Fyrirsögn úr Kjarnanum (23.05.2015): Svíar sigruðu Eurovision söngvakeppnina eftir spennandi stigagjöf – Það er erfitt að hafa þetta rétt. Það sigrar enginn keppni. http://kjarninn.is/2015/05/sviar-sigrudu-eurovision-songvakeppnina-eftir-spennandi-stigagjof/
Svíþjóð sigraði í Eurovision, var réttilega sagt á mbl.is. http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/05/23/svithjod_sigradi_i_eurovision/
Af mbl.is (16.05.2015) : http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/05/16/kindur_og_snjostormur_til_cannes/
Með kindur og snjóstorm til Cannes. Orðið snjóstormur er ljót hráþýðing úr ensku, sem fréttaskrifarar ættu að forðast.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (18.05.2015) sagði umsjónarmaður að málflutningar mundu hefjast í umboðssvikamálinu ….. Málflutningur er eintöluorð. Ekki til í fleiritölu. Í sama þætti sagðist umsjónarmaður vonast eftir skandalasögum úr opnununarpartíí í Vínarborg í væntanlegu símtali síðar í þættinum. Í sama þætti daginn eftir sagði umsjónarmaður, – ,,klukkan einhverjar 18 mínútur í sjö”. Verðugt verkefni fyrir málfarsráðunaut að kenna dagskrárfólki að tala skammlaust um klukkuna og tímann! Í þessum sama þætti sagði umsjónarmaður líka nýlega, – manni langaði til að sofa. Málfarsráðunautur gæti rætt um ýmislegt fleira en klukkuna og tímann, þegar tækifæri gefst til að spjalla við umsjónarmenn.
Heldur var það fáfengilegt hjá ráðherra í ríkisstjórn Íslands að þiggja boð WOW flugfélagsins um frítt flug og gistingu í fyrstu áætlunarferð félagsins til Baltimore á dögunum. Það er ekki eins og þetta hafi verið einhver áfangi í flugsögunni eða samgöngusögunni. Síður en svo. Icelandair flaug árum saman til þessa sama áfangastaðar. Til sama flugvallar. Ráðherrar eiga ekki að láta nota sig svona.
Málskotinu, pistli málfarsráðunautar um íslenskt mál í Morgunútvarpinu er of þröngur stakkur skorinn. Örfáar mínútur einu sinni viku. Mætti gjarnan vera annan hvern dag. Þetta er nefnilega vinsælt og þakkarvert efni.
Rafn skrifaði (18.05.2015): ,,Sæll Eiður
Hvort ætli fréttabarnið, sem reit fréttina hér fyrir neðan, hafi ætlað að tala um hækkun innan árs eða milli ára. Hækkun á árinu er hækkun frá uppafi árs til loka þess, en hækkun milli ára er hækkun frá einu ári til annars, væntanlega meðalverð til meðalverðs. Að tala um hækkun á síðasta ári milli ára er því endaleysa. Framhaldið bendir til, að um hafi verið að ræða hækkun innan ársins.”
,,Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði á síðasta ári um 8,5% milli ára. Það hefur haldið áfram að hækka það sem af er þessu ári og var um 10% hærra á fyrsta fjórðungi ársins miðað við sama tíma í fyrra.”
http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/05/17/ibudaverd_haekkadi_um_8_5_prosent_2/
Af mbl.is (19.05.2015): ,,Eurovison-stjarnan María Ólafsdóttir er komin með kærasta. Sá heppni er blaðamaður á Fréttablaðinu og heitir Gunnar Leó Pálsson. Hann er með henni í Vín þar sem hún stígur á stokk í seinni riðlinum á fimmtudaginn.” Enn er hér hugtakaruglingur á ferð hjá lítt reyndum fréttaskrifara. María Ólafsdóttir ætlar ekki að stíga á stokk. Hún ætlar að koma fram og syngja. Þeir sem stíga á stokk gera það er þei r strengja þess heit að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert. Það er að verða næsta daglegt brauð að sjá þetta rugl og heyra í fjölmiðlum. http://www.mbl.is/smartland/frettir/2015/05/19/maria_byrjud_med_bladamanni_a_frettabladinu/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar