútvarpsins að spilla tungunni.
T.H. vísar á frétt á mbl.is (18.09.2014): http://www.mbl.is/sport/handbolti/2014/09/18/allt_lid_sem_vilja_taka_naesta_skref/
Fyrirsögn á Mbl.is:
„Allt lið sem vilja taka næsta skref“. Hann spyr:
Hvers konar bull er þetta eiginlega? – Ekki treystir Molaskrifari sér til að svara því, en þakkar ábendinguna.
Ekki er það alveg horfið úr ljósvakanum að tala um að kjörstaðir opni eða loki, eins og vonast var eftir hér í Molum á dögunum. Því orðalagi brá fyrir í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (18.09.2014) að kjörstaðir lokuðu. Orðalagið er út í hött. Heyrðist reyndar líka í Speglinum (18.09.2014)
Það er ágætt í Morgunútgáfunni að byrja á því klukkan hálf sjö að segja okkur hvenær sólin komi upp í Reykjavík. En á fimmtudagsmorgni voru menn ekki mjög vel vaknaðir. Klukkan hálf sjö var sagt að sólin hefði komið upp klukkan 06:58, eða fyrir röskri hálfri klukkustund! Svo var þetta fimmtudagurinn 18. september ekki 17. september eins og sagt var. Það má ekki byrja daginn með því að rugla mann svona illilega í ríminu!
Valur sendi Molaskrifara línu og vitnar í frétt á mbl.is (17.09.2014), en þar segir: ,,Að sögn Þorra Magnússonar framleiðslustjóra sem er í fjörunni og horfir á skipið er framskipið laust en afturhluti skipsins á skerinu. Skipið er á vegum Nesskipa og er það erlent”. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/17/afturhluti_skipsins_fastur_a_skerinu/
Valur segir:,, Og segir blaðamaður lesendum um ,,framskip,, og ,,afturhluta skips,, greinilegt að blaðamaður hefur aldrei migið í saltan sæ. Því þetta heitir líkt og allir eiga að vita skutur og stefni. Vonandi getur þú birt þetta.” Molaskrifari þakkar bréfið.
Auglýsingastofur og auglýsendur nota of oft slettur. Molaskrifara finnst það ekki góð sölumennska að nota fyrirsögnina: Það geta ekki allir verið gordjöss. Þetta er í auglýsingu frá bílasalanum BL. Ljót sletta. Vond auglýsing. Þar að auki skilja þetta ekki allir.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar