«

»

Molar um málfar og miðla 1694

 

Þórhallur Jósepsson skrifaði (11.03.2015):

,,Sæll.
Hverjir eru strandarglópar?
Ég spyr því svo virðist, sem alveg nýr skilningur sé kominn í þetta orð, a.m.k. ef marka má fréttamenn Ríkisútvarpsins. Ég hélt að strandarglópur væri sá sem situr eftir bjargarlaus á ströndinni og hefur misst af fari sínu. Í seinni tíð hefur þetta yfirfærst á þá sem á einhvern hátt missa af fari, t.d. ná ekki rútunni norður eða eru of seinir út á flugvöll og missa af flugvélinni, sjá jafnvel á eftir henni taka á loft. Þetta eru sannarlega strandaglópar.
Nú ber hins vegar svo við að fréttamenn Ríkisútvarpsins og stundum líka annarra miðla tala um veðurteppt fólk sem strandarglópa. Að mínum málskilningi er það skilningsleysi á orðinu strandarglópur sem felst í þessu. Í stað þess að tala um að 300 strandarglópar hafi verið eða orðið að hafast við í Staðarskála hefði átt að tala um að 300 manns væru veðurteppt í Staðarskála eða einfaldlega að 300 væru veðurtepptir í Staðarskála. Þarna hefðu fréttamenn átt að staldra aðeins við og velta fyrir sér orðanotkun, jafnvel hefði málfarsráðunautur mátt koma við hjá þeim og ræða málin (það er víst málfarsráðunautur starfandi hjá Ríkisútvarpinu).

Annað: Hvenær ætla Sambíóin að hætta að auglýsa: „Sambíóin kynnir ….“? – Kærar þakkir, Þórhallur.

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins á fimmtudag (12.03.2015) talaði einn umsjónarmanna tvisvar sinnum um veðurteppta ferðalanga í Staðarskála sem strandaglópa. Strandaglópur er sá sem verður af skipi eða öðru farartæki. Raunar gefur Íslensk orðabók það sem viðbótarmerkingu að vera tepptur og komast ekki lengra. Það er mér nýtt. Þegar rætt var við staðarhaldarann í þessum þætti (12.03.2015) var spurt hvort í Staðarskála væri fólk, sem veitti áfallahjálp !!!

 

Rafn benti á þennan myndatexta á mbl.is (11.03.2015): ,,10-15 rút­ur voru lagðar fyr­ir utan versl­un­ar­miðstöðina fyrr í dag”. Óþarft ætti að vera að hafa mörg orð um þetta. Rúturnar voru ekki lagðar. Þeim var lagt. Hér er fréttin: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/10/verslunarmidstod_vard_neydarskyli/

 

Rætt var um störf þingsins við alþingismann í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (11.03.2015). ,, Við þurfum að kovera rosalega mikið”, sagði þingmaðurinn. Ljót enskusletta. Svolítið seinna kom soldið spes og svo kom aftur spes. Barna- eða unglingamál. Kannski er það gamaldags að ætlast til að þingmenn vandi mál sitt í opinberri umræðu. Molaskrifari ætlast nú samt til þess.

 

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (11.03.2015) var sagt að kosið yrði um verkfall í fjölmennu stéttarfélagi. Eðlilegra hefði verið að segja okkur að atkvæði yrðu greidd um verkfallsboðun. Fréttaskrifarar eiga að kunna að greina á milli þess að kjósa og greiða atkvæði um eitthvað.

 

Í gærkvöldi (12.03.2015) hófust seinni fréttir Ríkissjónvarps næstum  fimmtán mínútum of seint. Sá enga tilkynningu um seinkun fréttanna á skjánum og ekki bað fréttaþulur okkur afsökunar á seinkuninni. Svona gera alvöru sjónvarpsstöðvar ekki. Kurteisi kostar ekki neitt. Er enginn við stjórnvölinn á fréttastofunni? Er öllum bara skítsama, – svo notað sé óheflað orðalag? Skítsama um þá sem, þessi  ríkis ohf stofnun á að þjóna?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    Hafið heilir mælt um andskotans glópsháttinn þeirra sem kalla veðurteppusjúklinga strandaglópa.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>