«

»

Molar um málfar og miðla 1741

 

Molavin skrifaði (22.06.2015): – „Skets úr fyrsta þættinum“ segir i dagskrárkynningarfrétt Stöðvar-2 á visir.is (22.06.2015). Enskuslettur af þessu tagi eru ekki aðeins óþarfar – það er til mjög gott orð, „stiklur“ yfir sýnishorn af þessu tagi – heldur eru þær merki um aðhaldsleysi af hálfu ritstjórnar. Ungt fólk, sem sýnir ekki viðleitni til að skrifa gott mál eða ræður ekki við það, á ekkert erindi í fréttaskrif. Ritstjórar fjölmiðla bera mikla ábyrgð á þróun málsins. Það eru svo sannarlega engir Fjölnismenn, sem nú um stundir fara með ritstjórnarábyrgð á fjölmiðlum eða netmiðlum.- Molaskrifari þakkar bréfið og tekur undir hvert orð.

Sjá: http://www.visir.is/thaer-tvaer–skets-ur-fyrsta-thaettinum/article/2015150629753

Þarna segir líka ,, Þær Tvær eru nýir íslenskir sketsaþættir sem þær Júlíana Sara Gunnarsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir leika aðalhlutverkin í og skrifa handritið að. Þátturinn fór í loftið á Stöð 2 á sunnudagskvöldið.
Hér að ofan má sjá einn skets úr fyrsta þættinum.#

 

Í stuttri frétt í Morgunblaðinu (22.06.2015) um fræðslu fyrir ungt fólk um grunnatriði ræðumennsku er talað um að læra helstu trikkin í bransanum. Í fullri hreinskilni, þá finnst skrifara þetta orðalag í frétt Morgunblaðsins ekki vera til fyrirmyndar.

 

Er Molaskrifari einn um að vera búinn að fá upp í kok af dönskum kökuþáttum í Ríkissjónvarpinu? – Er ekki hægt að sýna þetta á einhverjum öðrum tíma en í miðri kvölddagskrá?

 

Garðbæingar eldast hratt, segir í fyrirsögn í Fréttablaðinu (22.06.2015).

Er ekki best að fara að flytja?

Svo er haft eftir formanni bæjarráðs, að leitað sé leiða til að auka jafnvægi í aldursdreifingu. – Á maður þá kannski að flýja?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>