«

»

Molar um málfar og miðla 1609

 

Molavin sendi eftirfarandi (04.11.2014): „Æpir til að fela að hann fer með rangt mál“ segir í fyrirsögn á ruv.is (4.11.14). Verður maður ekki að gera ráð fyrir að fréttamenn Ríkisútvarpsins kunni rétta notkun viðtengingarháttar, sérstaklega þegar þeir breyta út af tilvitnuðum orðum? Röng notkun viðtengingarháttar var orðin útbreidd á þeim netmiðlum og síðum, sem skrifuð eru af ungu fólki, sem heldur að blaðamennskan sé skemmtun. Ríkisútvarpið er enn fyrirmynd og á að gera betur. – Satt segirðu , Molavin. Ríkisútvarpið á að geta gert betur.

 

Molavin sendi einnig þessar ábendingar (05.11.2014): „Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra til fimmtán ára segist margoft hafa nýtt sér hugleiðslu á löngum fundum meðan hann sat í ríkisstjórn.“

„Þau voru mjólkurframleiðendur til langs tíma ásamt því að vera með fjárbúskap og hesta.“

Þetta eru tilvitnanir í síðu RÚV og í Morgunblaðið í dag (5.11.14). Hvort tveggja dæmi um breytta málnotkun, sem þarf í sjálfu sér ekki að vera röng, en stangast samt á við málkennd og venju.

Björn var ráðherra í fimmtán ár – ekki til 15 ára. Og hjónin á Völlum í Reykjadal í Þingeyjarsýslu voru kúabændur til skamms tíma (þar til fyrir skömmu). Hér nægir að segja að þau hafi lengi verið kúabændur. Það er orðin árátta að skreyta fréttaskrif með rithætti, sem mönnum finnst hljóma betur – en stangast oft á við málvenju. Best er að skrifa einfalt mál og skýrt – og láta vera að nota orðalag, sem fólk þekkir ekki vel. – Molaskrifari þakkar línurnar.

 

 

Í útvarpsviðtali (04.11.2014) talaði fjármálaráðherra um að hugsanlegt væri að hafa amnesty ákvæði í löggjöf. Þetta var sletta hjá ráðherranum og líklega hefur hann átt við ákvæði um sakaruppgjöf.

 

 

Það urðu alþingiskosningar 2013, sagði alþingismaður, formaður fjárlaganefndar, î Kastljósi á þriðjudagskvöld (04.11.2014). Einmitt það! Það urðu kosningar. Bara si svona, eins og sagt er!

 

Molaskrifari veltir fyrir sér: Í morgunfréttum Ríkisútvarps (05.11.2014) var talað um íbúðarhús. Þar var líka talað um íbúðarhótel. Ætti það ekki frekar að vera íbúðahótel?

 

Prýðilegur fréttaflutningur Sveins Helgasonar um kosningarnar í Bandaríkjunum í Morgunútgáfunni á miðvikudagsmorgni (05.11.2014). Umsjónarmaður sagði um Obama: Það er jafnvel talað um að þeir vilji setja hann af – impeachment. – Hversvegna þurfti hann að bregða fyrir sig ensku? Algjör óþarfi.

 

Næstu Molar á mánudag.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    „„Æpir til að fela að hann fer með rangt mál““
    Hvað er athugavert við þetta málfar? Í minni sveit væri það bæði viðurkennt og viðeigandi, eins og lærifaðir minn Halldór Halldórsson taldi að skilgreindi „rétt“ málfar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>