«

»

HVE LENGI ENN,SJÁLFSTÆÐISMENN?

Samstarf í tveggja flokka stjórn  byggist á  gagnkvæmu trausti og trúnaði oddvita flokkanna. Þannig  var í Viðreisnarstjórninni og þannig var það  lengst af í Viðeyjarstjórninni.

Oddvitar  flokkanna  gefa  ekki mikilvægar stefnumarkandi yfirlýsingar, án þess að hafa um það samráð sín á milli.

Þessu er á annan veg farið í núverandi  ríkisstjórn.  Forsætisráðherra  SDG gefur stefnumarkandi yfirlýsingar út og suður án samráðs, að því er virðistr við  hinn stjórnarflokkinn. Þetta vekur ekki fögnuð hjá  Sjálfstæðismönnum. Þeim þykja þessi vinnubrögð  ekki til marks um heilindi og heiðarleika.

SDG vill nýjan  Landspítala á frímerkisblettinn þar sem útvarpshúsið er. Málið er á  forræði heilbrigðisráðherra. Frá honum heyrist ekki. Ekki tíst. Ekki sem ég hef heyrt að minnsta kosti.  Fjármögnun verksins er á  forræði fjármálaráðherra, formanns  Sjálfstæðisflokksins, sem heldur   segir ekki neitt. Bældir menn og beygðir.

SDG hristir  rykið af stúdentagarðsteikningu frá námsárum  Guðjóns  Samúelssonar, seinna húsameistara meistara ríkisins. Þarna áttu stúdentar að búa meðan  neðri hæð  þinghússins hýsti Háskóla Íslands. (Guðfræðideildin rúmaðist í þingflokksherbergi Alþýðuflokksins) SDG vill klastra  þessu  húsið við okkar  fallega þinghús. Ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma af fjöllum og klóra sér í hausnum.  Þjóðin hélt að þetta væri apríl gabb. Hún áttar sig  ekki á því að  forsætisráðherra  er  kannski bara eitt allsherjar apríl gabb.Hélt kannski,  að ráðherra hefði fengið heilahristing, en varpaði þeirri  hugsun snarlega frá sér.

SDG vill allt í einu nýja Valhöll á Þingvöllum. Hann hefur þar bústað  fyrir sig og sína. Ég hef engan  hitt, sem vill nýja  Valhöll á  Þingvöll.  Þar er varla pissipláss fyrir þá tugi þúsunda eða þau  hundruð  þúsunda  ferðmanna, sem koma  þangað árlega og léleg aðstaða er til að sinna.

Hve lengi ætla  Sjálfstæðismenn að halda áfram að láta Framsóknarmenn niðurlægja sig í þessu stjórnarsamstarfi?

Einkunnarorðin  virðast sótt í forneskjuna eins og  fleira;  nefnilega:  Ríkið það er ég.

Hve lengi, hve lengi, Sjálfstæðismenn?

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Enn fjarstæðukenndari ef eitthvað er. Dario Fo færi hjá sér, ef hann upplifði þennan fjarstæðufarsa Framsóknarflokks samtímans.

  2. Kristján skrifar:

    Framganga Framsóknar er eins og í leikriti eftir Dario Fo.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>