Aldarártíð kosningaréttar kvenna, er fagnað um land allt í dag. Þetta var okkur sagt í fréttayfirliti Bylgjunnar á hádegi á kvennadaginn, 19. júní. Ótrúlegt. Ártíð er dánarafmæli, dánardægur. Það eiga allir, sem skrifa fréttir að hafa á hreinu.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins, sama dag 19.júni, var Ingibjörg H. Bjarnason kölluð fyrsta alþingiskonan. Í Spegli Ríkisútvarpsins og í fréttum Stöðvar tvö sama dag var hún kölluð þingkona. Ingibjörg H. Bjarnason kallaði sig alþingismann, sjálfsagt í ljósi þess, að konur eru menn. Þessvegna á að kalla hana alþingismann í dag. Það var seinni tíma Kvennalisti, sem innleiddi orðið alþingiskona, þingkona; átti víst að vera einhverskonar jafnréttishugsun, sem fjölmiðlar fóru svo smám saman að éta upp hver eftir öðrum eins og oft gerist.
Í fréttatíma Bylgjunnar (17.06.2015) heyrðist alþingismaður tala um ,,að halda upp á hundrað ára afmæli kosningarétts kvenna”. Kosningaréttar kvenna, hefði það átt að vera. Í sama fréttatíma var sagt að Azoreyjar væru undan strönd Portúgals. Eyjarnar eru 1525 km frá strönd Portúgals. Eiginlega úti í miðju Atlantshafi.
Það er ekki sama hvernig þulir lýsa beinum útsendingum í sjónvarpi. Sautjánda júní var okkur sagt. ,, Nú sjáum við að verið er að bera blómsveiginn að styttu Jóns Sigurðssonar”. Þetta þurfti ekki segja okkur. Þetta sáum við. Nær hefði verið að segja okkur hverjir báru sveiginn. Það var reyndar gert seinna. Í svona lýsingum falla menn oft í þá gryfju, að segja fólki hvað sé á skjánum í stað þess að bæta einhverjum fróðleik við.
Í heilsíðuauglýsingu frá Húsasmiðjunni og Blómavali í Fréttablaðinu á þjóðhátíðardaginn segir stórum stöfum: Sláum upp fána. Þetta orðalag hefur Molaskrifari aldrei heyrt. ,,Skjótum upp fána, skært lúðrar hljóma”, segir í ljóðinu.
Úr frétt á mbl.is (17.06.2015) um húsbíl sem varð eldi að bráð: ,,Tvær tilkynningar um eld bárust slökkviliðinu um fimm leitið í nótt, önnur á Funahöfða og hin í Kórahverfi. Voru tvær stöðvar sendar í Funahöfða og ein í Kórahverfið.” Þetta orðalag hefur svo sem sést áður. En hvernig voru stöðvarnar sendar?
Úr frétt á mbl.is (18.06.2015): ,, Þrír hollenskir ferðamenn létu lífið og 31 manns slasaðist alvarlega þegar rúta ók út af veginum í suðurhluta Portúgals í gærkvöldi.” Hér hefði verið rétt að segja ,, … 31 maður slasaðist alvarlega …” http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/06/18/ferdamenn_forust_i_rutuslysi/
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (18.06.2015) var okkur skýrt og skilmerkilega sagt að seinna í fréttunum yrði rætt við Sigurbjörgu Daðadóttir. Í fréttum Stöðvar tvö sama kvöld var okkur sagt hver hefði sigrað keppnina Sterkasti maður Íslands. Það hallast ekki á.
Verslunin Víðir auglýsti lambalærisútsölu á Bylgjunni (18.06.2015). Vantaði ekkert annað en að bæta við: Fyrstur kemur, fyrstur fær! K.Þ. sendi Molaskrifara línu af þessu tilefni og sagði: ,,Sæll, Eiður. Í útvarpi er nú auglýst „lambalærisútsala“. Ég var að hugsa um að fara, en þá var frændi minn búinn að kaupa lærið”. Ekki lék lánið við K.Þ. að þessu sinni. Kannski verður annað læri sett á útsölu!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Sigurður Oddgeirsson skrifar:
22/06/2015 at 12:59 (UTC 0)
Lambalærisútsala. Það er annað, sem mér findist eðlilegt að fetta fingur út í, en það er þessi tilhneiging, að slá saman nafnorðum og gera að einu. Þetta er auðvitað ekki rangt. En mér finnst ekki fara vel á þessu. Sjálfsagt hefði bögubósinn áttað sig, ef hann hefði hugsað þetta á „íslenzku“ og skrifað: útsala á lambalærum!