«

»

Molar um málfar og miðla 1684

 

Gamall samstarfsmaður sendi Molum eftirfrandi (26.02.2015): ,,Orðskrípið „óásættanlegur“ veður uppi sem aldrei fyrr og það jafnvel í tilkynningum frá akademískum stofnunum. Ég heyrði þennan ófögnuð fyrst af muni verkalýðsforingja eins fyrir hálfum öðrum áratug eða svo og síðan hefur honum stöðugt vaxið fiskur um hrygg. Við eigum mörg góð orð í íslensku máli sem hægt er að nota í staðinn fyrir þetta skrípi og má þar nefna af handahófi orðin óboðlegur, slæmur, vondur, óframbærilegur o.s.frv. o.s.frv. “

Molaskrifari þakkar bréfið og er bréfritara hjartanlega sammála.

 

Í Víðsjá á Rás eitt (25.02.2015) var talað um … tilnefndustu mynd Óskarsverðlaunanna að þessu sinni. Tilnefndur , tilnefndari, tilnefndastur ??? Þessa orðmynd er ekki að finna á vef Árnastofnunar http://bin.arnastofnun.is/forsida/

 

Ekki kann Molaskrifari fyllilega að meta orðið snjóbylur sem skrifað var á skjáinn í veðurfréttum Ríkissjónvarps (24.02.2015). Orðið er vissulega að finna í íslenskri orðabók. Betur kann skrifari við að talað sé um byl, hríð, stórhríð eða snjókomu. Orðið snjóstormur sem stundum bregður fyrir í fréttum er ótækt, hrátt úr ensku (snowstorm).

 

Það barst í tal í kunningjasamtali á dögunum að óþörf þolmyndarnotkun í fréttaskrifum færi vaxandi. Hér er dæmi af mbl.is (26.02.2015): Hann var sótt­ur á lög­reglu­stöðina af móður sinni, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá lög­reglu.

Hér hefði farið miklu betur á því að segja: Móðir hans sótti hann á lögreglustöðina samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.

Germynd er alltaf betri.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/02/26/mamma_latin_saekja_soninn/

 

Handbolti í samtals tvær klukkustundir, lungann úr kvöldinu í gærkvöldi í Ríkissjónvarpinu (26.02.2015). Óboðlegt. Svo Molaskrifari segi það nú einu sinni enn.  Enn er spurt: Til hvers er svokölluð íþróttarás?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>